17.12.1986
Efri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1878 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Það virðast álög á okkur í þessari hv. deild að við fáum erfið og umdeild mál í sjávarútvegi til umræðu eftir miðnætti á síðustu dögum þings. Svo var það í fyrra a.m.k. og hitteðfyrra og svo er það nú fyrir jólaleyfi þm. Það er eðlilegt, og reyndar alveg rétt hjá hv. 4. þm. Vesturl., að menn þurfi töluvert um þetta mál að segja og það ætla ég mér reyndar líka að gera. Ég fellst á það hjá hv. þm. að það hefði jafnvel verið betra að fá að heyra í mönnum í nefnd áður en efnislega verður um málið fjallað. Mér finnst það miður að þessi tími, ef á að ljúka þessu máli fyrir jólaleyfi, að þessi tími verður mjög stuttur og engan veginn nægur. Það verður að átelja. Ég skil reyndar ekki hvernig stendur á að það hefur verið svo lengi á leiðinni þetta mál. Eftir því sem ég kemst næst var samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. að það mætti leggja fram þann 25. nóv. og síðan eru allnokkrar vikur. Ég held að ég hafi ekki þessi orð fleiri nú, en ég ítreka að ég ætla mér að segja sitthvað um efni málsins síðar.