17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Mig langar til að gera að umtalsefni einn þátt þessa máls, þ.e. þann þáttinn sem komst undir smásjána í dag þegar meiri hlutinn á þessu þingi ákvað að fella tilraun til þess að taka sterkar á ákveðnum þætti meintra skattsvika í landinu, þ.e. því að persónuleg eyðsla væri færð á rekstur fyrirtækja og menn þannig færðu sér fé eða lífskjör án þess að greiða eðlilegan hlut til samfélagsins. Þetta varðar nefnilega siðferðilegan grundvöll undir skattkerfi. Þetta varðar það að fólki finnist að allir taki á með jöfnum þunga og þetta kemur við sögu þegar menn bera sig saman. Það er í gangi annað skattaeftirlit í landinu en það sem er á vegum hins opinbera. Það er hið óopinbera skattaeftirlit sem fer þannig fram að fólk fylgist með á vinnustað sínum og heimili sínu og í sínum hópi, og veit nokkuð vel hverju fólk hefur úr að spila og veit nokkuð vel hvað fólk síðan greiðir til hinna sameiginlegu þarfa samfélagsins.

Hingað til, herra forseti, hafa þessi mál gjarnan verið afgreidd þannig að um þetta væri erfitt að segja, þetta væri náttúrlega kannske að mestum hluta öfund. Fólk sæi ofsjónum yfir velgengni nágranna sinna og jafnvel samstarfsmanna. Það væri engin ástæða til þess að ætla að þetta væri neitt alvarlegt mál og menn skyldu gæta þess að viðhafa ekki of stór orð vegna þess að umtal um skattsvik væri mestan part vegna þess að fólk sæi ofsjónum yfir velgengni annarra. Við þessu hefur svo sem ekkert sérstakt verið að segja annað en að menn hafa, þeir sem vel þekkja, haldið því fram að þetta væri svona.

En nú hefur hins vegar gerst dálítið merkilegur hlutur, herra forseti. Nú hefur verið dreift þykkri skýrslu á sjálfri löggjafarsamkundunni sem á m.a. að hafa eftirlit með því að þau lög sem hún á annað borð setur séu líka sæmilega haldin. Dreift hefur verið þykkri skýrslu. Það var gert hinn 18. apríl s.l. Og það er ekki hægt að afgreiða niðurstöðu þessarar skýrslu, herra forseti, með því að hér sé á ferðinni illgjörn öfund náungans í næsta húsi. Ekki veit ég hvar þeir búa þessir nefndarmenn, en þeir eru Þröstur Ólafsson hagfræðingur, Eyjólfur Sverrisson löggiltur endurskoðandi, Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur. Nú veit ég ekki hvernig granna þeir eiga og ég veit ekki hvort ummæli þeirra í þessari skýrslu eru til komin vegna þess að þeir sjá einhverjum ofsjónum yfir velgengni nágranna sinna. En þessir merku menn, sem við höfum ekkert leyfi til þess að taka ekki alvarlega, þeir segja okkur þessa myrku sögu sem er ekki hægt að loka augunum fyrir, sem er ekki hægt að loka eyrunum fyrir. Þeir segja okkur að það sé raunverulega ástæða til þess að ætla að umtalið um skattsvikin, sem menn hafa gjarnan afgreitt sem öfund og illgirni, sé satt. Hvernig eiga stjórnvöld svo að bregðast við?

Viðbrögð stjórnvalda varða traust. Alveg eins og skattkerfið varðar traust fólks á yfirvöldum, þá varða viðbrögð yfirvalda við skýrslum sem þessari líka traust á yfirvöldum sínum. Hvað þykir fólki um ráðherra sem ekki tekur öðruvísi á skýrslum með svona innihaldi en að segja að það sé nú full ástæða til þess að láta fara fram gagngera endurskoðun skattkerfisins? Það hafa menn sagt í gegnum árin. Almennt tal um nauðsyn á endurskoðun skattkerfisins. Af hverju yddast ekki umræðan þegar svona skýrsla liggur fyrir? Af hverju verður umræðan ekki beittari þegar svona skýrsla liggur fyrir? Af hverju talar ráðherrann enn um nauðsyn á endurskoðun skattkerfisins? Vill hann ekki uppræta skattsvik? Vill ráðherrann ekki uppræta skattsvik?

Það var þung reynsla þeim sem hér situr að hlýða á upplestur hv. þm. Svavars Gestssonar úr þessari skýrslu. Ástæðan var sú að ég var erlendis þegar hún var lögð fram og hafði ekki lesið svo gaumgæfilega sem mér bar innihald hennar. Í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi er rétt að minnast á margvíslegar leiðir til þess að hækka kostnaðarhlið (lækka tekjuhlið) rekstrar til undandráttar frá tekjuskattsstofni og snýr því eingöngu að fyrirtækjum eða atvinnustarfsemi. Þessar tegundir eru helstar:" - Þetta er eins og að verið sé að lesa upp úr kennslubók. Þessar tegundir eru helstar:

„Persónuleg útgjöld einstaklinga í atvinnurekstri eru færð sem rekstrarkostnaður.“ - Þetta er staðreynd.

