17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1785)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til að bæta úr alvarlegri vanrækslu. Þannig var að í dag lýsti hv. 2. þm. Norðurl. e. því yfir að hann vildi að skattstjórarnir yrðu kallaðir til vitnis um hvort það gæti verið að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækja væri talin sem rekstrarkostnaður þeirra. Mér láðist í fyrri ræðu minni í kvöld við 3. umr. þessa máls að taka sérstaklega undir þessa ósk hv. þm. og lýsa því yfir að ég mun gera tillögu hans að minni í hv. fjh.- og viðskn. þegar hún kemur saman til að fjalla um lánsfjárlög eða framlengingarfrv. á hinum almennu og sérstöku tekjum ríkissjóðs.

Ég held að hér sé hreyft svo stóru máli af einum af forustumönnum þm. stjórnarflokkanna að það sé í rauninni óhjákvæmilegt að hv. Alþingi veiti þessum þm. fullan stuðning í þessu efni. Fyrir því vil ég leyfa mér eins og hv. 4. landsk. þm. að taka mjög eindregið undir þá ósk að skattstjórar verði látnir gera grein fyrir því með hvaða hætti þeir reyna að koma í veg fyrir að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækja og risnukostnaður lendi inn á hinum almennu rekstrarútgjöldum fyrirtækjanna.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Halldór Blöndal gat um í kvöld, að ákvæðin um frádrætti frá tekjum af atvinnurekstri eru í 31. gr. skattalaganna og þar er um að ræða upptalningu sem yfirleitt er talin tæmandi. En þrátt fyrir það, herra forseti, að þessi upptalning sé talin tæmandi telur löggjafinn engu að síður rétt og nauðsynlegt að taka það fram í 52. gr. skattalaganna hvað það er sem ekki má telja sem rekstrarkostnað. Í 52. gr. skattalaganna segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. eða til frádráttar skattskyldum tekjum á einn eða annan hátt er ekki heimilt að telja: - þ.e. þegar búið er að telja upp það sem er heimilt eru sérstaklega tiltekin nokkur atriði sem alls ekki er heimilt að kalla rekstrarkostnað fyrirtækja. Hvaða atriði eru það? Það eru:

1. Gjafir, nema um sé að ræða kaupauka sem þá telst til endurgjalds fyrir vinnu eða starf.

2. Fjársektir eða önnur viðurlög, hverju nafni sem nefnast, vegna refsiverðs verknaðar skattaðila sjálfs, þar með talið verðmæti upptækra eigna eða greiðslur þess í stað. Enn fremur kostnað, hverju nafni sem nefnist, við öflun ólöglegs upptæks hagnaðar eða tengdan saknæmum brotum.

3. Arð eða vexti af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum, sbr. 2. mgr. 2. gr."

Það er þess vegna alveg ljóst að þó að löggjafinn hafi litið þannig á að 31. gr. væri tæmandi upptalning á frádráttarheimildum fyrirtækja taldi hann engu að síður nauðsynlegt að slá því föstu í 52. gr. skattalaganna að það er óheimilt að nota gjafir sem frádrátt frá skattskyldum tekjum, það er óheimilt að draga frá skattskyldum tekjum fjársektir eða önnur viðurlög vegna refsiverðs verknaðar og það er óheimilt að draga frá arð eða vexti af framlögðu fé manns til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar atvinnustarfsemi, hvort heldur reksturinn er á eigin ábyrgð eiganda eða með ótakmarkaðri ábyrgð í sameign með öðrum. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt að í sömu grein, 52. gr., skattalaga sé jafnframt tekið fram að á rekstrarkostnað megi ekki færa það sem kalla má persónuleg útgjöld forráðamanna fyrirtækja og þar má heldur ekki færa það sem kalla má óhófleg risnuútgjöld. Þær brtt. mínar sem felldar voru í dag gerðu í raun og veru ráð fyrir að þetta yrði talið í kaflanum hvað ekki telst rekstrarkostnaður í 52. gr. skattalaganna. Þess vegna er ekkert óeðlilegt við þá tillögu sem þar var flutt jafnvel þó að svo sé talið að 31. gr. skattalaganna sé tæmandi upptalning á þeim frádráttarheimildum sem í skattalögunum eru.

