17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

233. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Mál þetta er 233. mál þingsins, þskj. 353 eftir breytingu í Nd.

Skv. 8. mgr. 26. gr. laga nr. 73 frá 26. nóv. 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, skulu fjárhæðir í 26. gr. laganna breytast í samræmi við skattvísitölu eins og hún er á hverjum tíma, sbr. 121. gr. laga nr. 75 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir því að í fjárlögum ársins 1987 verði tilgreind skattvísitala er nauðsynlegt að breyta fjárhæðum í 26. gr. laga nr. 73/1980 með sérstökum lögum. Að mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að laun hækki um 35% milli áranna 1985 og 1986. Er því samkvæmt frv. þessu gerð sú tillaga að fjárhæðir í 26. gr. laga nr. 73 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, hækki um 35%, en sú hækkun er í samræmi við hækkun frádráttarliða frá tekjum sem gerð er tillaga um af sama tilefni í frv. til l. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem er nú til meðferðar á hv. Alþingi.

Samkvæmt þessu breytist 1. gr. laganna þannig: Eftirtaldar breytingar verði á 26, gr.:

1. Í stað „2250 kr.“ í 1. mgr. komi: 4131 kr., þ.e. lækkun útsvars, og í stað „450 kr.“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. komi: 826 kr., þ.e. lækkun útsvars vegna barna á framfærslu, og í stað „650 kr.“ í 7. mgr. komi: 1193 kr. sem er lágmarksútsvar við álagningu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn. og ég vil taka það fram að nauðsynlegt er að þetta frv. verði afgreitt í tengslum við afgreiðslu fjárlaga.