17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

207. mál, Iðnlánasjóður

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 68 frá 10. okt. 1967, um Iðnlánasjóð, sbr. lög nr. 19 5. apríl 1968 o.s.frv. eins og segir á þskj. 222.

Í athugasemdum með frv. segir:

„Í lögum um Útflutningsráð Íslands nr. 38/1986, 6. gr., segir að einn af tekjuliðum ráðsins sé tekjur af iðnlánasjóðsgjaldi skv. lögum nr. 55/1984. Tryggt er að ráðið fær þann hluta af iðnlánasjóðsgjaldi sem tilgreindur er í síðarnefndu lögunum. Í lögum nr. 55 1984, sem breyta lögum um Iðnlánasjóð, er þó á tveimur stöðum talað um Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, en hún var lögð niður með lögunum um Útflutningsráð Íslands, nánar tiltekið við gildistöku þeirra laga 1. okt. 1986.

Með frv. þessu eru ákvæði laga nr. 55/1984 færð til samræmis við ákvæði hinna nýju laga nr. 38/1986. Að öðru leyti virðast einstakar greinar frv. ekki þurfa nánari skýringa við.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.