17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur verið beint hér til mín tveimur fsp. Í fyrsta lagi um túlkun á því ákvæði sem fram hefur komið í brtt. hv. fjh.- og viðskn. og lýtur að heimild til að gera samninga um sérstakar ráðstafanir í þágu þeirra hitaveitna sem eiga nú við mesta erfiðleika að etja. Það hafa farið fram að undanförnu viðræður við fulltrúa þessara hitaveitna. Þær hafa ekki enn sem komið er leitt til niðurstöðu og af þeim sökum verður ekki kveðið á um það með skýrum hætti til hvaða ráðstafana er nauðsynlegt að grípa í þessu efni. Fyrir því er ekki unnt á þessu stigi að kveða nánar á um í hverju þessi heimild yrði þá endanlega fólgin, en nauðsynlegt þykir að halda þessum viðræðum áfram og hafa heimild til að ljúka þeim samningum og að því er stefnt með brtt.

Í öðru lagi var að því spurt hvort ríkisstjórnin hefði þegar samið við lífeyrissjóði um aukna lántöku bæði fyrir atvinnuvegasjóði og fyrir ríkissjóð sjálfan. Því er til að svara að þessir samningar hafa ekki verið gerðir. Það er ætlun ríkisstjórnarinnar að leita eftir þessu fjármagni með frjálsum samningum en ekki lagaboði eða tilskipunum og ég vænti þess fastlega að þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi í þessu efni muni takast. Það kom fram í álitsgerðum, sem aðilar vinnumarkaðarins sendu frá sér hér og lögðu fyrir ríkisstjórnina í tengslum við síðustu kjarasamninga, að þeir lögðu áherslu á að dregið yrði úr erlendri lántöku atvinnuvegasjóðanna og bentu á að sparnaður lífeyrissjóðanna yrði meiri en áður hafði verið áætlað og þar væru því möguleikar á auknum lántökum. Áður hafði ríkisstjórnin ákveðið að atvinnuvegasjóðirnir drægju úr erlendum lántökum og færu í ríkari mæli en áður hefur verið inn á innlendan lánamarkað. Það er augljóst mál að innlendur sparnaður hefur verið að aukast vegna breyttrar stefnu í peningamálum. Sparnaður lífeyrissjóðanna mun aukast á næstu árum, m.a. vegna þess að samið hefur verið um í áföngum að greiða iðgjöld af öllum launum og það mun stórauka ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Ég hef þess vegna fulla ástæðu til að ætla að með frjálsum samningum verði hægt að ná þessu fjármagni á innlendum lánamarkaði og þar á meðal hjá lífeyrissjóðunum eins og ráðgert er.

Ég vil í þessu sambandi minna á að við afgreiðslu lánsfjárlaga í fyrra var uppi mikil svartsýni af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórninni tækist að afla þess lánsfjár sem þá var áætlað að taka að láni á innlendum markaði. Sérstaklega var því haldið fram að það væru gyllivonir einar að unnt yrði að ná 380 millj. í nýjum lántökum með sölu spariskírteina, en eins og menn muna var ráð fyrir því gert að selja spariskírteini fyrir rúmlega 2000 millj. kr. en leysa inn spariskírteini fyrir um 1700 millj. kr. Þetta þótti mönnum vera óhófleg bjartsýni vegna þess að áður hafði það ekki tekist á undanförnum árum að ná inn nýju lánsfé með þessum hætti. Reyndin hafði verið sú að það var meira innleyst af eldri skírteinum en selt af nýjum.

Staðreynd málsins var hins vegar sú þegar komið var fram á mitt þetta ár að ríkissjóður hafði náð inn nettó u.þ.b. 50% meira af nýjum lánum en ráðgert hafði verið þannig að fjáröflun eða lántaka með þessum hætti fór fram úr björtustu vonum sem ríkisstjórnin hafði sett sér og svartsýnisraddir stjórnarandstöðunnar urðu að engu. Reynslan sannaði annað og varð miklu betri en við þorðum að gera okkur vonir um þegar lánsfjárlög voru afgreidd í desember á síðasta ári. Þetta leiddi svo til þess að það var hægt að stöðva sölu á nýjum skírteinum og lækka vexti verulega á sérstökum spariskírteinum, svokölluðum skiptiskírteinum, sem haldið var áfram að gefa út, og þetta hafði áhrif til almennrar vaxtalækkunar í þjóðfélaginu. Reynslan sýnir okkur að sú breyting hefur orðið á peningamarkaðnum að við getum með nokkuð góðri vissu treyst því að með frjálsum samningum sé hægt að afla lánsfjár innanlands, enda hefur sparnaður aukist verulega.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, vegna þeirra fsp. sem hafa þegar komið í umræðunni, en að öðru leyti vil ég þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir skjót störf og mikla vinnu við afgreiðslu þessa máls.