17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ef nokkuð eitt einkennir þessa ríkisstjórn seinustu mánuði hennar, þá er það einmitt efni þessa frv. Hrikaleg skuldasöfnun af ýmsu tagi. Það vill nú svo skemmtilega til að formaður nefndarinnar, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur boðið okkur þingdeildarmönnum upp á spurningaleik. Hann hefur lagt hér fram spurningu og óskar eftir að henni verði svarað: Hverjir greiða skuldirnar sem verið er að taka nú? Hann vildi að vísu ekki sjálfur svara þessari spurningu strax, en ég er alveg tilbúinn með svarið. (EKJ: Hverjir greiða og hverjir taka á móti?) Já, hverjir greiða og hverjir taka á móti?

Við skulum einmitt taka þessar 2000 millj. kr. sem verið er að fjalla um í þessu frv. núna og gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin taki að láni hjá lífeyrissjóðunum með 6,5% vöxtum eða þar um bil. Þetta er lán sem að miklu leyti er tekið handa ríkissjóði til að vega upp á móti óreiðunni hjá hæstv. fjmrh. því 1300 millj. eiga að ganga beint inn í ríkissjóð til að jafna hallann. Nú skulum við hugsa okkur að þessar 2000 millj. standi - ja, fyrst í ein 11 ár skulum við segja. Þá er upphæðin orðin tvöfalt hærri en hún er nú, eða rétt um 4000 millj. kr. Þetta er fé sem er tekið að láni hjá lífeyrissjóðunum og við skulum hugsa okkur að það sé ekki þörf á því að endurgreiða það á því augnabliki vegna þess að þær kynslóðir, sem nú eru að greiða í lífeyrissjóðina, þurfa ekki á því að halda fyrr en, ja við getum sagt eftir 30 ár. Og vegna þess að ríkissjóður verður auðvitað í miklum vandræðum með að endurgreiða þetta fé, þá framlengja menn þessu láni. Eftir 22 ár eru þetta orðnar 8000 millj. og eftir 33 ár, þegar hugsanlega þarf að endurgreiða lánið, þá er upphæðin orðin 16 000 millj. Þetta getur hver og einn reiknað sem kann þá einföldu reglu að lán, sem er með þessari ávöxtun, í kringum 6,5% eins og nú tíðkast, það er 11 ár að tvöfaldast. Því er það eftir 33 ár orðið átta sinnum stærra en það er í dag, eða 16 000 millj. kr. Það eru tveir í þriðja veldi sem má margfalda þær með. Þá á ríkissjóður að standa skil á upphæð vegna þess sem verið er að taka núna að láni sem er jafnhá og allur söluskatturinn sem ríkið innheimtir í dag með 25% álagningu á allt verðlag í landinu. Það er því von að menn spyrji: Hver á að greiða þetta fé og hver á að taka á móti því? Það er nokkuð einfalt með hver á að taka á móti því. Það verður þá gamla fólkið á þeim tíma sem þarf á þessu fé að halda sem greiðslu úr sínum lífeyrissjóðum, hefur verið að safna þessu með framlögum í lífeyrissjóði á langri ævi. Vegna þess að þetta verða fjölmennar kynslóðir þarf mikið fé til að greiða þessu fólki mannsæmandi lífeyri þegar þar að kemur, eftir 33 ár.

En hver á að borga? Hv. þm. verður að fyrirgefa mér þó að ég snúi spurningunni kannske eitthvað ofurlítið við því að mér finnst hitt vera svo einfalt mál hver á að taka við því. Þegar um lán úr lífeyrissjóðum er að ræða eru það auðvitað lífeyrisþegarnir sem eiga að taka við því þegar lánið er endurgreitt. (EKJ: Hvaða kynslóð á að borga, segjum það.) En ég segi: Hver á að borga? Það verða skattgreiðendur á komandi tímum. Þarna komum við einmitt að því að þarna verður greinilega um ákveðið kynslóðastríð að ræða. Það er gamla fólkið sem á að taka við þessu af því að um er að ræða lán úr lífeyrissjóðunum, en það verður fólkið sem verður á aldri hins vinnandi manns sem á að greiða og þá með sköttum sem sannarlega verða óhugnanlega háir vegna þess að þessi upphæð, sem núna er verið að taka, er orðin að 33 árum liðnum með því vaxtastigi sem núv. ríkisstjórn hefur kosið sér, og ef við gerum ráð fyrir að lánið sé framlengt í 33 ár, hvorki meira né minna en upphæð sem jafngildir öllum innheimtum söluskatti, bæði til ríkis og sveitarfélaga. Það eru drápsklyfjar. Og svarið er: Þær klyfjar lenda á skattgreiðendum þegar þar að kemur.

Þetta er einmitt það hrikalega við stefnu ríkisstjórnarinnar og það er þess vegna sem við í stjórnarandstöðu hljótum að hafa uppi allsterk aðvörunarorð því að allt ráðslag ríkisstjórnarinnar í fjármálum einkennist af vinnubrögðum af þessu tagi. Það einkennist auðvitað sérstaklega af því að kosningar nálgast. Það einkennist af því að vandamálunum er sópað undir teppið hverju af öðru. Lítum bara á dæmin úr þessari lánsfjáráætlun.

