16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

190. mál, umhverfismál

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa, stendur í helgri bók. Ég get ekki stillt mig um að vitna í það í upphafi máls míns. Ég vona að það verði ekki spennufall í þingsölum. Mönnum virðist hafa verið töluvert heitt í hamsi í dag, e.t.v. komnir í veisluskap. Fsp. á þskj. 201 getur nefnilega ekki talist frumleg né nýstárleg. Á 106. löggjafarþingi bar ég fram sams konar fsp. og sama gerði hv. 2. þm. Reykn. á síðasta þingi. Við mörg önnur tækifæri hefur verið minnt á þetta mál, nú síðast fyrir nokkrum dögum þegar mælt var fyrir till. til þál. um stefnumótun í umhverfismálum, sem sjö þm. Sjálfstfl., annars stjórnarflokksins, flytja og komið hefur mörgum spánskt fyrir sjónir þar eð slík stefnumótun var einmitt eitt af því sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. hét að framkvæma í upphafi ferils síns. Á því hefur heldur betur orðið dráttur og sá dráttur er náttúruunnendum og landverndarfólki og öðrum sem um þessi mál fjalla mikið áhyggjuefni. Það kom berlega í ljós á aðalfundi Landverndar nýlega, en þangað var boðið fulltrúum allra þingflokka til að gera grein fyrir stefnu síns þingflokks í umhverfismálum. Þar fóru fram lífleg og gagnleg skoðanaskipti og þar kom margítrekað fram að menn vilja fara að sjá þá heildarlöggjöf og samræmingu í umhverfismálum sem lofað hefur verið af yfirvöldum. Fulltrúar allra þingflokka lýstu vilja sínum til að svo mætti verða og til þess að fylgja því eftir og ýta við málinu hef ég ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, sem þá sat á þingi sem varamaður, og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni leyft mér á þskj. 201 að spyrja hæstv. félmrh. hvað líði undirbúningi heildarlöggjafar í umhverfismálum sem lofað var í upphafi kjörtímabilsins.