17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki víst að við stjórnarandstæðingar þurfum að lengja þessa umræðu svo mjög úr þessu, en hitt er alveg borðleggjandi að ef hv. stjórnarþm. úr Framsfl. og Sjálfstfl. taka til við að draga bæði kaffibaunamálið og Hafskipsmálið inn í þessa umræðu mun hún lengjast að mun. Svo segir mér a.m.k. hugur um.

Hæstv. forsrh. kom með gamalkunnugt svar þegar hann var inntur eftir því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlaði að standa að framkvæmd tillagna skattsvikanefndarinnar, sem sé að það væri verið að vinna að málinu. Embættismenn, sem hæstv. forsrh. hefur mikla trú á eins og við vitum og við höfum fengið að heyra hann yfirlýsa á undanförnum vikum í fjölmiðlum, eru einhvers staðar úti í kerfinu að vinna að framgangi málsins. Þetta væri svo sem gott og blessað út af fyrir sig nema nú stendur þannig á, herra forseti, að þetta er síðasta frv. að breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem þessi hæstv. ríkisstjórn kemur væntanlega til með að standa að í sinni valdatíð eða það skulum við ætla. Hér er verið að ákveða álögur fyrir næsta ár. Ég geri ekki ráð fyrir að menn geri því skóna að þessi hæstv. ríkisstjórn lifi lengur en til vors í mesta lagi. Það væri þá andstætt guðs og manna lögum. Það fer því að verða hver síðastur fyrir hæstv. ríkisstjórn að sýna sitt rétta andlit í skattamálum og koma á þeim breytingum og þeim úrbótum sem hún hefur hugsað sér á kjörtímabilinu.

Það þurfti svo sem ekki þessa skýrslu til, þó hún sé gagnmerk, til að leiða í ljós ýmsa annmarka á gildandi skattalögum. Þeir hafa verið margræddir og marggagnrýndir, m. a. hér á hv. Alþingi undanfarin ár. Það verður ekki annað sagt en hæstv. ríkisstjórn sé nokkuð aftarlega á merinni með yfirlýsingar af því tagi sem hæstv. forsrh. gaf nú, nokkrum mánuðum áður en ríkisstjórnin fer frá, að hún sé að láta vinna að málunum, einhverjir embættismenn úti í bæ séu loksins teknir til við að vinna að úrbótum í skattamálum þegar ríkisstjórnin er um það bil að teygja upp tærnar - eða iljarnar.

Við erum hér, eins og ljóst er, að ganga frá skattalögum og ákvæðum um skattgreiðslumörk fyrir næsta ár. Hugsanlega væri hægt að breyta slíku í janúar áður en framtalsfrestir renna út, en það væri eðlilegast að taka til meðferðar þær tillögur sem til úrbóta ættu að horfa og afgreiða þær hér og nú. Í þessu sambandi, herra forseti, vil ég lítillega minna á, hafi það farið fram hjá einhverjum, að nýleg þjóðhagsspá gerir ráð fyrir miklu góðæri á næsta ári og upplýsir um enn meira góðæri á þessu. Þá bætist við enn einn þáttur, sem ég vil nefna til sögunnar til viðbótar því sem hv. 3. þm. Reykn. réttilega benti á að auki þrýsting eða eigum við að segja tilhneigingar, langanir til skattsvika hjá aðilum úti í þjóðfélaginu, en það er ósköp einfaldlega að afkoma manna er góð, afkoma einstaklinga og fyrirtækja verður væntanlega betri sem þessu góðæri nemur, a.m.k. fyrirtækjanna, að hve miklu leyti sem góðærið skilar sér lengra. Til viðbótar ónýtu skattakerfi, ónýtum skattalögum og lélegu eftirliti kemur því sú staðreynd að það er bullandi góðæri, a.m.k. hjá fjölmörgum fyrirtækjum í landinu, og væntanlega vex áhugi manna á því að nýta sér allar smugur, löglegar og ólöglegar sem finnast, til þess að borga ekki skatta. Þetta ættu menn líka að hafa í huga þegar gengið verður frá skattalögum. Afstaða hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihluta hér til tillagna sem fluttar hafa verið og horfa tvímælalaust til bóta er enn þá furðulegri í þessu ljósi.

