17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna svars hæstv. forsrh. áðan. Mér þótti furðu sæta þegar hann sagði sem svo í svari sínu að í rauninni væri húsbygging Ríkisútvarpsins ekki brýn. Ég gat þess áðan að hún væri umdeild og ég hefði ýmislegt við hana að athuga. Hins vegar er mér það jafnljóst og ég hélt að hæstv. forsrh. væri það líka, eins og raunar öllum hlýtur að vera sem sáu þátt í sjónvarpinu um daginn þar sem sýnd var starfsaðstaða starfsmanna útvarpsins að Skúlagötu 4, að hún er gersamlega óviðunandi og hefur verið svo í mörg ár og er í rauninni engum manni bjóðandi. Þess vegna m.a. var brýnt að lagfæra þetta.

Í öðru lagi þótti mér það afar einkennilegt þegar hæstv. forsrh. sagði að Framsfl. væri ekki minni landsbyggðarflokkur þó hann vildi hægja á húsbyggingum í Reykjavík. Málið snýst ekki um það. Málið snýst um uppbyggingu dreifikerfis Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, um landið. Málið snýst um að sjá til þess að Rás 2 heyrist um allt land, sem hún gerir ekki alveg enn þá þó það sé komið býsna nálægt því. Raunar staðfesti þetta svar hæstv. forsrh. það, sem mér bauð í grun og sem felst í aðild Framsfl. að því að svipta Ríkisútvarpið þessum tekjum á árinu 1987 þrátt fyrir ákvæði útvarpslaga, að Framsfl. er ekki lengur neinn landsbyggðarflokkur. Það kom afar skýrt fram og fyrir það er ég hæstv. forsrh. í rauninni afar þakklátur.