16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara að elta ólar við ýmislegt sem hér hefur komið fram, en ég vil þó aðeins segja það í sambandi við ummæli hv. 6. landsk. þm. Karls Steinars Guðnasonar, þegar hann fullyrti að um ódrengskap væri að ræða, að ég get staðið við hvert einasta orð sem ég hef rakið í sambandi við þá grg. sem ég lagði fram. Þetta er saga málsins en það sem ég hef orðið að glíma við eins og hv. fyrrv. félmrh. þurfti líka að gera þegar hann var að reyna að ná fram ýmsum málum í sinni tíð eins og í sambandi við skyldusparnaðinn og í sambandi við gjalddaga lána o.s.frv. - er að málið strandaði á því að ýmsir embættismenn vilja halda öðru fram. Ég hef orðið að glíma við það að embættismenn stofnunarinnar sögðu að þetta væru svo litlar upphæðir að það tæki því ekki að leggja í svona mikla vinnu í sambandi við málið. En alla tíð hefur ráðuneytið verið með það á hreinu hvað um var að ræða. Það sem er svo aftur dæmigert í sambandi við þessi mál er það hvernig þetta er blásið upp. Ég veit ekki betur en að meðan ég var fjarverandi erlendis hafi komið í fjölmiðlum að hér væri um 250-400 millj. kr. dæmi að ræða sem það fólk sem tekið hefur þessi lán hefði verið látið ofgreiða. Þetta er náttúrlega víðs fjarri að slíkt komi til greina því að upphæðirnar hafa alltaf legið fyrir frá því að Seðlabankinn lét Húsnæðisstofnun í té greinargerð um þetta í ársbyrjun 1985. Það var aldrei hærra en þetta vegna þess að ríkisstjórnin ákvað breytingar á lánskjaravísitölunni sjálfri, að henni yrði flýtt, gagnvart Byggingarsjóði ríkisins og þess vegna gat hver maður sem vildi kafa ofan í þetta mál fengið nákvæmlega upp hvað var um að ræða. Hér er því um upphæðir að ræða með framreikningi upp á um 64 millj. kr. í sambandi við þá lántakendur sem þessi aðgerð kom til með að rétta hlut hjá.

Ég tek fram í sambandi við það sem er blandað í umræðurnar um ráðstafanir fyrir það fólk sem varð fyrir þessum misskilningi. Mér finnst nú ákaflega furðulegt að alþm. skuli geta sagt svona hluti þegar þeir vita sjálfir að það er búið að veita á annan milljarð í viðbótarlán inn í húsnæðiskerfið til að rétta hlut þessa fólks og það er ekki eins og forustumenn ýmsir og stjórnarandstaðan einnig hafa haldið fram að þetta hafi bara verið til að þyngja greiðslubyrði þessa fólks. Það er þveröfugt. Þessar upphæðir hafa farið til þess að létta greiðslubyrði fólksins. Það hefur farið til þess að greiða niður vanskilalán, skammtímalán og gera greiðslubyrðina viðráðanlega miðað við það sem hún var fyrir. Þessu er alltaf sleppt. Það er bara sagt: Þetta er bara lán á lán ofan til þess að þyngja enn byrðina.

Svona eru rangfærslurnar í þessu máli. Þær koma alls staðar fram og það jafnvel frá hv. alþm. sem vita betur. Því miður verður að harma svona vinnubrögð.

Ég ætla ekki að eyða orðum um þetta meira. Ég tek það bara fram að ef hv. þm. í þessum sal halda að það sem ýmsir fjölmiðlar eru að hafa eftir Pétri og Páli sé heilagur sannleikur er það mikill misskilningur. Það sem hefur verið haft eftir mér er algjör útúrsnúningur. Ég hef alltaf sagt að þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar átti að framkvæma í september 1983. Húsnæðisstofnunin sjálf tók þá ákvörðun að þetta ætti ekki að framkvæma nema fyrir afgreidd lán í september 1983 og gerði það þó ekki betur en svo að það var aðeins eitt framkvæmdalán sem kom til greina í staðinn fyrir allmörg lán sem voru í afgreiðslunni, leiðbeiningar Seðlabanka Íslands eru ekki teknar til greina.

Ég ætla ekki að fara meira út í þetta, herra forseti. Ég tek aðeins fram að mér finnst engin ástæða til að vera með neinar fullyrðingar án þess að fólk kynni sér raunveruleikann. Það er kapítuli út af fyrir sig að fjölmiðlar og alþm. leyfa sér að fara með það sem staðreyndir sem þeir hafa eftir ákveðnum manni í einhverri ákveðinni stofnun sem gefur sér líkan af þeim reiknikúnstum sem hann fer með. Það er tekið sem staðreynd í málflutningi manna og fjölmiðla hér á landi án þess að reynt sé til hlítar að afla þeirra raunverulegu upplýsinga sem liggja að baki þeim útreikningum sem farið er með. (Gripið fram í: Hver er þetta?) Heimildarmaður fyrir þessum fullyrðingum er maður í Fasteignamati ríkisins og hann gefur þetta reiknilíkan upp sem er því miður alrangt í þessu tilfelli og hann hefur viðurkennt það sjálfur. (SvG: Er ekki óhætt að nefna manninn á nafn?) Ég þarf ekki að nefna þetta meira, hv. 3. þm. Reykv. Ég er búinn að skýra frá því hver heimildarmaðurinn er.

Mig langar aðeins að segja það að lokum að því fólki sem á í þessum erfiðleikum er enginn greiði gerður með því að blása upp rangindum í sambandi við þetta mál. Það er miklu betra að fara með staðreyndir sem liggja fyrir. Ríkisstjórnin ákvað að milda þessar aðgerðir með því að flýta ákvörðun um nýja lánskjaravísitölu, að láta það koma til góða því fólki sem átti þar hlut að. Þarna er um 8000 lán að ræða og upphæðin er sú sem hér kom fram. Í staðinn fyrir að hún átti að vera jafnvel hundruð milljóna er hún 12,2 millj. kr. sem þetta fólk á raunverulega inni, hefur borgað vegna þess að Húsnæðisstofnun hefur ekki framkvæmt málið eins og hún átti að gera það. (Gripið fram í: Fær það það borgað?) Já, það fær það endurgreitt.