17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

231. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Að því er ræðu hv. 2. landsk. þm. varðar vil ég fyrst leiðrétta þann misskilning að frv. þetta er ekki til komið vegna greinar í Alþýðublaðinu hinn 13. nóv. né nokkurn annan dag nóvembermánaðar. Þetta er samkvæmt ábendingu fólks sem sjálft hefur átt í erfiðleikum af þessum sökum. Þannig er það mál. Og mér þykir afar vænt um að landlæknir hefur tekið undir það, enda hef ég skýrt honum frá þessu máli. Og gott er að Alþýðublaðið hefur líka tekið undir þetta, en ég geri ráð fyrir að það hafi verið það sem hv. þm. var að tala um nema Alþýðublaðið hafi verið með þessar hugmyndir þm. Ekki veit ég það því að ég hef ekki alltaf tíma til að lesa það blað og hafði það alls ekki í nóvembermánuði og núna um nokkurt skeið, en það fer kannske að eignast fleiri lesendur ef svo heldur sem horfir og má vera að það verði orðið hluti af morgunverkunum að lesa það blað áður en líður. En hvað um það, herra forseti. Það var ekki ætlunin að ónotast neitt í þessu sambandi heldur einungis að skýra frá þessu til fróðleiks af því að þessi spurning kom fram.

En þær hugmyndir sem hún setti fram byggjast á misskilningi á sjálfu frv. Hér er einungis verið að tala um að gera maka sem svona stendur á um ekki verr setta en þá sem annaðhvort hafa misst maka sinn eða þá sem eru einstæðir foreldrar, þ.e. að þeir sem núna eiga rétt á barnalífeyri og mæðralaunum skv. lögunum eru sá hópur sem hér er verið að miða við en ekki allur sá stóri hópur sem hv. þm. nefndi og gilda allt aðrar reglur um.

Þetta er í sjálfu sér svar við spurningu hv. 10. landsk. þm. líka. Hún spurði um þá sem lægju á langlegusjúkrahúsi og hefðu ekki verið metnir öryrkjar. Þeir mundu ekki skv. þessu frv. fá rétt því að hér er einungis miðað við þá sem fá barnalífeyri skv. almannatryggingalögum. En barnalífeyri fá þeir ekki sem svo stendur á um sem hv. þm. nefndi. Þetta er í raun og veru einungis samræmingaratriði.

Að því er varðar grg. vil ég fyrst geta þess að sú prentvilla sem hv. þm. nefndi hefur verið leiðrétt með því að frv. hefur verið útbýtt prentuðu upp þannig að í grg. stendur: „Væri framfærandi barnanna hins vegar ekkja, ógift eða fráskilin kona ætti hún rétt á allt að 11 002 kr.“ o.s.frv.

Frv. fjallar um að þegar faðir eða móðir barnanna sem hefur verið öryrki er vistaður langdvölum á stofnun verði þau fjárhagslega ekki lakar sett en ekkjan, ógifta konan eða fráskilda móðirin væri með sín börn á framfæri. Um þetta snýst þetta mál.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði athugasemd við þetta, það væri ekki rétt það sem stæði um upphæð mæðralaunanna. Það þyrftu að vera þrjú börn til þess að svo væri sem þarna stendur. Það er rétt, enda stendur þarna „allt að“. Það er engin villa í grg. frv. að því er þetta varðar, enda er grg. samin af þeim lögfræðingi sem einna best þekkir þessi mál.

Ég vonast til þess, herra forseti, að hv. þingdeild greiði fyrir málinu í gegnum þingið og viðurkenni þar með að þarna er þörf á að bæta til betri vegar um hag þess fólks sem í hlut á.