21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

Síldarsölusamningar við Sovétríkin

Guðmundur J. Guðmundsson:

Forseti. Það er svo margt fróðlegt sem hægt væri að lýsa í sambandi við þessa síldarsamninga og síldarverkun. Hvað haldið þið t.d. að kanadíski sjávarútvegsráðherrann hafi sagt við Sovétríkin? Ef þið kaupið ekki af okkur unna vöru í auknum stíl, t.d. saltsíld, fækkum við sovéskum veiðiskipum innan landhelginnar. Aftur á móti: Ef þið viljið kaupa af okkur saltsíld fyrir 45-50 dollara tunnuna þá skulum við hleypa miklu fleiri veiðiskipum á síldarsvæðin og þá nær landi.

Af hverju kaupa Svíar, sem eru nú praktískir, af hverju kaupa þeir ekki þessa kanadísku síld? Þessi kanadíska síld verkast mjög misjafnlega og mikil mistök í þeirra verkun og sér í lagi þeirra mati. Og hún nær engum gæðastaðli nálægt íslensku síldinni. Í Atlantshafi er þetta að hluta til svipaður stofn og sá íslenski en í Kyrrahafi eru t.d. 12 stofnar og þeir verkast mjög misjafnlega í söltun. En þeir hafa lagt á það ofurkapp: Ef þið kaupið af okkur saltsíld, þá fleiri skip inn í landhelgi. Og þeir hafa lagt á það ofurkapp núna: Við skulum lækka verðið ef þið kaupið meira.

Norðmenn eru með jafngott hráefni og við og ekki síðra. Það sem á vantar hjá þeim er það að íslensk verkun, verkun og vinnsla hjá verkafólki og matsmönnum er það góð að við höfum farið langt fram úr Norðmönnum, Skotum, Hollendingum og öðrum slíkum og við skerum okkur þarna algjörlega úr, þannig að gæðalega séð erum við langfremstir.

Yfirmatsmaður íslensku síldarinnar, Ásgrímur Kristjánsson, er tvímælalaust hæfasti síldarmatsmaður veraldar. Það er bull og vitleysa sem hv. þm. Jón Kristjánsson var að segja hér áðan að hráefnismeðferð hefði verið breytt og bætt. Í sex ár voru athugasemdir út af þremur tunnum, svoleiðis að þetta er ekki það sem máli skiptir.

Ég hef það mikið að segja og tíminn er liðinn. Ég vil aðeins þakka ráðherra svörin og ég heyrði, eins og ég vissi fyrir, að hann hefur góðan vilja og dugnað í þessum efnum. En skoðun mín er sú, ef ég mætti orða það svo óþinglega, ég held að Rússar beri miklu meiri virðingu fyrir ráðherrum heldur en Íslendingar og ég held að þarna sé eina vonin ráðherraviðræður.