21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Egill Jónsson:

Herra forseti. Þessi umræða minnir okkur enn einu sinni á einhæfni okkar í atvinnuvegum og hversu sárt er þegar einhver þeirra framleiðsluþátta, sem við búum við og höfum búið við, brestur. Vissulega eru menn minnugir þess sem áður hefur gerst í sambandi við síld þó að nokkuð sé umliðið og þó að það hafi verið talið stærra dæmi. Þá á ég við hrun síldveiðanna á síðasta áratug og afleiðingar þess. Það hlýtur þess vegna að vera þakkarvert þegar umræður á Alþingi fara fram um þessi mál og vilji Alþingis kemur fram.

En ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur að athuga það áður en hurðum er skellt á okkur hverjar séu hinar raunverulegu ástæður í þessum efnum. Nú má það vel vera að Sovétmenn velji sér þann kostinn að versla við Íslendinga til að halda uppi vissum tengslum og samböndum sem að sjálfsögðu getur ekki talist neitt óeðlilegt, en hér valda líka þau undirboð frá vinaþjóðum okkar, bæði Kanadamönnum og Norðmönnum, sem hér hefur sérstaklega verið minnst á. Ég mætti kannske minna á þá umræðu sem fór fram á Alþingi í fyrra um samkeppni Norðmanna gagnvart okkur um fisksölu til Bandaríkjanna og þær yfirlýsingar sem voru þá gefnar um að þau mál yrðu tekin upp í samræðum við þær þjóðir til að koma í veg fyrir þau undirboð. Þess vegna hlýtur sú spurning að vakna núna: Hvað hefur verið gert til að fá þær þjóðir til að leggja niður þessa viðskiptahætti? Það hlýtur t.d. að hafa verið minnst á það við norska sjávarútvegsráðherrann sem ferðaðist hér um á síðasta sumri.

Herra forseti. Tími minn er liðinn. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um mikilvægi þessara samninga. Ég treysti viðskrh. vel til að ná hér árangri og legg áherslu á að hann fáist.