Hv. þm. Halldór Blöndal nefndi að skattalögin eins og þau eru nú voru í meginatriðum afgreidd á tveimur þingum, ég hygg á árabilinu 1977-1979. Verulegur hluti laganna var ákveðinn með lögum vorið 1978 og álagningarkaflarnir, bæði á einstaklinga og fyrirtæki, voru ákveðnir með lögum sem sett voru á Alþingi í ársbyrjun 1980. Það er rétt, sem hv. þm. Halldór Blöndal gat um, að margir fjármálaráðherrar hafa komið að þessum lögum, fyrst Matthías Á. Mathiesen, síðan Tómas Arnason, þá Sighvatur Björgvinsson og loks Ragnar Arnalds. Og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þetta eru að mörgu leyti góð og gild skattalög. En það segir kannske sína sögu um ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. að hún telji sig hafa höndlað fullkomin skattalög þegar núverandi ríkisstjórn tók við vorið 1983, endanlega fullkomin skattalög. Við sem stóðum að setningu laganna vitum auðvitað alveg eins með þessi lög eins og öll önnur lög sem hér eru sett að þau þurfa jafnan athugunar og endurskoðunar við. En það er býsna athyglisvert þegar leiðtogar Sjálfstfl. og varaformaður þingflokks Sjálfstfl. tala þannig að í rauninni þurfi ekkert að gera í skattamálum af því að skattalög Ragnars Arnalds, Sighvats Björgvinssonar, Tómasar Arnasonar og Matthíasar Á. Mathiesens hafi verið svo góð. Til hvers er Sjálfstfl. þá með fjmrh.? Ekki er það til að passa að ríkissjóður sé í jafnvægi. Það þekkja allir hvernig það er. Það er rétt að tala ekki mikið um það í þessari umræðu. Það verður gert á föstudaginn. Sjálfstfl. fór í kosningabaráttuna með yfirlýsingar um róttækar breytingar í skattamálum. Allt átti að laga. Og hv. þm. Halldór Blöndal, minn góði vin, hélt langar og ítarlegar ræður í tíð síðustu ríkisstjórnar um þá ofboðslegu skattpíningu sem hún beitti sér fyrir og nauðsyn þess að laga hlutina þegar hin nýja stjórn tæki nú við.

Og hvað gerist? Á fjórða ári, 4. þingi þessarar framsóknaríhaldsríkisstjórnar sem við höfum núna kemur hv. varaformaður þingflokks Sjálfstfl. og lýsir yfir: Skattalögin eru og hafa verið fullkomin og engin ástæða til að breyta neinu þar. Ja, ég veit ekki hvort ég á að þakka fyrir hönd flokksbróður míns Ragnars Arnalds fyrir þetta hól. Ég dreg þær þakkir við mig vegna þess að ég tel ekki að þessi skattalög hafi frekar en önnur verið fullkomin. Skattalög þarf alltaf að vera að laga og endurskoða.

Síðan gerist það að sumarið 1984 er samþykkt þál. um nefnd til að kanna umfang skattsvika. Þessi nefnd er skipuð 8. nóv. 1984 og skilar skýrslu 18. apríl 1986. Hún skjalfestir í rauninni í fyrsta sinn með hvaða hætti skattsvik ganga fyrir sig hér á landi, hvaða gallar það eru á skattalögum sem óhjákvæmilegt sé að sníða af þeim. Þegar þm. eru með þessa skýrslu í höndunum og hafa haft hana fyrir framan sig í misseri eða svo er algjört lágmark að stjórnarandstaðan spyrji: Hvað á að gera við þetta plagg? Og svar hæstv. fjmrh. við þeirri spurningu er: Það á ekkert að gera við þetta plagg. Það á að gleyma þessu plaggi.

