17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta á málflutning hv. þm. Halldórs Blöndals áðan því að á honum mátti helst skilja að jafnvel þó hann væri á móti skattsvikum vildi hann ekkert láta gera í því. Hér væri eiginlega allt í stakasta lagi, lögin væru nógu góð, framkvæmdin væri eins góð og hægt væri að ætlast til. Engu að síður liggur fyrir skýrsla um stórkostleg skattsvik unnin á vegum fjmrn. Ég veit ekki hvort hv. þm. Halldór Blöndal heldur að þessi skýrsla og þessi störf hafi verið unnin af einhverjum aukvisum, hvort hann er að afneita þeim mönnum sem hafa verið að verki. Það er ekki Þröstur einn sem hefur unnið þessa skýrslu. Hér er Eyjólfur Sverrisson löggiltur endurskoðandi, Jónatan Þórmundsson prófessor, Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri og fyrrv. forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur sem hefur starfað sem ritari starfshópsins. En það er ekki nóg með það heldur hafa verið kvaddir til ráðuneytis margir aðrir mætir menn, Garðar Valdimarsson skattrannsóknastjóri, Ævar Ísberg vararíkisskattstjóri og enn fremur, til þess að gefa skýrslu fyrir nefndinni, Hallvarður Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóri ríkisins, Atli Hauksson löggiltur endurskoðandi, Gunnar Jóhannsson formaður ríkisskattanefndar, Gylfi Knudsen lögfræðingur, starfsmaður hjá ríkisskattanefnd, ólafur Nilsson löggiltur endurskoðandi, Stefán Svavarsson lektor, löggiltur endurskoðandi, Gestur Steinþórsson skattstjóri í Reykjavík, Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri, dr. Þorkell Helgason prófessor, dr. Guðmundur Guðmundsson tölfræðingur.

Er hv. þm. Halldór Blöndal að afneita öllum þessum hóp? Er hv. þm. að halda því fram að þeir vinni tóma markleysu? Ég held að það sé hörmulegt viðhorf sem kemur fram í málflutningi hv. þm. Halldórs Blöndals.

Alþingi getur ekki látið svona skýrslu fram hjá sér fara, það er ekki hægt að segja að hér séu einhverjir ýkju- og dellukarlar á ferðinni. Það kemur mér mjög á óvart að það atriði að takmarka heimildir til frádráttar á risnu á rekstrarreikningum fyrirtækja við ákvörðun á tekjuskattsstofni skuli ekki fá almennar undirtektir í þinginu vegna þess að það er ein af þeim ábendingum sem kemur skýrt fram í þessari skýrslu að einmitt það að menn blandi saman persónulegum útgjöldum og rekstrarútgjöldum sé ein tegund þeirra skattsvika sem mikið kveður að.

Menn skulu ekki halda að það sé eitthvert einsdæmi að menn setji reglur af þessu tagi. Víðast hvar eru einmitt reglur af þessu tagi í gildi, reglur sem takmarka heimildir fyrirtækja til að telja risnu til frádráttar á skattskýrslum sínum. Slíkar reglur eru t.d. í gildi í landi Reagans Bandaríkjaforseta sem ýmsir þm. Sjálfstfl. vitna gjarnan til sem fyrirmyndarlands og er það að mörgu leyti. Og hvað skyldi þá vera okkur að vanbúnaði að taka upp reglur af þessu tagi sem ekki einungis frændþjóðir okkar heldur líka ýmsar þær sem aðrir hafa mikla trú á hafa verið með í lögum hjá sér og hafa verið að strengja að undanförnu? Þetta er í rauninni svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að fara fram löng og mikil umræða um það.

En það er ákaflega hollt að þessi umræða um skattsvik skyldi fara fram hérna. Menn hljóta að velta því fyrir sér: Hvers vegna eru skattsvik? Ein aðalorsökin er vitaskuld sú að fólk upplifir skattkerfið eins og það er sem ranglátt. Það sér í kringum sig aðila sem komast upp með að borga lítinn sem engan skatt en leyfa sér ýmislegt í eyðslu og lifnaðarháttum. Þetta er m.a. það sem knýr skattsvikin áfram hjá okkur.

En freistingin hlýtur líka að vera mikil. Það eru taldir upp í skýrslunni sérstakir hópar, byggingarstarfsemi, persónuleg þjónustustarfsemi, iðnaður, verslun, veitinga- og hótelrekstur, eins og segir í skýrslunni, sem séu sérstakir áhættuhópar ef ég má nota það orð á þessum síðustu og verstu tímum að því er varðar skattsvik. Já, freistingin hlýtur að vera mikil hjá þessum hópum þegar í húfi er kannske 25% söluskattur og 50% skattur á tekjurnar sem menn hafa. Þetta er ein ástæða þess að nauðsynlegt er að taka til endurskoðunar þær skattprósentur sem menn eru með í skattstigunum jafnframt því sem menn einfalda frádráttarfrumskóginn.

Skattsvik eru orðin svo almenn á Íslandi að meira að segja ráðherrar kunna sögur af sjálfum sér um það þegar þeir hafa verið að biðja um að verk væru unnin að þeir væru spurðir hvort þeir vildu reikning eða ekki og tvær upphæðir til að velja á milli. Og þá er nokkuð langt gengið. Þetta er ærið alvarleg aðvörun til þingsins þegar viðhorfið í þjóðfélaginu er orðið með þeim hætti að það þykir koma til álita að bjóða jafnvel ráðherrum upp á að hjálpa til við skattsvik hjá þeim sem eru að vinna einhverja persónulega þjónustu fyrir þá.

