17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

153. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Iðnaðarráðherra (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Á þskj. 163 flyt ég frv. til l. um breytingu á lögum nr. 41 frá 18. maí 1978, um Iðntæknistofnun Íslands. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp athugasemdir sem fylgja.

„Með frv. þessu er lagt til að lögum um Iðntæknistofnun Íslands verði breytt á þann veg að stofnuninni verði heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum er hagnýti niðurstöður verkefna sem stofnunin vinnur að. Áhugi atvinnulífsins á að hagnýta niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna er að aukast og hefur sá áhugi beinst að stofnun sérstakra fyrirtækja um slík verkefni. Má í þessu sambandi nefna nýlega breytingu á lögum um Háskóla Íslands sem heimilar háskólanum að eiga hlutdeild í fyrirtækjum sem fást við rannsókna- og þróunarstarfsemi. Stjórn Iðntæknistofnunar hefur því óskað eftir að gerð verði sú breyting á lögum um stofnunina að henni verði heimilt að eiga aðild að starfandi fyrirtækjum.

Helstu kostir þess að geta tekið þátt í stofnun fyrirtækja, sem verða til vegna verkefna sem unnin eru á vegum Iðntæknistofnunar, eru eftirfarandi:

1. Þátttaka í slíkum fyrirtækjum eykur tengsl Iðntæknistofnunar við atvinnulífið og þar með skilning starfsmanna á þörfum þess.

2. Iðntæknistofnun fær greitt fyrir forvinnu við rannsóknir og þróun með hlutabréfum. Með því að selja hlutabréfin síðar má afla sértekna og fá endurgreiddan hluta þess kostnaðar sem viðkomandi rannsókna- og þróunarverkefni hefur í för með sér fyrir stofnunina.

3. Nýjar leiðir opnast til frekari rannsókna í samvinnu við slík fyrirtæki. Mun það byggja upp þekkingu og auka sértekjur við grunnrannsóknir sem í dag eru mjög takmarkaðar vegna fjárskorts íslenskra fyrirtækja til að stunda kostnaðarsamar grunnrannsóknir.

4. Auknir möguleikar opnast til að ráða og halda starfsmönnum með viðamikla sérfræðiþekkingu þar sem t.d. má bjóða þeim hlutastörf í slíkum fyrirtækjum.

5. Aukin meðvitund skapast hjá starfsmönnum stofnunarinnar um gildi grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna.

Tekið skal fram að aðild Iðntæknistofnunar að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum verður háð samþykki stjórnar stofnunarinnar og iðnrh. hverju sinni eins og fram kemur í frv. Þá verður heimildin takmörkuð við félög með takmarkaða ábyrgð þannig að áhætta stofnunarinnar verði afmörkuð við hlutafjárframlög.

Einstakar greinar frv. þurfa eigi nánari skýringa við.“

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.