16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við 1. lið fsp. tel ég rétt að lesa meginefni bréfs til stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 12. des. s.l., en bréfið hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Í sambandi við umfjöllun fjölmiðla og annarra nú undanfarið um lánskjaravísitölu í septembermánuði 1983 hefur ráðuneytið kannað hvernig framkvæmd Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur verið háttað á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 26. ágúst 1983 varðandi útreikning lánskjaravísitölu á lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Könnun þessi hefur leitt í ljós að Húsnæðisstofnun ríkisins hefur í þessu efni ekki farið eftir fyrirmælum ráðuneytisins og túlkun og leiðbeiningu Seðlabanka Íslands. Af því tilefni vill ráðuneytið rifja upp eftirfarandi:

Hinn 26. ágúst 1983 samþykkti ríkisstjórnin að ganga til móts við húsnæðisbyggjendur með þeim hætti að verðtrygging á lánum úr Byggingarsjóði ríkisins til þessara aðila skyldi í september 1983 vera 5,1% í stað 8,1. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar fólst einfaldlega það að gildistöku nýrrar lánskjaravísitölu var flýtt um einn mánuð gagnvart þessum aðilum.

Ofangreindri samþykkt ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við Húsnæðisstofnun ríkisins með bréfi ráðuneytisins dags. 2. sept. 1983. Um svipað leyti var fréttatilkynning frá ríkisstjórninni birt í fjölmiðlum þar sem grein var gerð fyrir þessari samþykkt.

Með bréfi dags. 7. sept. 1983 óskaði Húsnæðisstofnun eftir upplýsingum um hvernig ætti að framkvæma fyrrnefnda ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Af því tilefni kvaddi félmrh. stjórnendur Húsnæðisstofnunar ríkisins á sinn fund þegar í stað og fól þeim að framkvæma ákvörðun ríkisstjórnarinnar í samráði við Seðlabanka Íslands.

Í grg. hagfræðideildar Seðlabanka Íslands dags. 5. sept. 1983 komu fram leiðbeiningar um framkvæmd á samþykkt ríkisstjórnarinnar.

Í marsmánuði 1985 varð ráðuneytinu ljóst að Húsnæðisstofnun ríkisins hafði enn ekki komið samþykkt ríkisstjórnarinnar í framkvæmd. Af því tilefni ritaði ráðuneytið Húsnæðisstofnun ríkisins bréf dags. 4. mars 1985 þar sem fyrirmælin voru ítrekuð, að stofnunin hrinti samþykkt ríkisstjórnarinnar í framkvæmd í samráði við Seðlabanka Íslands. Í bréfinu er sérstaklega tekið fram að ráðuneytið hafi alltaf gengið út frá því að farið hefði verið eftir þeim fyrirmælum.

Ráðuneytið hefur undir höndum bréf Seðlabanka Íslands til Húsnæðisstofnunar ríkisins dags. 11. mars 1985 þar sem túlkun bankans á samþykkt ríkisstjórnarinnar og leiðbeiningar um framkvæmd hennar koma greinilega fram. Með vísun til framanritaðs vill ráðuneytið átelja aðgerðarleysi Húsnæðisstofnunar ríkisins í máli þessu. Jafnframt leggur ráðuneytið fyrir stofnunina að framkvæma tafarlaust margnefnda samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 26. ágúst 1983 í samráði við Seðlabanka Íslands og samkvæmt leiðbeiningum hans sem hann hefur tekið að sér.

Samkvæmt upplýsingum Húsnæðisstofnunar ríkisins hafði breytingin á meðferð lánskjaravísitölunnar áhrif á um 5100 lán til nýbygginga og 2800 lán til kaupa á eldri íbúðum. Samkvæmt upplýsingum hagdeildar Seðlabanka Íslands var stofn lána með lánskjaravísitölu hjá Byggingarsjóði ríkisins 1 milljarður 160 millj. kr. í september 1983 og afsláttur vegna umræddra breytinga á lánskjaravísitölu á verðlagi þess tíma 32,5 millj. kr. Á núverandi verðlagi er þessi afsláttur 63,8 millj. kr. Rétt er að benda á að áhrif þessa afsláttar koma fram í lækkuðum inngreiðslum í sjóðinn á löngu árabili eða fram að árinu 2010. Árleg lækkun á núverandi verðlagi er um 4 millj. kr. Afslátturinn árin 1983-1986 er sem hér segir á verðlagi hvers árs: 1983 0,5 millj. en á núgildandi verðlagi 1 millj., 1984 2 millj. en á núgildandi verðlagi 3 millj., 1985 3 millj. en á núgildandi verðlagi 4,1, 1986 4 millj. en á núgildandi verðlagi 4,1 millj. Samtals 12,2 millj. kr. sem verður að endurgreiða lántakendum samkvæmt ákvörðun sem tekin var.

Varðandi 4. lið fsp. er vísað til svars við 1. lið hennar, en eins og þar kemur fram tel ég að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi ekki framfylgt ákvörðun ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir margítrekuð fyrirmæli ráðuneytisins. Þótt hér sé um lágar upphæðir að ræða á hverju ári og lítið sem kemur í hlut hvers lántakanda ber að sjálfsögðu að framkvæma þetta undanbragðalaust. Einhverjir tæknilegir örðugleikar kunna að vera á framkvæmdinni, eins og oft kemur fram í sambandi við viðskipti við Reiknistofnun bankanna og fleiri aðila, en það er engin haldbær afsökun í þessu máli og því verður fylgt eftir af fullri hörku.