16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

226. mál, bætt merking akvega

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þjóðvegir landsins eru merktir með umferðarmerkjum samkvæmt reglugerð nr. 414 frá 1978, um umferðarmerki og notkun þeirra. Nefnd sú sem vann að undirbúningi þessarar reglugerðar kynnti sér nokkuð ítarlega alþjóðlegar merkingar og öll tákn sem í reglugerðinni eru samræmast alþjóðlegum merkingum. Vegagerð ríkisins sér um að merkja þjóðvegina með umferðarmerkjum í samráði við lögregluyfirvöld og er þess sérstaklega gætt að samræmi sé í merkingum á milli landshluta. Unnið hefur verið markvisst að þessum merkingum á undanförnum árum og verður svo áfram eftir því sem ástæður og aðstæður þykja gefa tilefni til. Auk viðbóta og stöðugs viðhalds á umferðarmerkjum hefur Vegagerð ríkisins gert átak í eftirtöldum atriðum í merkingamálum á árunum 1985-1986:

1. Viðsjárverðar beygjur á stofnbrautum og umferðarmestu þjóðbrautum hafa verið merktar með svokölluðum stefnuörvum. Byrjað var á þessum merkingum 1985 og hafa rúmir 4000 km þjóðvegakerfisins verið merktir á þennan hátt. Er sérstök athygli vakin á þessu mikilsverða átaki sem vafalaust hefur aukið umferðaröryggi verulega.

2. Ákveðið hefur verið að merkja allar stofnbrautir, alla vegi með bundnu slitlagi og þjóðbrautir með malarslitlagi en meira en 100 bíla ársdagsumferð með svokölluðum kantstrikum. Er áætlað að ljúka þessari framkvæmd vorið 1988, en þá er gert ráð fyrir að stikur verði á báðum köntum á u.þ.b. 900 km vega og á öðrum kanti á u.þ.b. 3500 km.

3. Brúarendar einbreiðra brúa hafa verið merktir sérstaklega með gulum og svörtum skástrikum.

Auk framanritaðs má geta þess að Vegagerð ríkisins hefur sett á nokkrum stöðum sérstök merki við innkeyrslur á fjallvegi sem sýna með tákni að vegurinn sé eingöngu ætlaður bifreiðum með drifi á öllum hjólum. Einnig hefur Vegagerð ríkisins lagt til efni í upplýsingabækling sem Ferðamálaráð gefur út á fjórum tungumálum og hefur m.a. að geyma hagnýtar upplýsingar til ökumanna um akstur og aðstæður á þjóðvegum og fjallvegum landsins og geta menn fengið þennan bækling auðveldlega því hann er til í allnokkru upplagi.

Í þessu sambandi má geta þess að stöðugt er unnið að endurbótum á fjallvegum landsins með það að augnamiði að gera þá öruggari umferðarleiðir og voru t.d. tvær brýr byggðar á Gæsavatnaleið á s.l. sumri, Skjálfandafljót og Jökulsá á Fjöllum.

Á undanförnum árum hefur mikil umræða verið uppi um aukið umferðaröryggi m.a. með bættum merkingum vega. Hefur sú umræða ásamt þeirri þáltill. sem hv. fyrirspyrjandi gerði að umræðuefni m.a. leitt til þeirra ráðstafana sem getið hefur verið hér um. Alltaf má deila um hvort nóg sé að gert en allir eru vafalaust sammála því markmiði að gera vegakerfið þannig úr garði að vegfarendur geti farið um það áfallalítið.

Ég tel að það sem gert hefur verið í þessum efnum á síðustu árum, einkum tveimur síðustu árum, hafi verið stórt og viðamikið átak og sömuleiðis sú áætlun sem Vegagerðin byggir á á næsta ári og fram á árið 1988.