Ég vil nefna einnig skattaeftirlit í þessu sambandi og vitna þar aftur til nefndrar skýrslu því að þar er að mínu viti ein mjög merk uppástunga þar sem er stafliður d á bls. 10 undir tölul. 1.3.3. Þar er lagt til að komið verði á fót sérstakri eftirlitssveit sérhæfðra skattrannsóknarmanna sem geri skyndikannanir á bókhaldi fyrirtækja og taki til rannsóknar flókin og erfið framtöl. Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið að við ættum að koma á slíkri skyndisveit. Þær tíðkast í mörgum nálægum löndum. Mér er t.d. tjáð að í Bretlandi sé sérstakt gengi, svipað og „græna gengið“ er í lestunum í Skandinavíu sem kemur fyrirvaralaust með einhverju millibili inn í lestirnar og gáir að því að allir hafi tilskilda farmiða. Gengi sem vinnur sjálfstætt er við lýði til að mynda í Bretlandi. Mér er jafnvel tjáð að það gangi svo langt í störfum sínum að það keyri um íbúðahverfi með skattaskrána á hnjánum og beri saman uppgefna afkomu einstaklinga við húsin og við bílana sem standa þar fyrir utan, beri einfaldlega saman: Samræmist nú íbúðarhús Jóns Jónssonar og bílafloti Jóns Jónssonar þeim tekjum sem hann hefur gefið upp í sinni skattaskýrslu undanfarin ár? Ef breska skattarannsóknargenginu þykir þarna vera ósamræmi, t.d. að Jón Jónsson, sem hefur verið tekjuskattslaus um árabil, býr í mörg hundruð fermetra einbýlishúsi og á svo og svo marga Rover-bíla eða Jagúara eða hvaða lúxusdrossíur það eru sem eignamenn helst flagga í hinu stóra Bretlandi, þá gerir skattagengið eitthvað í málinu. Það fer til Jóns Jónssonar og segir við hann: Heyrðu, herra minn, þetta stemmir ekki. Þú hefur verið algerlega tekjulaus maður samkvæmt skattaframtölum um árabil en býrð mjög ríkulega og gerir út mikinn bílaflota. Við viljum fá skýringar á hvernig þetta tvennt fer saman. Mér er sagt að slíkt gengi sé talið gera með sínum skyndikönnunum mun meira gagn en heilir herir eftirlitsmanna inni á skrifstofum sem nudda í gegnum skýrslurnar með þær einar fyrir framan sig. Þar er sem sagt borinn saman raunveruleikinn annars vegar og skattaframtölin hins vegar. Það er „nota bene“ einmitt þetta eftirlit sem almenningur hefur, sem almenningur sjálfur tekur að sér. Það er það sem stingur í augu almennings að fjöldamargir einstaklingar í þjóðfélaginu búa ríkulega og gera út myndarlegan bílaflota þó að skattaframtalið þeirra sé upp á núll ár eftir ár eftir ár og sumir fái jafnvel borgað út. Ég hefði því talið að þessi tillaga skattsvikanefndarinnar sé ein af hinum merkari, þ.e. að koma á fót slíku eftirliti, og ég er alveg sannfærður um að það væri til mikilla bóta. Það eru m.a. svona tillögur um úrbætur, sem þessi ágæta nefnd hefur hér gert, sem ég satt að segja undrast að hæstv. ríkisstjórn, búin að hafa þetta fyrir framan sig í átta mánuði og fimm mínútum betur miðað við dagsetningu skýrslunnar eins og henni var dreift hér á Alþingi, skuli ekki hafa unnist tími til að taka a.m.k. að einhverju leyti til greina og koma til framkvæmda tillögum nefndarinnar um úrbætur.

Herra forseti. Það er m.a. á grundvelli þessara tillagna sem við þm. Alþb. höfum tekið skattalögin til sérstakrar skoðunar og undir forustu formanns okkar, hv. 3. þm. Reykv., flutt brtt. um úrbætur.

En ég tel ekki ástæðu fyrir mitt leyti að lengja þessa umræðu mikið, herra forseti. Það kann vel að vera að hv. stjórnarþm. þurfi að ræða sérstök mál sem þeir nefndu í frammíköllum hver hjá öðrum, en það kemur þá fram síðar. Ég tel að þessi umræða hafi verið þörf. Það var ástæða til að vekja rækilega athygli á frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í skattamálum. Það var ástæða til að draga til sögunnar þessa skýrslu og minna á hana og minna á að hér er á ferðinni síðasta tækifæri hæstv. stjórnar til að gera eitthvað í málunum. Það er rétt að það verði skjalfest rækilega og undirstrikað í þingtíðindum hverjar viðtökur tillögur stjórnarandstæðinga til úrbóta hafa fengið. Það kemur væntanlega fram enn frekar í atkvæðagreiðslum á eftir hvernig þeir taka tillögum stjórnarandstæðinga um úrbætur á augljósum göllum í skattalögunum sem nánast allir sem um málin hafa fjallað hafa verið sammála um að stingi í augu.