„Persónuleg útgjöld hluthafa/hlutareiganda eru færð sem rekstrarkostnaður hjá lögaðila.“ - Önnur staðreynd.

„Persónuleg útgjöld launþega í þjónustu einstaklings eða lögaðila færð sem rekstrarkostnaður. Greiðslur sem á að eignfæra og afskrifa eru færðar sem rekstrarkostnaður, t.d. viðhald. Óheimilar afskriftir útistandandi skulda. Endurgreiðsla kostnaðar er ekki færð. Afhending eigna til hluthafa eða hlutareigenda án skráningar í reikningi lögaðila.

Kaup eigna hluthafa eða ættingja þeirra á verði sem er hærra en almennt markaðsverð.

Sala eigna til hluthafa eða ættingja þeirra undir markaðsverði.

Vaxtalaus lán til hluthafa eða starfsmanna lögaðila eða vextir undir markaðsvöxtum.“

Þetta er eins og loki sé lyft af öskutunnu. Það er aldeilis ótrúlegt að á sama tíma og stjórnskipuð nefnd setur fram svona athugasemdir, þá skuli meiri hluti löggjafarsamkundunnar fella það að skerpa tök skattkerfisins á þessum hlutum. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn í þessum sölum hafa afneitað þessu neyðarkalli skattyfirvalda um sterkari tök á skattamálunum. Þeir telja sem sé, að því er virðist, að ekki skorti á löggjöfina í þessu sambandi og þá eru þeir að segja að sökin sé væntanlega skattyfirvalda. Meiri hluti löggjafarsamkundunnar segist hér með hafa gefið skattyfirvöldum nægilegt tæki í hendurnar til þess að taka á þessum hlutum og er þá að senda boltann til skattyfirvaldanna sjálfra. Þetta er hugguleg sending frá flokki fjmrh. til undirmanna sinna á skattstofum allan hringinn í kringum landið.

Það er ekki furða þótt mönnum ofbjóði og það er ekki furða þótt hv. þm. Halldóri Blöndal hafi orðið svo um að hann hefur krafist þess að formenn fjh.og viðskn. þingsins skrifi tafarlaust til skattstjóra allan hringinn í kringum landið og óski upplýsinga um hvort þessum málum sé virkilega svona komið. Ég vona og ég bið að hv. þm. Páll Pétursson hafi heyrt þessa kröfu og þessa ósk hv. þm. Halldórs Blöndals þar sem augu hans opnuðust eins og mín fyrir þeirri nauðsyn að taka þarna til, fyrir þeirri nauðsyn að taka þarna fast á. Nú hefur hv. þm. Páll Pétursson gengið í salinn eins og til áréttingar þeim orðum og því ákalli hv. þm. Halldórs Blöndals hér fyrr í dag að skrifa til allra skattstjóra landsins án tafar og óska upplýsinga um þessi mál, óska þess að fá að vita hvort löggjafarsamkundan undir forustu hans flokks hafi gefið þeim nægileg tól í hendurnar til að taka á þeim hlutum sem talað er um í þessari skýrslu sem var dreift hinn 18. apríl 1986 og opnar lokið af skolpræsum viðskiptalífsins. (TG: Við höfum alltaf treyst því að þjófar væru ekki til.) Akkúrat. Það virðist vera að trúnaðartraustið sé ekki nóg, hv. þm. Hér eru lagðar fram upplýsingar sem segja að það verði að taka fastar á. Í dag var lögð hér fram tillaga um að gefa tæki til þess að taka af meiri hörku á þessum hlutum og þingmeirihlutinn undir forustu fjmrh., sem fer með æðstu stjórn skattamála, þessi þingmeirihluti hafnaði þessu. Þar hefur fjmrh. snúist gegn þeim þm. sem samviskan nagar nú og menn spyrja sig hvort þeir hafi brugðist þeirri skyldu sinni að gefa embættismönnunum til þess tæki og til þess tækifæri að gá þarna grannt að.

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera skattamálin að meira umræðuefni að sinni. Ég vona að hv. þm. Páll Pétursson taki til þess tíma frá búsmala sínum um hátíðarnar að skrifa til þeirra skattstjóra sem hér hefur verið rætt um og biðji þá um tafarlausar og ítarlegar upplýsingar eins og hv. þm. Halldór Blöndal hefur farið fram á fyrir hönd þessarar deildar. Ég vona og ég bið og ég óska að hv. þm. Páll Pétursson bregðist nú harkalega við eins og ég veit að hann getur. Ég hef setið undir hans stjórn í þessari hv. nefnd í þrjú ár og ég veit að hann getur tekið snöfurlega á hlutum og ég óska þess nú, herra forseti, þar sem þeir eiga sæti í sama þingflokki og téður formaður, að þeir komi þeim skilaboðum til hans frá mér að hann taki nú vel á þessum hlutum.