Þegar skýrslan kom fram lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að það ætti að breyta hegningarlögunum þannig að það varðaði tugthúsvist samkvæmt þeim að svíkja undan skatti. Frv. um það efni hefur ekki sést hér að því er ég best man. Ég man ekki eftir því að nokkurt einasta mál hafi verið flutt til að svara kröfum skattsvikaskýrslunnar og hv. þm. Halldór Blöndal, sem víkur nú úr salnum, hefur bersýnilega ákveðið það sem leiðtogi Sjálfstfl. að þessi skýrsla sé ekki pappírsins virði. Leiðtogi Sjálfstfl., hv. þm. Halldór Blöndal, telur þessa skýrslu einskis virði. (TG: Leiðtogi?) Leiðtogi sagði ég, hv. þm. Tryggvi Gunnarsson. Ég tók eftir því að hv. þm. Tryggvi Gunnarsson dró þetta nokkuð við sig. (TG: Það sagði ég aldrei. ) Nei, það var misskilningur og ég bið hv. þm. Tryggva Gunnarsson að afsaka að ég skyldi misskilja tóninn í orðinu og mismæli í þokkabót. Það er full ástæða til að ítreka að ég sársé eftir því að hafa haft þetta upp eftir þm. (Gripið fram í.) Já, hér eru alvarleg mál á ferðinni, hv. þm. (Gripið fram í.) Það er fjöldi manns að baki hv. þm. eins og hann mætti sjá ef hann sneri sér við í sæti sínu. En það er rétt að hv. þm. Sjálfstfl. eru flestir flúnir og hv. þm., sá ágæti 3. þm. Austurl. sem hér situr og situr betur á þingfundum en flestir aðrir, hefur staðið vaktina fyrir Sjálfstfl. með sóma, bæði í þessari umræðu og áður þannig að það er ástæða til að halda honum sérstakt þakkarávarp næst þegar hv. þm. Halldór Blöndal boðar fund í þingflokki Sjálfstfl.

Herra forseti. Hér er auðvitað um að ræða þvílíkt stórmál að það er alveg óhjákvæmilegt að óska eftir að hv. þm. Páll Pétursson verði kallaður í salinn (PP: Hann er hér.) og sitji þar og verði hér í þinginu. Hann hefur kaup fyrir að sinna þingstörfum og hann getur vel gert það meðan verið er að ræða við hann. Hann er þingleiðtogi stjórnarliðsins í þessari virðulegu deild. Hann er forustumaðurinn sem gefur tóninn fyrir hv. þm. Halldór Blöndal og aðra slíka liðsmenn stjórnarinnar hér í salnum. (Gripið fram í.) Þennan kross verður hv. þm. Páll Pétursson að átta sig á að hann ber og reyndar fleiri krossa. En um það verður ekki rætt frekar af vissum ástæðuin.

