16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég veit ekki hvernig stærðfræðiþekkingu hæstv. félmrh. er háttað en ég hef þó gefið mér það að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn kunni samlagningu. Ef svo er ætti hæstv. félmrh. að átta sig á því að þegar lán bætist við lán vex heildarupphæðin og með viðbótarlánum er misréttið ekki upprætt heldur er því dreift yfir lengri tíma.

Þessi ríkisstjórn hefur haft 31/2 ár til þess að bæta fyrir það gerræði sitt sem hún greip til í upphafi valdaferils síns að skerða kaup með lögum en láta allar fjárskuldbindingar einstaklinga halda áfram án tillits til þeirrar aðgerðar. Það er almennt viðurkennt af fólkinu í landinu að þetta sé eitthvert mesta ranglæti sem fólk hefur orðið fyrir frá stjórnvöldum sínum á síðari tímum, enda greip fólk til þess að stofna samtök til varnar sér fyrir ranglæti ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur nú fáeina mánuði til að bæta úr þessu áður en kjörtímabilinu lýkur. Ég er hræddur um að dómur sögunnar um þessa ríkisstjórn, hvað þetta varðar, geti ekki orðið nema á einn veg ef hún notar ekki þessa mánuði á þann eina hátt sem réttlætanlegt væri til þess að bæta fyrir þetta misrétti. Það verður ekki gert með lengingu lána, það verður ekki gert með skuldbreytingum, það verður ekki gert með smáskítlegum aðgerðum eins og þetta mál fjallar í raun og veru um, heldur þarf að bæta fólkinu það misrétti sem það varð fyrir og allir nema þá hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstjórn viðurkenna og hafa löngu áttað sig á.