16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

201. mál, fjárhagsvandi Þjóðleikhússins

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ræðutími í fyrirspurnatíma er svo naumt skammtaður að hér verða ekki ræddar efnislega orsakir þess vanda sem upp er kominn, en þessi umræða verður vonandi til að minna á að hér er um ískyggilegt vandamál að ræða sem hefur sett stjórnendur Þjóðleikhússins í býsna mikinn vanda. Það er hins vegar erfitt að rökræða af hverju vandinn stafar. Hann stafar að minni hyggju af mjög óraunhæfum áætlunum á undanförnum árum og svo hinu að ekki hafa fengist aukafjárveitingar til að gera upp skuldahalann eins og alltaf voru veittar áður fyrr, ég vil segja áratugum saman, til að leysa þann vanda sem vissulega safnaðist oft upp áður fyrr. (Menntmrh.: Ekki svona stórfelldur.) En ekki svona stórfelldur. Og hann er orðinn svona stórfelldur vegna þess að menn hafa ekki gripið á honum. Menn hafa látið hlutina fljóta áfram án nokkurra aðgerða. Það sem nú þarf að gera er að greiða upp þessa óreiðuskuld og gera raunhæfar áætlanir. Svo vil ég alveg sérstaklega minna á að húsið liggur undir skemmdum. Við höfum borið fram tillögu um að áætlanir fjárlagafrv. verði endurskoðaðar og upphæðin til endurbóta hækkuð úr 7 millj. í 13 millj. Það tel ég að sé algert lágmark þess sem til þarf til að forða Þjóðleikhúsinu frá frekari skemmdum.