Þannig er að hv. þm. Páll Pétursson, leiðtogi stjórnarliðsins í Nd., hefur verið beðinn um að kalla í skattstjóra allra skattumdæma á landinu (KJóh: Áður en þessari umræðu lýkur.) til fundar í fjh.- og viðskn. helst áður en þessari umræðu lýkur. (ÓÞÞ: Það er stutt.) Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson leggur ævinlega góðum málum lið og er alltaf tilbúinn til að greiða götu góðra mála og þá sérstaklega mála hv. þm. Páls Péturssonar og ég reyndar veit að hv. þm. Páll Pétursson á fáa einlægari og öflugri stuðningsmenn í sínum þingflokki en hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson. Þess vegna þykir mér vænt um að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson skuli með svo skörulegum afgerandi hætti hafa tekið undir þá ósk sem hér hefur verið flutt af Halldóri Blöndal. Mér sýnist einsýnt að þessi ósk hv. þm. Halldórs Blöndals eigi yfirgnæfandi þingfylgi að fagna. (TG: Það eru ekki margir í salnum.) Það er rétt. Það eru ekki margir í salnum og það er eðlilegt að hv. þm. Tryggvi Gunnarsson skuli kvarta yfir því að fáir skuli vera í salnum að hlýða á jafnmerkilegt mál og það sem hér er flutt og eðlilegt líka vegna þess að hv. þm. hefur gjarnan setið hér löngum einn af sínum flokksfélögum. (TG: Þetta er óskipað skip.) (Forseti: Þögn í salnum.) Það er alveg ástæðulaust að fyrirskipa þögn í salnum, herra forseti, þvert á móti er eðlilegt að menn skiptist á skoðunum og flýti þannig fyrir umræðum. Það þurfa þá kannske þeim mun færri að taka til máls sem frammíköllin komast betur að.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði í kvöld að skattstjórarnir hefðu reynt að fylgjast með persónulegri eyðslu forráðamanna fyrirtækja og risnuútgjöldum þeirra. Ekki dreg ég í efa að þeir hafi reynt það, en það er skoðun margra embættismanna skattyfirvalda að það hafi ekki tekist nógu vel m.a. vegna þess að þá skorti lagaleg úrræði. Hv. þm. Halldór Blöndal nefndi ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir skattsvik og spurði: Á að fjölga lögreglumönnum? Og mitt svar er: Nei, það er ekki lausnin. Þar er ég enn sammála hv. þm. Halldóri Blöndal. Það á ekki að fjölga lögreglumönnum. Það leysir ekki allan vanda í þessu efni. Ég held hins vegar að aðalatriðið sé að einfalda skattakerfið, fækka frádráttarliðum, gera það þannig að svo að segja hver maður geti áttað sig á hvaða gjöld hann ber samkvæmt gildandi álagningarreglum á hverjum tíma.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði að það væri lausn í þessu efni að taka upp virðisaukaskatt. Það dreg ég mjög í efa. Gjaldendum virðisaukaskatts mun fjölga frá söluskatti úr 10 000 í 22 500. Það er alveg ljóst að hættan á undandrætti undan skatti er mjög veruleg að því er virðisaukaskattinn varðar eigi að síður. Ég held þess vegna að lausnin sé ekki sú að taka upp virðisaukaskatt.

Það er einnig rétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að ýmsir þm. á þessu þingi og þjóðþingum grannlandanna vafalaust líka - hann sagði reyndar í þingunum um allan heim - eru að ræða um skattamál og skattsvik. Það væri fróðlegt ef aðalfulltrúi Alþingis Íslendinga hjá Alþjóðaþingmannasambandinu vildi kanna hvernig skattsvikaumræðunni er háttað í þjóðþingum um allan heim. Ég hygg að hún sé heldur lítil sums staðar, satt best að segja. En það er rétt að menn eru að ræða um þessi mál og það er rétt að sumir eru að reyna að slá sig til riddara í þessu efni. Það er til þannig lagaður óvandaður málflutningur. En svo merkilegt sem það nú er, þó að þessi umræða hafi staðið á fjórðu klukkustund, hefur ekkert slíkt heyrst á Alþingi Íslendinga. Menn hafa af fullri alvöru verið að ganga eftir því hvort ríkisstjórnin ætlar að taka eitthvert mark á þessu plaggi. Það er ósköp einfaldlega það. Ætlar ríkisstjórnin að taka eitthvert mark á þessu plaggi? Ætlar hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að tekið verði mark á þessu plaggi, skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika?

Það er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh., sem hér er kominn í salinn og boðinn sérstaklega velkominn, svari fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Hvað ætlar hún að gera í sambandi við þetta plagg? Ætlar hún ekkert að gera? Ætlar hæstv. forsrh. að láta fjmrh. einan um þetta mál eða ætlar hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að fjmrh. ræki embættisskyldur sínar í þessu efni eða hvað? Og það dugir ekkert fyrir forsrh. að segja: Ég hefði sagt af mér ef ég hefði fengið þessa skýrslu og ekkert gert. Það dugir ekkert fyrir hann að segja það í þessu máli, ekki nokkurn skapaðan hlut, en hann segir það í ákveðnu máli eins og kunnugt er fyrir hönd ákveðins ráðherra. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson að halda þannig á málum. Hann verður að svara fyrir ríkisstjórnina alla og gæta sóma hennar í þessu máli eins og öðrum og þess vegna svara þeirri spurningu: Ætlar hann eitthvað að gera við þetta plagg eða er hann sammála þingleiðtoga Sjálfstfl. í hv. Nd. Halldóri Blöndal um það að þetta plagg sé ekki pappírsins virði?

