16.12.1986
Sameinað þing: 32. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

190. mál, umhverfismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu litlu við þetta að bæta. Ég taldi rétt að gefa Alþingi sanna lýsingu á gangi þessa máls eins og það hefur verið. Það hefur verið lögð gífurleg vinna í að móta stefnu í þessum málum. Það liggur uppi í mínu ráðuneyti bæði fullmótuð þáltill. og eins frv. um heildarstjórn umhverfismála og það hefur verið leitað fanga erlendis um allar upplýsingar um þessi mál þannig að það er tiltölulega auðvelt að leggja frv. fram. Hins vegar er það svo í stjórnarsamstarfi að stjfrv. eru ekki lögð fram nema um þau sé samkomulag. Það hefur verið alveg fullreynt að um það er ekki að ræða. Það er meiningarmunur, sumir telja að það sé ekki þörf á því að setja heildarstjórn á þennan málaflokk þannig að það sé sett upp ákveðið ráðuneyti sem er kannske aðalatriðið í þessu máli.

Ég þarf ekki að minna á að þetta er gífurlegt áhugamál í okkar þjóðfélagi sem betur fer, eins og það er að verða í sívaxandi mæli eitt af meiri háttar málum meðal annarra þjóða, því að þetta er eitt af því sem snertir mest mannlegt umhverfi og snertir raunverulega hvert einasta mannsbarn hvernig að þessum málum er staðið. Þó að við vegna legu okkar lands séum kannske blessunarlega laus við ýmsar hættur sem hrjá aðrar þjóðir er það þannig með nútímann að við vitum aldrei hvenær þetta er orðið stórt vandamál hjá okkur sjálfum. Þess vegna vil ég lýsa því yfir að ég tel að þetta ástand megi ekki vara öllu lengur. Það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig að sjá þm. leggja hér fram þáltill. um stefnumótun í þessu máli, þm. frá flokki sem vill ekki gera þetta á þann hátt sem er unnið að því í ríkisstjórninni. Það er þeirra að svara því. En ég enda á því að upplýsa að Framsfl. leggur gífurlega áherslu á þetta mál og þetta var eitt af stærri málum í stefnumörkum Framsfl. á síðasta landsþingi hans.