17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er merkileg niðurstaða þessarar umræðu, svo ég haldi áfram með það sem hv. þm. Svavar Gestsson var að ræða áðan, að það hefur orðið hlutskipti Framsfl. hér í deildinni í kvöld að taka forustuna að aflokinni þessari skattsvikaumræðu, það hefur orðið hlutskipti Framsfl. innan ríkisstjórnarinnar að taka upp þessa umræðu. Það er hv. þm. Páll Pétursson sem hefur ítrekað að hann muni taka málið inn á borð hv. fjh.- og viðskn. og fylgja því eftir, fara í gegnum þau atriði sem menn hafa vakið athygli á úr skattsvikaskýrslunni ásamt skattstjórunum, og það var hæstv. forsrh. sem loksins eftir þriggja klukkustunda umræðu flutti þær upplýsingar frá ríkisstjórninni að menn hefðu eitthvað litið á þessa skýrslu. Hér hafa stjáklað fram og til baka um sali fulltrúar sjálfstæðismanna, fjmrh. og aðrir, og höfðu í engu sinnt því að svara þessu máli. Það er forsrh. sem kemur og upplýsir, og það er ekkert smáræði, að það er t.d. búið að búa til frv. í dómsmrn., aftur í einu framsóknarráðuneytinu, þar sem á að herða á skattamálum. Það er sem sé augljóst að Sjálfstfl. virðist hafa flækst fyrir því að framhald yrði á umræðum um skattsvik, á umræðum í framhaldi af skattsvikaskýrslunni. Það hefur komið upp í kvöld við þessa umræðu að það eru framsóknarmenn í gervi forsrh., dómsmrh. og formanns fjh.og viðskn. sem ætla að taka frumkvæði í þessum efnum. Það verður fróðlegt að vita hvað kemur út úr því á næstu vikum.