17.12.1986
Neðri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

231. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er næsta fátítt að ég skuli vera ósammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um málefni almannatrygginga en sammála hæstv. heilbrmrh., en ég stend staðföst við það.

Ég vil leiðrétta nokkur atriði í málflutningi hv. þm. Hvort sem hún hefur borið það undir fólk sem þekkir nokkuð vel til almannatrygginga vill svo til að það geri ég líka, enda var ég starfsmaður Tryggingastofnunar ríkisins um sjö ára skeið og tel þau málefni meðal þess fáa sem ég kann til nokkurrar hlítar.

Almannatryggingalöggjöfin byggist á jöfnuði og að baki allra lagabreytinga um almannatryggingar liggur að það hefur verið reynt að gæta þess að mönnum væri ekki mismunað. (JS: Það er gert.) Ástæðan fyrir því að ellilífeyrisþegar fá ekki ekkju eða ekkilsbætur er sú að þeir eru með ellilífeyri. (JS: En örorkulífeyrisþegar?) Örorkulífeyrisþegar fá þær að sjálfsögðu. (JS: Þeir fá ekkju- og ekkilsbætur.) Þeir fá ekkju- og ekkilsbætur, aldeilis rétt. Það má segja að fyrir þessu séu nokkrar ástæður, alveg sams konar ástæður og t.d. þær að enn er það svo að karlmenn fá ekki ekkilslífeyri heldur einungis nokkurra mánaða ekkilsbætur. Þetta á sér skynsamlega skýringu, þá einföldu skýringu að karlmenn eru almennt miklu betur fjárhagslega settir við missi maka en konur eru.

Makabætur, 80% af lífeyri, hafa ævinlega byggst á því að makinn væri bundinn á sínu eigin heimili við hjúkrun sjúks maka. Í þeim tilvikum sem hér er talað um er ekki um það að ræða. Þess vegna væri sú breyting, sem hv. þm. hefur lagt til, alveg ný túlkun á hugmyndinni um makabætur. Vissulega væri ánægjulegt og í fljótu bragði fallega hugsað að greiða tvöfaldan barnalífeyri með barni maka sem er langlegusjúklingur á sjúkrahúsi, en hvers eiga aðrir einstæðir foreldrar í landinu að gjalda? Þeir eru alveg jafnilla settir með einfaldan barnalífeyri eða einfalt meðlag. Ég held að ef ætti að vera einhver skynsemi í þessari löggjöf ætti hún að sjá til þess að hver einasti einstaklingur fyrir sig hafi þær bætur, séu honum dæmdar bætur, sem dugi honum til framfærslu. Svona blóm inn í lagagreinar sem fjalla um allt aðra hluti og eru byggðar á allt öðrum hugmyndum held ég að geti aldrei verið til bóta og vissulega í þessum tilvikum fælu í sér mismunun.

Hv. þm. kallaði fram í áðan að örorkulífeyrisþegar fái ekkju- og ekkilsbætur. Það er svo að að baki því er líka ákveðin hugsun. Oft er það svo að það fólk er frekar með börn á framfæri. Það lifir oftast lífi sem er að mörgu leyti kröfuharðara en ellilífeyrisþega sem í allflestum tilvikum hefur einungis fyrir sjálfum sér að sjá. Slík lög eru því ekki sett út í bláinn. Ég held þess vegna að það sé ljóst hvað hæstv. ráðh. er að gera hér. Ég lýsi stuðningi við að maka sem er með börn á framfæri og hefur engar tekjur frá hinum makanum, ekki einu sinni lífeyrisbætur hans, og er nákvæmlega jafnilla settur og aðrir einstæðir foreldrar, séu greidd mæðralaun og feðralaun til jafns við aðra. Um það er þetta frv. En ef við viljum hins vegar setjast niður á hinu háa Alþingi og bæta kjör lífeyrisþega og tryggja þeim sómasamlega framfærslu, sem er fjarri því að þeir hafi nú, er það efni í annað frv. og að ég hygg miklu kostnaðarsamara en það litla frv. sem hér liggur frammi.

Þess vegna er ég að leggja áherslu á þetta að menn gangi ekki í neinni villu um hvað er hér á ferðinni. Mér er aldeilis fyrirmunað að standa að því að þessir ákveðnu foreldrar, sem eiga maka sinn í sjúkrahúsi, eigi að fá tvöfaldan barnalífeyri á meðan aðrir verða að lúta því að hafa einfaldan. Það er nokkuð sem ég get ekki samþykkt og mér mundi finnast það vera í trássi við grundvallarhugmyndina á bak við lög um almannatryggingar. Ég mun því styðja frv. eins og það er, en ég mun í nefndinni fara fram á að séð verði til að ef ljóst er frá byrjun að einstaklingur sem veikist muni verða langlegusjúklingur og verði ekki læknaður og þar af leiðandi á stofnun verði tryggt að örorkumat fari fram sem allra fyrst þannig að slíkir makar fái sömu réttindi.