En í þriðja lagi eru skattsvikin mikil vegna þess að eftirlitið er slappt, eftirlitið er lélegt, reglurnar sem menn eiga að vinna eftir eru losaralegar. Það verður ekki hönd á fest og skattstofurnar eru í vandræðum með málið. Einmitt vegna þessa ber nauðsyn til þess að setja verklagsreglur um það hvernig að eigi að fara, reglur um það m.a. hvert hámark leyfilegs frádráttar vegna risnu geti verið í sambandi við skattframtal.

Það heyrir svo til að vegna þess sem menn eru með ónýtt skattkerfi fáist sístækkandi gat á fjárlögunum, menn fórna í rauninni höndum við afgreiðslu fjárlaganna ár eftir ár og erlendu skuldirnar hlaðast upp því að þannig er gatið brúað.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þennan þátt málsins. En ég bar fram fsp. til hæstv. fjmrh. Forsrh. mætti alveg eins svara þeim. Ég sé í lappirnar á honum. (FrS: Af hverju lítur ekki hv. þm. upp?) Hæstv. forsrh. er svo aftursettur núna að það sér undir iljar honum. En ég get alveg eins borið þessa spurningu fyrir hæstv. forsrh. þó mér þyki heldur illt að hæstv. fjmrh. hafi ekki svarað þessu enn.

Það er svo að í sambandi við febrúarsamningana fóru bréf á milli ríkisstjórnar, Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands o.s.frv. sem voru grundvöllur þeirra samninga sem gerðir voru. Í þessu samkomulagi var tekið fram að þeir sem fengju lánafyrirgreiðslu, svokölluð greiðsluerfiðleikalán, ættu að eiga rétt á sérstökum húsnæðisafslætti upp á x kr. í y ár, talið frá byggingar- eða kauptíma, í stað vaxtafrádráttar ef þeir kysu. Jafnframt var í þessu bréfi tekið fram að frá og með árinu 1986 verði þeim sem kaupa eða byggja í fyrsta sinn veittur húsnæðisafsláttur, x kr. á ári í tíu ár miðað við núgildandi verðlag. Afsláttur þessi miðist við hvern einstakling og dragist frá sköttum og getur verið útborganlegur. Nú er árið 1986 brátt á enda. Við höfum verið að fjalla um skattamál. Ég sé að hæstv. fjmrh. er nú mættur. Ég ítreka fsp. mína sem ekki hefur enn komið svar við en hef jafnframt gefið forsrh. kost á að svara ef fjmrh. væri upptekinn. Mér finnst nauðsynlegt að það komi fram hvort ekki sé hugmyndin að standa við þetta fyrirheit sem ríkisstjórnin tók undir og skipaði sérstaka nefnd til að vinna úr.

Það er nefnilega nýbúið að semja núna og það eru ýmis fyrirheit í sambandi við samningana sem var gengið frá fyrir fáeinum dögum. M.a. báru verkalýðshreyfingin og vinnuveitendur sameiginlega fram ósk um að það yrði dregið úr erlendum lántökum frá því sem fyrirhugað hafði verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég sé ekki betur en í þeim plöggum sem eru að berast frá Ed. séu erlendar lántökur alveg óbreyttar frá því sem var í lánsfjárlögunum þegar þau voru lögð fram, frv. til lánsfjárlaga. Það eru þá ekki enn farin að birtast fyrirheitin um að draga úr erlendum lántökum frá þeirri tölu sem aðilar vinnumarkaðarins sögðu að gera ætti og töldu vera eitt af undirstöðuatriðum samninga sinna. Það er ekki vel gott ef hvert atriðið á fætur öðru, sem teljast undirstaða kjarasamninga, falla með þessum hætti. Það gefst væntanlega tækifæri til að fá skýringar á því hvers vegna eru ekki enn komnar fram tillögur ríkisstjórnarinnar um samdrátt í erlendum skuldum eins og var þó umtalað í sambandi við seinustu samninga.

En ekki síður vil ég ítreka þá fsp. sem ég hef hér gert varðandi húsnæðismálin og sérstakan húsnæðisfrádrátt. Það er kannske alveg sérstök ástæða að ætlast til svara í þeim efnum því að í gær fórum við í gegnum mjög fróðlega umræðu um einmitt þennan sama hóp, hóp þeirra sem byggðu á árunum 1980-1985 eða keyptu húsnæði, og hlustuðum hér á hinar furðulegustu yfirlýsingar hæstv. félmrh. í því máli þar sem komið hefur í ljós að hann kúvendir annan hvern dag og kennir öðrum um annað veifið með heldur ósmekklegum hætti. En ekki nóg með það heldur kórónaði hann ræðu sína með því að segja að nú ætlaðist hann til þess að menn færu að flýta sér að framkvæma þetta sem hefði dregist að reka á eftir frá því í septembermánuði 1983. Það er von að maðurinn vilji skyndilega fara að flýta sér. En það væri þá líklega ráð fyrir ríkisstjórnina líka, ef hún ætlar að efna heitið frá því í kjarasamningum í febrúar s.l., að hún færi að flýta sér með að koma með afstöðu sína í því máli.