17.12.1986
Efri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

254. mál, málefni aldraðra

Frsm. hellbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna orða hv. tveggja síðustu ræðumanna. Ég get að mörgu leyti tekið undir þau sjónarmið sem þar komu fram um aldursmörk, að einstaklingar ofar ákveðnum aldri greiði ekki þennan skatt og þau aldursmörk séu færð niður miðað við það sem er í lögum. En til þess að fyrirbyggja allan misskilning í þessum efnum er rétt að taka það sérstaklega fram að skattstjórum er skylt að fella niður þetta gjald af elli- og örorkulífeyrisþegum sem dvelja á stofnunum. Ég vildi bara taka þetta fram svo að menn hefðu það ekki í huga að hér væri um að ræða eitthvað það sem væri fortakslaust, en svo er ekki.

En ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu að það væri eðlilegt að færa aldursmörk neðar en nú er í lögum.