16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

201. mál, fjárhagsvandi Þjóðleikhússins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann veitti mér að lokum og ég treysti því að hann tali í alvöru og fyrir hönd allrar ríkisstjórnarinnar þegar hann segir að a.m.k. sé vilji til þess að reka Þjóðleikhúsið áfram skv. þeim lögum sem því voru sett.

Við könnumst öll við hvaða kröfur eru lagðar á Þjóðleikhús og allt sem í þeim lögum er sagt er í fullu samræmi við þá fullvissu hugsandi manna að list sé í dýpsta og víðtækasta skilningi óaðskiljanlegur hluti af lífi hverrar þeirrar þjóðar sem til menningarþjóða vill teljast. Þjóðleikhúsið er einn af hornsteinum þeirrar stefnu. Íslendingar ákváðu enda að byggja sér þjóðleikhús áður en þjóðin var orðin sjálfstætt ríki. Menn skildu að þjóð sem verja vildi og efla íslenska tungu og menningu þarfnaðist slíks húss.

Skv. fjárlagafrv. 1987 eru framlög ríkisins, eins og hér var áður getið, varðandi hlutfall af tekjum fyrir neðan 40% og varðandi hlutfall af gjöldum undir 30%. Halli leikhússins er inni í þessum tölum, svo og viðhald hússins, þannig að Þjóðleikhúsið hlýtur engan veginn réttláta meðferð varðandi einfalt reikningshald.

Herra forseti. Þjóðleikhús er ekki og getur ekki verið gróðafyrirtæki, en það er arðbærara en flest önnur fyrirtæki í landinu og afkoma þess um leið mælistika á menningarástand okkar. Ef við hér á hinu háa Alþingi látum okkur vilja þjóðarinnar varða, sem við ættum að gera skv. stjórnarskránni, er hann alveg skýr. Þjóðin vill eiga sér þjóðleikhús og sýnir það með aðsókn sem vart á sinn líka í veröldinni.

Hæstv. menntmrh. safnaði áhugafólki um íslenska menningu í þetta hús þegar hann tók við embætti. Ég skora á hann að standa vörð um leikhúsið og tryggja því rekstur og ytri búnað sem sæmir þeim listamönnum sem þar starfa og þjóðinni allri. Og fjvn. vil ég segja þetta að lokum: Ég skora á hana að leiðrétta nú myndarlega fjárhagsstöðu leikhússins í því góðæri sem við nú öll syndum í, þegar ekki munar um að kasta til hundruðum milljóna, og nota nú einhver hundruð til þess að koma Þjóðleikhúsinu á réttan kjöl. Það er þess fyllilega verðugt.