17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

231. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þannig er mál með vexti að til meðferðar eru tvö lítil frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar. Annað er hið árvissa mál um breytingu á sjúkratryggingagjaldi, sem kemur hér til umræðu á eftir, en hitt málið og það sem hér er til umræðu er lítið frv. til að bæta stöðu þeirra mæðra eða feðra sem eiga að maka örorkulífeyrisþega sem vistaður er á stofnun með þeim hætti að lífeyririnn fellur allur til þeirrar stofnunar. Þegar svo stendur á liggur í augum uppi að þar skortir það fé sem hinn framfærandinn hefur lagt til heimilisins, en hins vegar er vegna barna slíkra hjóna greiddur barnalífeyrir en ekki mæðralaun.

Þegar viðkomandi er skilinn við maka sinn, ekkja eða ekkill er heimilt að greiða mæðralaun eða bætur sem til þeirra svara. En í þeim tilvikum, sem ég ræði um, þegar makinn er vistaður til langdvalar á stofnun og bæturnar falla ekki lengur til heimilis þeirra og barnanna er fjárhagslega staðan síst betri en þegar þess maka nýtur ekki lengur við. Hér er því um að ræða réttlætismál sem ég leyfi mér að vona að hv. Nd. afgreiði jafngreiðlega og hv. Ed. Hér er ekki um marga einstaklinga að ræða. En það er augljóst að hér þarf lagabreytingu til að geta látið þetta fólk njóta þess réttar sem ég hygg að flestir séu sammála um að sanngjarnt sé.

Hér er raunar ekki einungis um að ræða örorkulífeyrisþega eða ellilífeyrisþega þegar svo bæri undir, en hins vegar líka um þau tilvik þegar maki sætir gæslu- eða refsivist sem varað hefur a.m.k. þrjá mánuði. Með þessari litlu lagabreytingu, ef frv. verður samþykkt, hygg ég að staða barna slíkra einstaklinga væri betur tryggð en nú er og leyfi mér þess vegna, herra forseti, að leggja það til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.