21.10.1986
Sameinað þing: 6. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

2. mál, haf- og fiskveiðasafn

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 2 leyft mér að flytja till. til þál. um haf- og fiskveiðasafn. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa í samráði við sjávarútvegsráðherra nefnd til að gera áætlun um stofnun og rekstur haf- og fiskveiðasafns. Skal safnið gefa mynd af hafsvæðunum umhverfis Ísland, eðli þeirra, lífi og lífsskilyrðum í hafinu, fiskveiðum Íslendinga fyrr og nú, ásamt annarri nýtingu og vernd auðæfa hafsins, svo og meðferð og sölu sjávarfangs fyrr og nú. Í safninu skal einnig fjallað um landhelgismál Íslendinga, þróun þeirra, baráttu Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar og landhelgisgæsluna. Í safninu skal beitt fullkomnustu sýningartækni sem völ er á.

Nefndin skal gera fjárhagsáætlun um uppbyggingu slíks safns, hugsanlega í áföngum. Kanna skal möguleika á að nota hluta af sýningarefni sem kjarna minni safna víðs vegar um landið og bæta þá við því sem er sérkennilegt í hverju byggðarlagi eða tengja þeim söfnum sem fyrir eru.

Leggja skal skýrslu nefndarinnar og fjárhagsáætlanir fyrir Alþingi.“

Ég held að rétt sé að fara um það nokkrum orðum hvað hér er átt við og skýra það kannske nokkuð frekar og árétta í upphafi að hér er ekki átt við fiskaeða sædýrasafn, né heldur sjóminjasafn sem þegar er raunar fyrir hendi hér á landi. Þessi tillaga miðar að því að skipa nefnd er geri áætlun um að koma upp haf- og fiskveiðasafni þar sem ítarlega og með bestu tækni sem völ er á væri fjallað um þennan undirstöðuatvinnuveg íslensku þjóðarinnar. Ekki er tekin afstaða til þess í tillögunni hvar þessu safni yrði valinn staður. Vel mætti t.d. hugsa sér að það væri staðsett á Akranesi þar sem þegar er myndarlegt safn að Görðum. Akranes er og mikili útgerðarbær í næsta nágrenni við mestu þéttbýlissvæðin og þangað eru greiðar samgöngur bæði á landi og sjó. Og eins mætti hugsa sér að safn af þessu tagi yrði hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það er skoðun flutningsmanns að safn af þessu tagi væri mjög áhrifamikið fræðslutæki fyrir unga sem aldna og gæfi margvíslegar upplýsingar um lífríki hafsins hér á norðurslóðum, og ekki síður auðæfi þeirra hafsvæða sem eru hér umhverfis okkur, baráttuna fyrir vernd og skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins og ekki síst sögu landhelgisbaráttu íslensku þjóðarinnar frá öndverðu.

Ég held að á því leiki ekki nokkur minnsti vafi að mikil þörf sé á fræðslu af því tagi sem svona safn mundi veita, ekki síst þegar það er haft í huga að þeim fer sífellt fjölgandi sem alast upp án tengsla við umhverfi sem tengist sjávarútvegi, fiskverkun og sjósókn. Það er liðin tíð að þetta nána samband sé fyrir hendi sem nokkurn veginn almenn regla t.d. hjá flestum íslenskum unglingum. Það er aðeins tiltölulega lítill hluti þeirra sem upplifir þetta samband á sínum uppvaxtarárum og þekkja lítið til. Ég held að fræðsla t.d. í skólum landsins um baráttu okkar fyrir útvíkkun landhelginnar sé mjög brotakennd og í molum og ég held að það væri mikill sómi að því fyrir okkur, sem byggjum allt okkar á sjávarfangi eða því sem næst, að hér væri til myndarlegt safn sem gerði þessum málum ítarleg skil með þeirri fullkomnustu sýningartækni sem völ er á. Þar hafa nefnilega orðið gífurlegar framfarir á undanfórnum árum, tiltölulega fáum árum.

Ég minni t.d. á safn í Maríuhöfn á Álandseyjum, þar sem mér er kunnugt um að margir þm. hafa komið, sem er til sérstakrar fyrirmyndar um það hvernig beitt er margvíslegri nútímatækni til að koma fróðleik og upplýsingum á framfæri við safngesti. Ég minni á það að hjá mörgum þjóðum, sem eiga mikið undir siglingum og sjávarútvegi, eru í mörgum borgum ekki eitt heldur fleiri söfn sem tengjast siglingum og sjósókn. Ég held t.d. að í Björgvin í Noregi séu þrjú söfn af þessu tagi, siglingasafn, fiskveiðasafn og fiskasafn.

Það er grundvallarsannfæring mín að það sé ekki aðeins rétt að koma upp safni af þessu tagi heldur sé okkur Íslendingum það beinlínis skylt. Svona safn yrði ekki ómerkur þáttur í okkar fræðslukerfi við það að kynna ungu fólki mikilvægi þess að vernda þær auðlindir sem í hafinu eru, sjá svo til að hafið umhverfis Ísland sé hreint og ómengað og lífsskilyrðum þar ekki spillt með einum eða öðrum hætti af manna völdum. Þetta mundi vera ómetanlegt framlag í fræðslukerfi okkar og ég ítreka það að ég held að okkur sé skylt að gera eitthvað í þessa veru til þess að tryggja það eins og hægt er að það unga fólk sem hér vex úr grasi öðlist þá þekkingu og vitneskju um sjávarútveg, sjósókn, fiskverkun, fiskveiðar, um hafsvæðin hér í kringum okkur og það líf sem í þeim hrærist - að þessi vitneskja sé fyrir hendi hjá ungu fólki. Þessi vitneskja er nefnilega hluti af því að vera Íslendingur.

Við höfum flest, a.m.k. við sem erum á miðjum aldri, blessunarlega lifað í nánum tengslum við þessa undirstöðuatvinnugrein og kannske mörg okkar unnið okkur inn okkar fyrstu krónur á ungum aldri, kannske 7-8 ára gömul, eitthvað í þá veru, við vinnu við fiskverkun. Þetta er liðin tíð sem heyrir sögunni til og það þarf einhvern veginn að koma til móts við þær þekkingarþarfir sem vissulega eru fyrir hendi og ég held að það mætti gera með skynsamlegum hætti með því að koma upp svona safni. Þetta er ekki, ég ítreka það, þetta er ekki fiskasafn eins og gerð hefur verið tilraun með að reka hér rétt sunnan Hafnarfjarðar og hefur því miður gengið afar brösulega. svo nauðsynlegt fyrirtæki sem það er, og þetta er heldur ekki sjóminjasafn.

Ég held að þetta sé ný hugmynd hér í þessari umræðu og ég held að hún sé allrar athygli verð. Þess vegna valdi ég þann kostinn að taka hana upp hér á hinu háa Alþingi. Og ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til hv. alishn. Sþ.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.