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir því að hitaveitur landsins standa illa. Það þarf að útvega lán til þess að hægt sé að halda þeim gangandi. Hitaveitur eiga að taka lán skv. þessari lánsfjáráætlun upp á 350 millj. En er þetta öll upphæðin? Nei, það hefur þegar komið fram, m.a. hjá hv. formanni nefndarinnar, að stærstu upphæðunum er sleppt. Það eru bara teknar þær hitaveitur sem eru með hæfilega lágar lántökur, en öllum meiri háttar lántökum er sópað undir teppið. Það eru Hitaveita Borgarfjarðar og Akraness, Hitaveita Vestmannaeyja og Hitaveita Akureyrar. Hitaveita Borgarfjarðar mun þurfa að taka 23 millj. kr. lán sem er verulega miklu hærri fjárhæð en hún endurgreiðir af lánum. Og þetta er bara í reksturinn þannig að hún er raunverulega alltaf að grafa sig dýpra og dýpra niður í kviksyndið. Hitaveita Vestmannaeyja þarf að taka 39 millj. kr. lán og Hitaveita Akureyrar þarf að taka 270 millj. kr. lán. En frekar en fara að sýna þjóðinni að hitaveiturnar eigi að taka lán upp á - það hefði þá orðið 681 millj., þá þykir heppilegra að hafa upphæðina helmingi lægri, þ.e. 350 millj., miklu skemmtilegri og penni upphæð, og síðan kemur í einni setningu í frv. að fjmrh. geti bjargað hinum vandamálunum eftir hentugleikum á síðara stigi og þarf þá ekki að nefna neinar tölur í frv. sem hefðu kannske verið heldur ófrýnilegar gagnvart hv. kjósendum.

Í raun og veru hefur maður sterkan grun um að spurningin um þessar 2000 millj. sé eiginlega alveg nákvæmlega sama eðlis. Ég spurði hæstv. fjmmrh. að því við 2. umr. málsins hvort búið væri að semja við lífeyrissjóðina um 2000 millj. kr. lán. Þar af eiga 1300 að fara til ríkissjóðs og 700 til fjárfestingarsjóðanna. En ég fékk aldrei neitt svar við þeirri spurningu. Ég tel að hæstv. fjmrh. verði að koma hér á eftir upp og svara spurningunni: Er hann búinn að semja um þetta fé? Auðvitað vitið þið öll að hann er ekki búinn að því. En ég held að það sé þörf á því að láta hann lýsa þessu yfir þannig að það sé staðfest og komi opinberlega fram.

Í öðru lagi, vegna þess að við vitum að svarið verður neikvætt, mætti hann svara spurningunni: Hefur hann þá leitað eftir þessu láni? Hafa viðræður farið fram við lífeyrissjóðina? Er eitthvað vitað um undirtektir við þessari lánsbeiðni eða er þetta allt meira eða minna út í loftið og byggir ekki á einu eða neinu öðru en vilja ráðherrans til að sópa vandamálunum undir teppið og láta tölurnar í lánsfjáráætluninni líta betur út og láta upphæð erlendrar lántöku vera töluvert miklu lægri með þessu? Hún lækkar auðvitað um 2000 millj. kr. með því að menn þykjast ætla að útvega 2000 millj. sem menn eiga ekki ráð á og eiga eftir að útvega, eiga meira að segja eftir að biðja um sennilega, og geta þannig látið hlutina líta betur út. En ég vænti þess að hæstv. ráðh. komi hér og svari þessari spurningu og er reyndar fullviss um að svo hlýtur að vera.

Ég bið forseta að tryggja að hæstv. ráðh. sé hér inni því að ég var ekki alveg búinn að spyrja hann.

(Gripið fram í: Ráðherra hefur svarað, er það ekki?) Jæja, þá skulum við sleppa honum. Við verðum að koma því til hans með einhverjum öðrum hætti. En ég læt ekki nægja að spyrja hann um hvort hann sé búinn að leita eftir þessu láni og hvort hann sé búinn að fá einhverjar undirtektir. Ég vil líka vita hvort hann telji einhverjar minnstu líkur á því að lífeyrissjóðirnir telji sig aflögufæra um 85% af ráðstöfunarfé sínu því að það er ljóst að ef hann fengi lífeyrissjóðina til að lána sér þetta fé hefðu lífeyrissjóðirnir á næsta ári aðeins 15% af ráðstöfunarfé sínu til útlána. Ég er nokkurn veginn viss um það, miðað við að lífeyrissjóðir landsins hafa verið reknir eins og lánastofnanir og menn hafa verið að lána þar út töluvert fé til sjóðfélaganna, að ekki verði margir lífeyrissjóðir í landinu sem treysta sér til að verða við þessari beiðni. En mig langar til að spyrja ráðherrann að því: Telur hann það líklegt? Það gæti verið til marks um óraunsæi ráðherrans hvert svarið verður.

Hér er um algerlega óútfylltan víxil að ræða, sem verið er að gefa út, og það er eingöngu í því skyni að láta lánsfjáráætlunina líta sem best út á pappírnum. Ég sé því ekki ástæðu til að mæla með samþykkt þessa frv. sem ég tel heldur marklítið.