17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þar sem hæstv. forsrh. var í salnum áðan ætlaði ég að beina til hans einni spurningu og mér þætti vænt um ef athugað yrði hvort hann er enn í húsinu.

En ég ætlaði að víkja aðeins að orðum hv. 9. þm. Reykv. sem talaði áðan og sagðist standa við stóru orðin sem hann hefði látið sér um munn fara í umræðum um útvarpslögin á sínum tíma. Gott og vel. En ég heyrði ekki betur en hann ætli líka að standa að því að svipta Ríkisútvarpið á næsta ári þeim tekjum sem útvarpslögin gera ráð fyrir að það eigi að njóta.

Ég vil líka leiðrétta það sem hann sagði þannig að það standi ekki ómótmælt í þingtíðindunum vegna þess að hann notaði ekki rétt orð að mínu mati. Hann talaði um fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Ég held að það sé ómögulegt að líta á þetta sem fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Þetta eru ekki fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Þetta eru tekjur sem Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum.

Mundi hæstv. forsrh. vera farinn? (Forseti: Það er verið að ná í hæstv. forsrh.) Já, takk. Mér þykir miður að trufla hann. (Forseti: Svo fremi sem hann er í húsinu.) Já, en vegna þess að hann var hér áðan þá vildi ég beina til hans einni spurningu sem ég tel ákaflega mikilsvert að fá svar við. Ég held að hæstv. forsrh. geti svarað þeirri spurningu í stuttu máli.

Flokkur hans hefur jafnan stært sig af því og sagt að hann væri landsbyggðarflokkur og bæri fyrir brjósti hagsmuni þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum. Nú gerði ég það að umtalsefni í ræðu minni áðan, sem hæstv. forsrh. heyrði held ég ekki, að þegar vegið er að Ríkisútvarpinu með þeim hætti sem gert er í frv. til lánsfjárlaga, þ.e. að á árinu 1987 er það svipt þeim tekjum sem því ber samkvæmt útvarpslögum, er það mín skoðun að það sé verið að vega að landsbyggðinni. Ríkisútvarpið er ekki aðeins menningartæki sem þjónar landsbyggðinni. Það er líka öryggistæki landsbyggðarinnar. Það er verið að gera Ríkisútvarpinu ómögulegt að gegna þeim skyldum sem útvarpslögin leggja á það. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh. hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að Framsfl. hafi horfið frá því að vera landsbyggðarflokkur með því að taka þátt í þessari aðför frjálshyggjuaflanna í Sjálfstfl. að þessari stofnun í þjóðareign, Ríkisútvarpinu. Ég held að það sé gersamlega ómögulegt að túlka þessa stefnubreytingu Framsfl. öðruvísi. Stefnubreyting er það vissulega. Ef tekið er mið af ummælum þeirra við umræður um útvarpslögin í fyrra hefur átt sér stað mjög veigamikil stefnubreyting hjá Framsfl. Hagsmunum þeirra sem búa í þéttbýlinu er sjálfsagt ágætlega þjónað með þeim stöðvum sem reknar eru hér, en það er alveg ljóst að ef sauma á að Ríkisútvarpinu eins og nú á að gera getur það ekki gegnt sínu þjónustuhlutverki yfir landsbyggðina. Þess vegna er hér um landsbyggðarmál að ræða númer eitt, tvö og þrjú. Ég er þeirrar skoðunar að hér hafi átt sér stað veigamikil stefnubreyting hjá Framsfl. og ég spyr hæstv. forsrh.: Hvað veldur því að Framsfl. hefur snúið við blaðinu í þessum efnum, hefur breytt um stefnu og snýr nú baki við landsbyggðinni?