16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

Fyrirspurn um fjárhagsvanda Þjóðleikhússins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Nú er lag á læk. Hæstv. félmrh. upplýsti áðan að embættismennirnir hefðu reiknað vitlaust út lánskjaravísitöluna fyrir hann. Svo komst hann að þeirri niðurstöðu að annar embættismaður reiknaði ástandið í húsnæðismálum eins og það væri, ástandið í húsnæðismálum væri allt Stefáni Ingólfssyni að kenna. Svo kemur hæstv. menntmrh. og upplýsir að hann hafi sjálfur enga pólitíska skoðun á því hvernig eigi að taka á vandamálum Þjóðleikhússins og að embættismaðurinn sem hafi samið svarið sé í burtu, það sé búið að leita í öllum skúffum í ráðuneytinu síðustu sólarhringa og ekkert svar finnist og ráðherrann hafi þess vegna ekkert að segja. Ja, þvílíkt, ja þvílíkt.