21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

41. mál, orlofsdeild Póstgíróstofu

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál um þetta atriði. Ég undirstrika það, sem allir hv. alþm. vita, að þetta kerfi, sem við höfum búið við í sambandi við greiðslu orlofs í gegnum póstgírókerfið, er ekki búið til af stjórnvöldum. Það er búið til af aðilum vinnumarkaðarins sem sömdu um þetta kerfi og þess vegna er ósköp eðlilegt framhald þess að sömu aðilar fj alli um þetta og reyni að komast að samkomulagi um það ef þeir vilja breytingar.

Hitt er svo annað mál, eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að auðvitað er svona kerfi eins og annað ekki þannig uppbyggt að það eigi að viðhalda því alla tíð. Ég er ekki talsmaður þess endilega að halda uppi dýru kerfi ef aðilar vinnumarkaðarins vilja það ekki. Póstgírókerfið kostar í þessu tilfelli fyrir orlofsárið 1985 um 17 millj. kr. Það er spurning hvort hægt er að leysa þetta á annan veg. En ég geri ráð fyrir að verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins líti fyrst og fremst á öryggið í þessum málum, að það er verið að tryggja öryggi í þessum málum fyrir vinnandi fólk. Það er atriði númer 1, 2 og 3. Ég veit ekki betur en póstgírókerfið hafi til þessa greitt hæstu ávöxtunarkjör sem þekkjast hér á landi. Það hefur tekist og ríkið hefur ekki þurft að borga neitt í sambandi við það fyrr en í fyrsta sinn núna að það þurfti að leggja þarna fram tæpar 11 millj. kr. vegna reksturs kerfisins.

En ég undirstrika að lokum að það eru aðilar vinnumarkaðarins sem um þetta eiga að semja og það er í lögum að kostnaður við framkvæmd þessa máls greiðist úr ríkissjóði að svo miklu leyti semn vaxtakjör hrökkva ekki til að bera kostnaðinn. Þetta er aðalatriðið. En ég bfð eftir tillögum eða umsögn þessarar nefndar og strax þegar hún kemur munum við endurskoða málið.