21.10.1986
Sameinað þing: 6. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

5. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sama gjald fyrir símaþjónustu á öllu landinu. Þessi tillaga er flutt af mér og fjórum öðrum hv. þm. Alþb. og hefur áður komið fram hér á þingi og gekk til allshn. Sþ. í fyrra sem ég geri tillögu um að fái þetta mál aftur til meðferðar.

Tillagan er efnislega í þremur liðum. Hún gerir í fyrsta lagi ráð fyrir því að áætlun verði gerð um uppbyggingu símakerfisins og símaþjónustu þannig að unnt sé að jafna gjaldskrá símans í áföngum með það að markmiði að landið verði allt eitt gjaldsvæði innan fimm ára. Í öðru lagi að tryggja að kostnaður vegna símtala við stjórnsýslustofnanir hins opinbera verði hinn sami hvar sem er á landinu fyrir lok næsta árs. Og í þriðja lagi að gerðar verði ráðstafanir til þess að gjaldskrárbreyting skv. a-lið tillögunnar verði ekki íþyngjandi fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

Símamál voru til umræðu á fyrra fundi Sþ. í dag þar sem ég mælti fyrir fsp. vegna truflana af völdum álags innan símakerfisins. Hér er mælt fyrir tillögu sem varðar það réttlætismál að allir íbúar landsins búi við sömu aðstæður í sambandi við greiðslu fyrir símaþjónustu. Það er verið að vinna að tæknilegri breytingu á landssímanum á Íslandi sem gerir það kleift og auðvelt að gera landið allt að einu gjaldsvæði innan fárra ára. Hæstv. samgrh. greindi okkur lítillega frá því á fyrri fundi hvað væri á döfinni í þeim efnum. Nefndi ljósleiðara og stafrænar stöðvar, sem verið er að byggja upp, en það er sú tækni sem gerir kleift að koma þeim þáttum í framkvæmd sem tillagan gerir ráð fyrir. þ.e. að landið allt verði eitt gjaldsvæði.

Nú er munurinn í sambandi við símakostnað, eftir því hvar menn búa á landinu og milli hvaða svæða menn tala, gífurlega mikill eða allt að tífaldur. Hér er því um afar þunga skattlagningu að ræða sérstaklega fyrir fólk á landsbyggðinni sem þarf vegna búsetu og þeirrar þarfar sem henni fylgir að nota landssímann milli núverandi gjaldsvæða, þá þurfa þessir viðskiptavinir símans að borga margfalt umfram það sem fólk á þéttbýlissvæðinu þarf að gera vegna þess hvernig gjaldskrá símans er upp byggð. Þessi skattur getur skipt þúsundum á mánuði fyrir þá sem þurfa á símanum að halda og það eru auðvitað ekki aðeins einstaklingar, það eru líka fyrirtæki. Þessi mismunun er mjög tilfinnanleg, einnig fyrir þau fyrirtæki sem lenda í aukakostnaði vegna þessarar mismununar.

Í grg. með tillögunni er þess getið hvað þarna er á ferðinni í sambandi við skrefamælingar og þar er það staðhæft, sem ég hygg að enginn vefengi, að auðvelt sé tæknilega að koma þessari jöfnun við að landið allt verði eitt gjaldsvæði á þeim tíma sem tillagan gerir ráð fyrir.

Annar þáttur tillögunnar ætti að vera kominn til framkvæmda fyrir löngu, þ.e. að sama gjald væri tekið fyrir símtöl við stjórnsýslustofnanir óháð því hvaðan hringt er. Þessar stjórnsýslustofnanir eru langflestar hér í Reykjavík og það er auðvelt mál að setja þær allar á sama taxta sem greiddur yrði af viðkomandi stofnunum eða af ríkissjóði beint, ef menn ekki vilja leggja það á stofnanirnar, þá af Pósti og síma eða beint af ríkissjóði. Ég geri ekki mikið úr því hver það væri sem tæki á sig þá sjálfsögðu jöfnun fyrir þegna landsins að þessu leyti.

Herra forseti. Ég vek athygli á því að í umsögn um þessa tillögu, en allshn. leitaði til ýmissa um umsögn á síðasta þingi, þá komu jákvæðar undirtektir frá mörgum aðilum eins og samtökum sveitarfélaga í hinum ýmsu landshlutum. Undirtektir þeirra voru allar jákvæðar. Það skorti því ekki stuðning þaðan, enda vænti ég raunar ekki annars frá þessum aðilum svo mikið sem fólk um allt land á í húfi að þessi jöfnun nái fram að ganga.

Hins vegar komu útreikningar frá Pósti og síma sem áttu að sýna það að þessi mismunur, sem staðhæft er að sé fyrir hendi, og skattlagning, sérstaklega á landsbyggðina í gegnum þessa misjöfnu gjaldtöku, hann væri nánast ekki fyrir hendi. Ég undraðist þessa útreikninga fyrrv. póst- og símamálastjóra, sem bárust allshn., og þegar að var gáð þá var hér um að ræða verulegar missagnir, svo ég noti nú ekki sterkara orð, í þessum útreikningum sem áttu í rauninni að koma þeim boðum til hv. þingnefndar að þetta væri nánast allt í lagi. Ég sé ástæðu til þess að nefna hér í ræðustól það sem lesa má í grg. með tillögunni að póst- og símamálastjóri tók ekki aðeins umframskrefin á langlínu hér innanlands inn í sinn útreikning heldur umframskrefin vegna símtala til útlanda, en um þau er ekki rætt í þessari tillögu, um það fjallar ekki efni hennar. 60% umframskrefa á Reykjavíkursvæðinu, svæði 91, eru tilkomin vegna samtala við útlönd. Þar eiga auðvitað fyrirtæki og opinberir aðilar mikið í hlut. En aðeins 16% umframskrefa sem notendur á landsbyggðinni borga eru tilkomin vegna símtala við útlönd. Það er að sjálfsögðu óhæfa og satt að segja dæmalaust að opinber stofnun skuli bera slíkar upplýsingar fram við hv. nefndir þingsins til þess að hafa áhrif, eins og ég geri ráð fyrir að þetta hafi haft á þingnefndina, og reyna að telja mönnum trú um að efnislega væri tillagan á misskilningi byggð.

Ég vara við vinnubrögðum af þessu tagi. og vona að hér hafi verið um yfirsjón en ekki ásetning að ræða hjá viðkomandi starfsmanni, sem veitti þessa umsögn, en ég vænti þess einnig, herra forseti, að þetta réttlætismál fái jákvæða afgreiðslu á þessu þingi. Ég vænti þess að hv. þm. setji sig inn í það og átti sig á því hversu óhófleg og íþyngjandi skattlagning hér er á ferðinni, sérstaklega fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Það má segja að hún sé enn þá fráleitari þegar tekið er tillit til þess að farið er að skattleggja Póst og síma með beinum hætti af ríkisvaldinu. Á yfirstandandi ári eru um 200 millj. kr. teknar af Pósti og síma - það er a.m.k. ásetningur ríkissjóðs, það mun lítið hafa skilað sér - er tekið með beinum hætti inn í ríkissjóð og landsbyggðin, sem er að greiða margfalt umfram raunkostnað vegna langlínusímtala, er að greiða lungann af þessari skattlagningu. Þetta er óhæfa, herra forseti, og henni þarf að létta nú þegar tæknin gerir það kleift að gera landið allt að einu gjaldsvæði innan skamms.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað