16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Mikil óánægja er á meðal þeirra sem hafa á undanförnum árum verið að reyna að eignast þak yfir höfuðið vegna þess að á sama tíma og vísitala á laun var alfarið tekin úr sambandi hækkaði lánskjaravísitala upp úr öllu valdi. Húsfyllir var þegar óánægðir húsbyggjendur héldu fund um húsnæðismál í Sigtúni í ágúst 1983 þar sem þessi mál voru rædd. Kröfðust fundarmenn bæði lengingar lána og leiðréttingu varðandi lánskjara- og kaupgjaldsvísitölu. Munurinn á þessum tveimur vísitölum hafði þá og hefur enn verið afar óhagstæður fyrir þá sem eru að reyna að eignast húsnæði. Í sama mánuði var ákveðið að taka upp nýjan grundvöll til útreikninga á lánskjaravísitölu. Ríkisstjórnin gaf góðar vonir um smáskilning á þessum vanda þegar hún ákvað á sama tíma að draga úr fjármagnskostnaði húsbyggjenda og námsmanna með því að láta þennan nýja vísitölugrunn gilda fyrir húsnæði eins og námslán. Ef miðað var við gamla vísitölugrunninn átti vísitalan að hækka um 8,1% eða sem svaraði 155% verðbólgu miðað við heilt ár, en samkvæmt nýja vísitölugrunninum átti hækkunin að vera 5,1%.

Í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar frá þessum tíma kom fram að ákveðið var að ganga til móts við húsbyggjendur og námsmenn með þeim hætti að nýja lánskjaravísitalan gilti strax gagnvart þeim og verði því 5,1% í september. Jafnframt mun ríkisstjórnin, segir enn fremur í þessari fréttatilkynningu, beina þeim tilmælum til lífeyrissjóða að þeir hafi sama hátt á húsnæðislánum sínum. Í framhaldi af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar ritaði félmrh. svohljóðandi bréf til stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins sem ég vitna í, með leyfi hæstv. forseta:

„Félagsmálaráðuneytið tilkynnir hér með stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins að þrátt fyrir ákvörðun og tilkynningu um að lánskjaravístitalan fyrir septembermánuð 1983 skuli hækka um 8,1% hefur ríkisstjórnin ákveðið að tilsvarandi álag á lán veitt úr Byggingarsjóði ríkisins skuli aðeins nema 5,1% fyrir september 1983.“

Bréf þetta er undirritað af hæstv. félmrh. og Hallgrími Dalberg.

Nú hefur tvívegis verið mjög mikið ritað um þetta mál í dagblöðum og talað um það í fjölmiðlum, bæði 1985 og síðla árs 1986. Fram kom í blöðum nú að þessi ákvörðun hefði aðeins náð til 17 fjölskyldna, það hefði aðeins einn byggingaraðili byggt húsnæði fyrir þessa 17 aðila og ástæðan gefin sú að gjalddagi hafi verið í september. Þar af leiðandi hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. sem er 200. mál Sþ. á þskj. 212 og hljóðar svo:

„Hvernig hefur félmrh. staðið að framkvæmd þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hækkun lánskjaravísitölu í september 1983 yrði 5,1% í stað 8,1% á lán veitt úr Byggingarsjóði ríkisins?"

Hæstv. forseti. Hæsfv. ráðh. hefur fsp. fyrir framan sig þannig að það er kannske tímasóun að halda lestrinum áfram. Ég nýti mér minn seinni tíma til að ræða þetta mál.