16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

200. mál, breytingar á lánskjaravísitölu í september 1983

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur heldur vonda stjórn á embættismönnum sínum virðist vera. Hann talar um að fjölmiðlar og aðrir beiti blekkingum í þessu efni. Ég ætla að segja frá örlítilli blekkingu í húsnæðismálakerfinu sem ég þekki af eigin raun.

Ég horfði í fyrrasumar á hæstv. félmrh. og forsrh. lýsa því yfir í sjónvarpsfréttum að búið væri að gera samninga við bankana og sparisjóðina í landinu um að létta á byrði húsnæðiskaupenda með því að lengja lán þeirra allt upp í 8 ár. Ég fór morguninn eftir til bankastjórans míns og fór fram á það við hann að lengja lánið mitt upp í 6-8 ár. Hann brosti. Hann sagði: Við höfum enga samninga gert. Við höfum hins vegar rætt við þessa menn en við höfum enga samninga gert. Það voru blekkingar hæstv. ráðh. og ég held að sá ráðherra sem fer með húsnæðismálin ætti ekki að hafa þessi orð uppi vegna þess að húsnæðismálin eins og þau leggja sig virðast vera einn blekkingavefur og fólk hefur mjög óljósar upplýsingar um hver réttur þess er í því kerfi.