16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1788 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

139. mál, vísinda- og rannsóknaráð

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Staða og skipulag rannsóknastarfsemi innan stjórnkerfisins hérlendis hefur þarfnast endurskoðunar og breytinga um árabil. Skorti á heildarskipulagi hefur fylgt alvarlegur skortur á fjármögnun rannsókna hérlendis, en við Íslendingar leggjum minna af opinberu fé til rannsókna en nokkur nágrannaþjóð okkar.

Forsaga málsins er sú að með lögum frá 1929 var ríkisstjórninni heimilað að setja á stofn rannsóknar og tilraunastofu fyrir þarfir atvinnuveganna og var þá reist Rannsóknastofnun Háskóla Íslands sem tekin var í notkun 1937. Í ársbyrjun 1939 var stofnuð Rannsóknanefnd ríkisins og var henni falin yfirstjórn Rannsóknastofnunar Háskólans. Árið 1940 er nefndin skírð Rannsóknaráð ríkisins og stofnunin Atvinnudeild Háskólans. Þegar þrengjast fór um starfsemi hennar, sem var til húsa á háskólalóðinni, fluttist hún upp í Keldnaholt, en starfsemi fiskideildar Atvinnudeildarinnar fluttist á Skúlagötu 4.

Árið 1965 var svo gerð skipulagsbreyting á rannsóknastarfseminni með setningu laga nr. 48, um almennar náttúrurannsóknir, og nr. 64, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Komst þá á sú skipan Rannsóknaráðs og Rannsóknastofnana atvinnuveganna og Náttúrufræðistofnunar sem enn gildir og formleg tengsl við Háskólann rofnuðu. Margir eru þeirrar skoðunar að þetta hafi verið mjög óheppilegur ef ekki hörmulegur atburður fyrir þróun raunvísindarannsókna á Íslandi.

Síðan þetta varð hefur orðið nær stökkbreyting í þróun og mikilvægi rannsókna, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Flestar þjóðir auka nú mjög fjárfestingu í rannsóknum og þessi auknu útgjöld eru tengd bjartsýni um þá möguleika sem felast í nýrri þekkingu og tækninýjungum, en á þeim sviðum vænta menn helstra framfara og breytinga á atvinnuháttum á komandi árum. Jafnframt er sífellt fleirum að verða það ljóst að vísindaleg þekkingarsköpun er álíka mikilvæg fyrir sjálfstæði þjóða og listsköpun, viðhald sérstakrar þjóðtungu og vökul tengsl við menningarrætur og þjóðarsögu. Þeim fer einnig fjölgandi sem bera hag Háskólans fyrir brjósti sem vísindastofnunar en ekki fyrst og fremst embættismannaskóla.

Meðal þess sem þarf að gera til úrbóta er að koma á betra skipulagi hvað varðar rannsóknastarfsemina í landinu og tryggja henni meira fé. Fyrir nokkrum árum var skipuð nefnd til að endurskoða tillögur um Vísindasjóð, en hann hefur lengst af verið eini sjóður hérlendis sem veitt hefur styrki til rannsókna.

Þessi nefnd og önnur nefnd sem hafði það hlutverk að endurskoða lög um rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna héldu nokkra sameiginlega fundi og lögðu fram samræmdar tillögur þar sem gert var ráð fyrir tveimur ráðum, Rannsóknaráði ríkisins með sjö manna stjórn og Rannsóknarsjóði og svo Vísindaráði ríkisins með fimm manna stjórn og Vísindasjóði hins vegar. Til samræmingar skyldi svo starfa samstarfsnefnd ráðanna. Mörgum þótti þetta fyrirkomulag of flókið í svo litlu landi sem Ísland er og töldu réttara að hafa ráðið eitt. Á undanförnum árum hefur svo þetta mál verið enn til endurskoðunar hjá menntmrn. og mun nú frumvarpsgerð á lokastigi.

Hvað sem öllum ágreiningi líður um það hvort ráðin eigi að vera eitt eða tvö er afar brýnt að leggja fram á Alþingi frv. um þetta mál til kynningar. Það er brýnt vegna þess að gera má ráð fyrir að umfjöllun um frv. taki nokkurn tíma hjá þeim aðilum sem málið varðar mest og þessi umræða þarf að hefjast sem fyrst.

Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvenær hyggst menntmrh. leggja fram frv. um vísinda- og rannsóknaráð?