16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

220. mál, sjálfvirkur sleppibúnaður björgunarbáta

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi 6. jan. á þessu ári frá öryggismálanefnd sjómanna lagði nefndin til að gerð yrði ítarleg úttekt á hönnun og virkni sjálfsetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta undir stjórn tæknideildar Fiskifélags Íslands. Nefndin beitti sér einnig fyrir styrk úr Fiskimálasjóði til þessa verkefnis að fjárhæð 500 þús. kr., en ráðuneytið hafði ekki vitneskju um þann styrk fyrr en nál. barst ráðuneytinu á s.l. hausti.

Eins og kunnugt er viðurkenndi Siglingamálastofnun ríkisins á sínum tíma þrjár tegundir sjósetningarbúnaðar fyrir gúmmíbjögunarbáta á grundvelli reglugerðar sem sett var 25. júní 1982, en þar voru tilteknar þær kröfur sem gera skyldi til búnaðar. Er reglugerðin var sett lá ekki fyrir teljandi reynsla af þeim búnaði sem þá varð til og segja má að hafi verið hafður til hliðsjónar þegar reglugerðin var samin. Þrátt fyrir að þrjár gerðir búnaðar hafi verið samþykktar sem fullnægjandi samkvæmt kröfum þeirrar reglugerðar má heita nú að nær eingöngu sé um að ræða tvær tegundir þessa búnaðar á íslenskum skipum. Siglingamálastofnun hefur kappkostað að fylgjast með þeim endurbótum og lagfæringum sem gerðar hafa verið á öllum tegundum búnaðarins af framleiðendum þeirra og starfsmenn hennar verið viðstaddir prófanir á búnaðinum. Lít ég svo á að þar hafi stofnunin í einu og öllu sinnt hlutverki sínu, þ.e. krafist tafarlausra lagfæringa þar sem gallar hafa komið í ljós í þessum búnaði við eftirlit og prófanir. Á hinn bóginn tók stofnunin ekki þátt í hönnun sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta, enda er það andstætt og ósamrýmanlegt hlutverki hennar sem eftirlitsaðila með búnaðinum.

Þá vil ég taka fram að í samræmi við ákvæði nýlegrar reglugerðar um björgunar- og öryggisbúnað skipa, nr. 325 frá 1985, sem tók gildi 1. jan. á þessu ári, hefur stofnunin að höfðu samráði við framleiðendur valið sérstakan skoðunaraðila fyrir sjósetningarbúnað gúmmíbjörgunarbáta, einn í hverjum landshluta. Þessir aðilar, sem eru sex talsins, verða viðurkenndir til að sjá um bæði skoðun og viðhald þessa búnaðar, en áður var þetta í höndum skipaskoðunarmanna og fulltrúa framleiðenda í sameiningu. Hafa verið útbúnar ítarlegar leiðbeiningar fyrir þessa aðila um árlega skoðun á búnaðinum og munu þeir skila sérstakri skýrslu nú í árslok um sín störf.

Hvað varðar tillögu öryggismálanefndar sjómanna tekur hún á athyglisverðum þætti þessa máls, þ.e. hönnunarþættinum í þeim búnaði sem er á markaðnum með það fyrir augum að auka öryggi hans. Reynslan hefur sýnt að fjölmarga þætti þessa búnaðar, sem viðurkenndur hefur verið, er hægt að endurbæta, þætti sem erfitt var að sjá fyrir í upphafi. Um þessi atriði hefur Siglingamálastofnun aflað fjölmargra upplýsinga og öðlast margháttaða reynslu við skoðanir og prófanir á búnaðinum, bæði um borð í skipum og vegna viðurkenninga. Ég tel því að ætla megi að með sérstakri athugun og hönnun á virkni búnaðarins megi auka enn frekar á öryggi þess búnaðar sem nú er á markaði.

Slík athugun gæti þjónað tvennum tilgangi. Annars vegar stuðlað að auknu öryggi þessa búnaðar og hins vegar aðstoðað framleiðendur við vöruþróun og markaðssetningu erlendis. Ég hef hins vegar talið að ekki væri unnt að flýta sér um of í þessu efni og rétt að fá í hendur skýrslu skoðunarmanna nú upp úr áramótum áður en þetta verkefni væri falið öðrum. Það hvarflar satt að segja að mér að þessi athugun ásamt þeim kostnaði sem henni fylgir sé ekki eins þýðingarmikil og margar aðrar tillögur öryggismálanefndarinnar sem þurfa og verða að komast í framkvæmd ef tekst að afla fjár til. Ég tel því að að fengnum þessum skýrslum skoðunarmanna sé unnt að láta til skarar skríða um það sem fyrirspyrjandi spyr um.