Fyrir nokkrum árum birtist grein í dagblaðinu Vísi eftir hugmyndafræðing Sjálfstfl., Hannes Hólmstein Gissurarson. Þar fjallaði hann um þá sjálfsbjargarviðleitni sem kæmi fram hjá þeim mönnum sem reyndu að losa sig við að borga skatta, „sjálfsbjargarviðleitni“, að reyna að komast undan hinni hörðu krumlu ríkisvaldsins. Það er alveg augljóst mál að samkvæmt hugmyndafræði Sjálfstfl. gengur það ekki upp að menn krefjist fjármuna til samneyslu. Það er þess vegna m.a. sem ríkissjóður hefur verið rekinn með stórfelldum halla í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég held hins vegar að hvar í flokki sem menn eru þurfi menn að átta sig á því að skattakerfið er hornsteinn félagslegrar þjónustu. Skattakerfið er hornsteinn samneyslunnar í landinu og til þess að samstaða sé um skattakerfið verða menn að taka á plaggi af þessu tagi eins og skattsvikaskýrslunni. Almenningur krefst þess. Meðan almenningur er hundeltur með tíkallana og tuttugukallana sína í skattakerfið er það algjör lágmarkskrafa að það sé tekið á móti þeim tillögum, hugmyndum og ábendingum sem eru settar fram í þessari skýrslu. Það ber að harma að Sjálfstfl. hefur vanrækt þetta mál með þeim hætti sem raun ber vitni um.

Ég hef hins vegar tekið eftir því, þrátt fyrir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá þm. Halldóri Blöndal, að hann hefur næman skilning á þessu vandamáli og hann stökk upp hér örugglega af einni saman réttlætiskennd þegar það fréttist í dag að svo gæti verið að í einhverjum tilvikum væri persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækja færð á fyrirtækin. Réttlætistaugin tók við sér og hann stökk í stólinn og sagði: Heimtum alla skattstjóra landsins fyrir fjh.og viðskn. Nd. áður en nýr dagur rennur þannig að þeir megi leiða okkur í allan sannleika um þetta mál. Vegna þess að ég hef orðið var við þessa sterku réttlætiskennd hjá þessum þingleiðtoga Sjálfstfl. í Nd. hef ég ákveðið að flytja till. um þessi efni við 3. umr. sem vonandi verður unnt að mæla fyrir síðar í umræðunni þar sem till. hefur enn ekki verið dreift og ég get því ekki í þessari stuttu ræðu minni farið yfir efni hennar. (Samgrh.: Hvaða till. er þetta?) Hæstv. samgrh. Það er till. á þskj. 394 sem hefur verið dreift í uppkasti, en það er ekki rétt eintak sem farið hefur á borð þm. að því að mér er tjáð. (KJóh: Því verður dreift eftir örstutta stund.) Mér er tjáð að því verði dreift eftir örstutta stund og þá vænti ég þess að hæstv. forseti gefi mér kost á að taka til máls á ný til að mæla fyrir þessari till. og flytja þau rök sem ég hef fyrir henni á þessum fundi. (Forseti: Ég spyr hv. 3. þm. Reykv. hvort hann sé ekki við því búinn að gera það nú þegar að mæla fyrir till. Hún verður tilbúin, er það ekki, eftir mjög stutta stund?) Mér er að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við þessum tilmælum hæstv. forseta Nd. (Forseti: Það er að nokkru leyti fyrir mín orð að tillgr. var breytt og þess vegna hefur orðið dálítil töf á því að búa till. þannig út að ég gæti samþykkt orðalag hennar sem forseti og ég veit ekki annað en að þessari till. verði breytt og henni dreift með örlítilli orðalagsbreytingu. Ég hef ekki lýst því enn að þessari till. hafi verið útbýtt, en ég vænti þess að hv. þm. geti talað fyrir sinni till. innan mjög stutts tíma þannig að það þurfi ekkert að breyta út af þingsköpum um það.)

