17.12.1986
Efri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

254. mál, málefni aldraðra

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Það kom fram á nefndarfundi að það er brýn þörf á því að reisa hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þá kemur upp í hugann að þrátt fyrir að við munum leggja svo mikið fjármagn sem þetta til uppbyggingar hjúkrunarheimilum, þá er ekki hægt að starfrækja þessar stofnanir vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Ég held að í tengslum við það verði að huga alvarlega að þeim skorti sem við stöndum frammi fyrir í dag og hvernig á að vera hægt að starfrækja heimilin.

Ég tek undir það að þessi uppbygging er nauðsynleg. En ég held að við verðum að staldra við. Ég er hér með nýlegar upplýsingar varðandi hjúkrunarfræðinga. Þar kemur fram að áætlaður fjöldi útskrifaðra hjúkrunarfræðinga á árunum 1987, 1988, 1989, 1990 og 1991 fer sífellt minnkandi. Árið 1987 er áætlað að útskrifaðir verði 60 hjúkrunarfræðingar, 1988 65, 1989 35, 1990 45 og 1991 50 hjúkrunarfræðingar. Hér erum við að ræða um yfir 100 millj. kr. til framkvæmda á hjúkrunarheimilum m.a., en sjáum samt fram á að það verður ekki hægt að reka slík heimili.

Ég get ekki setið á mér að minnast á þetta. Hér á hv. þingi er allt of lítill gaumur gefinn að þessum málum. Nú liggur fyrir að m.a.s. skurðdeild á Borgarsjúkrahúsinu, heil deild mun verða hjúkrunarfræðingalaus um áramótin og þar er um mörg rúm að ræða. Hægt hefur verið á framkvæmdum við B-álmuna, en lengi vel þurfti heil hæð í B-álmunni að standa auð vegna þess að það vantaði starfsfólk. Að leggja alltaf áherslu á síauknar byggingar án þess að hægt sé að manna þær sem fyrir eru, það tel ég ranga stefnu. Ég tel að það sé gagnslaust að safna í sjóði og byggja ef ekki er hægt að taka á þessu vandamáli eins og það er í dag. En það bitnar því miður á því gamla fólki sem nú bíður á löngum biðlistum, þegar ekki er einu sinni hægt að nýta þau rúm sem fyrir eru.

Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni að það væri eðlilegt að miða þessa skattgreiðslu við 70 ára aldur. Ég tel það mjög eðlilegt miðað við aðrar greiðslur í þessu þjóðfélagi að fólk sem er komið yfir sjötugt sé ekki látið greiða þennan nefskatt. Ég tek líka undir það að allur almenningur greiðir þetta með glöðu geði vegna þess að það sér það hver maður hve þörfin er mikil. En ég held að við ættum að líta okkur nær og reyna að nýta einnig þau rúm og þau pláss sem til eru í dag með því að reyna að leysa þau vandamál sem valda skorti á starfsfólki á þessar stofnanir.