17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Þegar við vorum að ræða hér í hv. deild vorið 1984 um breytingar á skipulagi mats sjávarafurða og samþykkja lög sem af stuðningsmönnum þess frv. og þeirra laga síðar voru talin marka tímamót í sambandi við mat á fiski held ég að enginn hafi rennt grun í það að við stæðum eftir tvö ár frammi fyrir því að það ætti að fara að breyta þessum lögum á jafnafgerandi hátt og hér er lagt til. Ég geri ekki heldur ráð fyrir því að okkur hafi dottið það í hug að sami sjútvrh. mundi í annan leik gera það að leggja jafnyfirgripsmikil mál og þessi fyrir hv. Alþingi og eiga að afgreiða þau á mjög skömmum tíma. Það var mikið ýtt á eftir afgreiðslu frv. um Ríkismat sjávarafurða á vorinu 1984 en hvað er það miðað við þau ósköp sem hér er ætlast til?

Þetta frv. er lagt inn á hv. Alþingi 10. desember. Nú er reyndar kominn 18. des. og það er búið að þrýsta þessu máli í gegnum hv. Nd. á svolítið merkilegan hátt, á þann merkilega hátt að það var ekki einu sinni tími til að ræða við alla þá menn sem kallaðir voru til viðtals við hv. sjútvn. í Nd. Það gafst ekki tími til þess. Þeir urðu að hverfa af vettvangi. Svo mikinn hraða þarf að hafa á þessu máli. Þrátt fyrir það eru fjárlögin sem lögð eru fram á fyrstu dögum október þannig útbúin að þar er gert ráð fyrir að Ríkismat sjávarafurða sé lagt niður. Ráðherra sýnir Alþingi þá virðingu þrátt fyrir að vera búinn að ákveða það að leggja þetta mál fram í upphafi þings að málið er ekki lagt fram fyrr en 10. desember. Það er ætlast til þess að jafnmikilsvert mál sem þetta verði hespað hér í gegn, nú á næturfundi í hv. Alþingi, jafnvel á næstsíðasta fundi hv. deildar. Það verður nú reyndar ekki næstsíðasti fundur, þeir verða a.m.k. tveir hér á eftir til þess að þetta mál komist í gegn.

Ég held að hér sé farið að með allt of miklum flýti, bæði hvernig málið er lagt fram og einnig tel ég að málið sé á engan veg þannig útbúið að það sé réttlætanlegt að ganga frá því að leggja niður ferskfiskmat án þess að nokkuð sé undirbúið til þess að taka við af Ríkismatinu. Ráðherra lýsir því raunverulega yfir að Ríkismatið eða hann, sjútvrn., muni ekki hafa nein áhrif á það hvernig hugsanlegir hagsmunaaðilar, sem nefndir eru í frv., muni byggja upp matið þegar að því kemur, ef þetta frv. verður að lögum, að aðrir aðilar eigi að sjá um það. Það er meira að segja gert ráð fyrir því nú þegar í lögunum að þessir hlutir gangi upp án þess að nokkuð liggi fyrir. Mér finnst þetta svo fráleitt að samþykkja nú á síðustu dögum þingsins án þess að hagsmunaaðilar hafi komið sér saman um hvernig þessir hlutir verði framkvæmdir og án þess að þeir hafi nokkuð rætt það. Það liggur alls ekki fyrir að samstaða sé milli sjómannasamtakanna og útvegsmanna um það að þessir hlutir verði lagðir niður, hvað þá að samstaða sé milli útvegsmanna og fiskverkenda.

Ég tel því rétt að þessi umræða fari aðeins fram í kvöld og þetta mál verði látið bíða í sjútvn. hv. deildar þar til við komum aftur saman. Ég mælist eindregið til þess við hæstv. ráðh. að hann fallist á þá málsmeðferð. Ég sé ekki að við höfum neinn möguleika til þess á morgun, og þó við notum föstudaginn til þess líka, að ræða við þá aðila sem nauðsynlegt er að ræða við til þess að þetta mál fái þinglega og eðlilega meðferð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um málið sjálft að neinu ráði í þessari umræðu en vil fyrst og fremst leggja áherslu á það að meðferð þessa máls verði á þann veg sem ég hef lagt til. Og ég mun enn, ef ráðherra fellst ekki á þessa tillögu, leggja það til í sjútvn. að það verði ekki afgreitt á þeim stutta tíma sem við höfum til umráða á morgun og næsta dag til þess að fjalla um þetta. Ég mun óska eftir því, ef það verður ekki samþykkt, að til viðræðu í nefndinni verði kallaðir þeir aðilar sem hv. sjútvn. í Nd. kallaði til viðræðu og einnig þeir sem nefndin hafði ekki tíma til að tala við og nokkrir fleiri sem nauðsynlegt er að ræða við um þetta mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa ræðu mína lengri að sinni, en ítreka þá ósk mína að nú þegar verði gengið frá því að þetta mál verði ekki frekar til umræðu en við þessa umræðu í kvöld og við bíðum með málið í hv. sjútvn. þar til við komum aftur úr jólafríi.