Mér er að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við tilmælum hæstv. forseta Nd. til að flýta fyrir störfum þingsins á síðustu dögum þess áður en það fer í jólaleyfi. Það er till. sem birtist á þskj. 394 og er flutt af mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Till. gerir ráð fyrir að það komi inn nýr málsl. á eftir fyrri málsgr. 119. gr. skattalaganna, en 119. gr. skattalaganna hljóðar nú svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, svo sem nánar um ákvörðun tekna og eigna, störf skattstjóra, skattrannsóknastjóra, ríkisskattstjóra og ríkisskattanefndar. Ráðherra getur kveðið á í reglugerð um sérstakt bókhald framtalsskyldra aðila, þar á meðal birgðabókhald. Einnig getur hann kveðið á um form reikningsskila og geymslu bókhalds og annarra gagna er varða skattframtöl.“

Tillaga mín og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, 2. landsk. þm., er sú að á eftir fyrri málsgr. komi ný málsgr. er orðist svo:

„Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um takmörkun á heimildum til að telja risnu til rekstrarkostnaðar við ákvörðun á tekjuskattsstofni svo og verklagsreglur er tryggi að persónuleg eyðsla færist ekki á atvinnurekstur.“

Hér er um að ræða nokkra breytingu frá þeirri till. sem felld var í dag. Meginbreytingin er sú að í stað þess að í þeirri till. var talað um að ríkisskattstjóri ætti að setja reglur er hér talað um að fjmrh. skuli setja reglur. Þetta er gert til að koma til móts við stjórnarliðið sérstaklega. Ég hygg að þar hafi mönnum þótt óeðlilegt að þetta verkefni væri tekið úr höndum fjmrh. Eðlilegra væri að hann hefði það en ríkisskattstjóri. Það var þess vegna sem hér er gert ráð fyrir að það verði fjmrh. sem setji þessa reglugerð með nánari ákvörðun um takmörkun á heimildum til að telja risnu til rekstrarkostnaðar við ákvörðun á tekjuskattsstofni svo og verklagsreglur er tryggi að persónuleg eyðsla færist ekki á atvinnurekstur.

Einhver kann að segja: Það er óeðlilegt að setja þetta svona upp vegna þess að fjmrh. hefur almenna reglugerðarheimild. Þá er því til að svara að þó að fjmrh. hafi almenna reglugerðarheimild er svo kveðið á í skattalögum aftur og aftur að hann eigi einnig að setja sérreglur um einstaka liði. Þannig segir í 116. gr. skattalaganna:

„Ríkisskattstjóri í umboði fjármálaráðherra skal árlega gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögum þessum.“

Í 117. gr. er einnig um að ræða slíkar heimildir fyrir fjmrh. Í 119. gr. eru ákvæði eins og ég las upp áðan, herra forseti, þar sem m.a. segir að hann eigi að setja sérstakar reglur um bókhald framtalsskyldra aðila, þar á meðal birgðabókhald, og einnig getur hann ákveðið form reikningsskila og geymslu bókhalds- og annarra gagna er varða framtöl. Það eru full rök fyrir því að fjmrh. hafi auk hinnar almennu reglugerðarheimildar skattalaganna sérstakar heimildir til að setja reglugerðir um risnu og persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækja vegna þess að skattsvikaskýrslan sýnir með ótvíræðum hætti að þetta er eitt alvarlegasta vandamál skattkerfisins. Ríkisstjórn sem ekki vill taka á þessu vandamáli, ríkisstjórn sem ekki tekur mark á þessari skattskýrslu, ríkisstjórn sem hefur fjmrh. sem ekki lifir betur eftir yfirlýsingum sínum fyrir kosningar en raun ber vitni um, ríkisstjórn sem er með forsrh. sem hefur ekki beitt sér sérstaklega í þessu máli, ríkisstjórn sem er með þingleiðtoga eins og hv. þm. Pál Pétursson sem hefur ekki á neinn hátt tekið á máli af þessu tagi, slík ríkisstjórn er að segja við þjóðina: Svindlið á að halda áfram. Það er allt í lagi með kerfið. Það er fullkomið eins og það er.

Þeirri afstöðu, herra forseti, mótmæli ég harðlega.