17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur það ekki oft gerst að stuðlað hafi verið að heildarsamkomulagi hér í þinginu um tiltekna mikilvæga málaflokka. Ríkisstjórnin hefur kosið að fara fram með sín mál án þess að ræða þau á neinn hátt við stjórnarandstöðuna og hefur líka haft til þess mikinn þingmeirihluta. Þó gerðist það vorið 1985 að húsnæðismál voru komin í þannig lagað óefni að það varð niðurstaðan að reyna að ná allsherjarsamkomulagi allra flokka í þinginu um skipun milliþinganefndar og um tekjuöflun til húsnæðismála.

Þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 er svo lagt fram er bersýnilegt að húsnæðisgjaldið, sem ákveðið var með stuðningi stjórnarandstöðunnar, er allt tekið í ríkissjóð og hæstv. fjmrh. lýsir því áðan yfir, fyrir 2-3 mínútum, að þar með sé stjórnarandstaðan ekki bundin af þessu samkomulagi. En þá skal það líka vera skýrt af hálfu Alþb. að við teljum okkur heldur ekki bundin af því samkomulagi sem gert var um milliþinganefndina þegar ríkisstjórnin segir málum einhliða upp með þessum hætti, tekjuöflunarforsendu húsnæðismálanna. Það er skipuð milliþinganefnd og hún hefur starfað um alllangt skeið og átti samkvæmt samþykktum s.l. vor að gera tillögur um breytingar á húsnæðiskerfinu. Í milliþinganefndinni hefur stjórnarliðið þvælst fyrir allan tímann, engin álit hafa fengist frá milliþinganefndinni vegna þess hvernig stjórnarliðið hefur haldið þar á málum. Þá er einboðið skv. fjárlagafrv. og orðum fjmrh. áðan að hann hafnar öllu samkomulagi við stjórnarandstöðuna um þessi mál, bæði tekjuöflunina og milliþinganefndina, og að því er varðar Alþýðubandalagið skal það a.m.k. vera hreint að við teljum okkur óbundin af þessu máli líka og mun það koma fram næstu daga.