15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1567)

Afgreiðsla frumvarps um Ríkismat sjávarafurða

Forseti (Ingvar Gíslason):

Þetta eru að vísu afskaplega elskuleg tilmæli til forseta um málsmeðferð og að vísu er búið að vinna langan vinnudag, en það má heita að þetta sé í fyrsta skipti á þessum vetri sem við erum með virkilega langan fund. Og það þarf ekki að koma þingvönum manni eins og hv. 3. þm. Reykv. neitt á óvart þó að einstöku sinnum sé þess talin þörf að vinna hér eitthvað lengur en venja er á almennum vinnustöðum.

Eftir því sem forseti best veit þá er talsvert lagt upp úr því að frv. um Ríkismat sjávarafurða verði rætt og það gangi fram eins og kemur fram af því að við vorum að samþykkja það í kvöld að þetta frv., ef að lögum verður, taki gildi 1. jan. 1987, þ.e. eftir um það bil hálfan mánuð, þannig að það eru ýmis rök fyrir því að ræða þetta frv. nú vegna þess að það á þá líka eftir að fara í gegnum Ed. Forseti sér þannig ekki ástæðu til þess, þó hann vilji allt fyrir þingdeildarmenn gera og ekki síst fyrir hv. 3. þm. Reykv., að fresta umræðunni um þetta og mun taka fyrir og láta ræða Ríkismat sjávarafurða.