17.12.1986
Neðri deild: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

Afgreiðsla frumvarps til stjórnarskipunarlaga

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Það er ansi hart að enn þá einu sinni skuli menn standa frammi fyrir því að hér eru snarreddingar við að koma í gegn smáreddingum fyrir ríkisstjórn og þm. verða að una því að mál sem hafa lengi beðið lendi í undandrætti.

Það vill þannig til að það mál sem hér um ræðir og athugasemd er gerð út af er kannske eitt það veigamesta mál sem til umræðu er á þessu þingi núna í vetur því að þar er hvorki meira né minna en heil stjórnarskrá á ferðinni. Að auki er hér flutt inn í þingið mál sem er komið frá samtökum sem eru mjög öflug og hafa á skömmum tíma skotið föstum rótum víða um land og fólkið í landinu beinlínis krefst þess að þingið taki þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar. Ég tek undir þau orð hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að þetta mál á að ræða og ég tel að það sé vel við hæfi að umræða um það komi inn í umræðurnar þessa dagana þar sem þjóðin og fjölmiðlar fylgjast vel með því sem hér fer fram. Því væri vel við hæfi að þetta mikilvæga mál, sem svo miklu fylgi hefur um sig safnað um allt land, fái gaumgæfilega meðferð innan um og saman við þau mál sem eru til umræðu hér þessa dagana.