16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

190. mál, umhverfismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þessi raunatala hæstv. félmrh. gæti skýrt það e.t.v. fyrir hv. alþm. hvernig stendur á því að ekki er staðið við ýmsa þætti sem lofað hefur verið af núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég veit ekki hvort við eigum að halda að þetta sé meira klúðursmál en ýmis önnur sem þar hefur borið upp á borð. Það er ástæða til að þakka hæstv. félmrh. fyrir að rekja gang þessa máls. Við sem höfum verið að reyna að ýta á eftir framgangi málsins og styðja við þá stefnu sem ríkisstjórnin lýsti yfir í upphafi ferils síns höfum tekið eftir því að tvískinnungurinn milli stjórnarflokkanna í þessu máli er aldeilis óheyrilegur. Ég gat þess um daginn, þegar þessi mál bar á góma, að hlutverk Sjálfstfl. í þessu máli væri eigi fagur og sýndarmennskan á þeim bæ í þessum málaflokki aldeilis óheyrileg og væri ég þó ekkert að bera blak af framsóknarráðherrunum að þessu leyti.

Herra forseti. Ég á þar við þær tillögur sem hv. 2. þm. Reykn. hefur verið að bera á borð fyrir alþm. til að reyna að slá sig til riddara í þessu máli. Ég á við þær undirtektir sem fram hafa komið hjá ráðherrum Sjálfstfl. við lágmarksaðgerðir í þessum efnum og hæstv. félmrh. rakti, þar sem ekkert má hreyfa, ekki nokkurn hlut og embættismenn í stjórnarráðinu notaðir til að loka á lágmarksaðgerðir til samræmingar í þessum geysilega þýðingarmikla málaflokki.

Að lokum, herra forseti. Það verður að sjá til þess að þessi mál beri á góma í komandi kosningabaráttu, að þau verði sá þáttur í umræðum við almenning í landinu sem málin verðskulda og að ný ríkisstjórn í fæðingu taki á þessum málum og sjái til að sú umskipan stjórnsýslunnar eigi sér stað sem knýjandi nauðsyn er á.