17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (1803)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð sem ég vil koma á framfæri við þessa umræðu. Þetta er gamall kunningi og það er út af fyrir sig ekki mikið um hann að segja fremur en undanfarin ár. Rökin eru yfirleitt þau sömu, að það hafi ekki unnist tími til að vinna að málinu. Við höfum fengið að heyra áður svipuð rök. Ríkisstjórninni sækist óskaplega seint og er eitthvað lin til verka. Það er ærið oft sem viðbáran hér er sú að ekki hafl unnist tími til að koma málunum áfram og þess vegna verði þetta eða hitt að danka áfram í því ófremdarástandi sem það kann að vera í.

Ég vil koma því á framfæri fyrir mitt leyti að ég tel þessa frestun ákaflega óæskilega. Ég er sannfærður um að heilsugæslukerfið eins og það er samkvæmt lögunum og hefur verið tekið upp og unnið eftir á ýmsum stöðum er mun betra, mun æskilegra. Ég vitna í því sambandi til þeirrar breytingar sem var gerð á Akureyri fyrir nokkru og nú er komin reynsla á og það ágæt reynsla. Ég tel að rétt sé að það komi fram í þessari umræðu að það sem ég hef heyrt af þeirri breytingu er gott eitt. Það ríkir held ég almenn ánægja meðal starfsfólksins á heilsugæslustöðinni á Akureyri, sem þjónar Eyjafjarðarsvæðinu, og ekki síður ánægja meðal viðskiptavina stöðvarinnar sem telja sig fá þar góða þjónustu og eru mjög sáttir við hvernig staðið var að þeim kerfisbreytingum. Þar var viðhafður sá háttur að þrátt fyrir hið sameiginlega heilsugæslukerfi geta viðskiptavinir stöðvarinnar valið sér sinn eigin lækni og haft fyrst og fremst samskipti við hann þó að það sé innan almenna kerfisins. Það tel ég vera hina réttu útfærslu á þessu heilsugæslukerfi.

Ég vil einnig fagna fyrir hönd Hafnarfjarðar og Kópavogs að þar hefur nú verið ákveðið að taka þetta kerfi heilsugæslu upp. Ég tel einmitt í framhaldi af því enn þá óæskilegra að Reykvíkingar og Garðbæingar skuli enn eitt ár þurfa að bíða eftir að þetta kerfl sé tekið upp hjá þeim. Það gefur auga leið að það er því óæskilegra sem sveitarfélögin verða færri sem búa við hið gamla kerfi og þar af leiðandi það misræmi sem er á starfrækslu þessara tveggja kerfa sem hér hefur verið vitnað til og varðar ekki síst form á greiðslum.

Ég vona, herra forseti, svo sannarlega að þetta verði í síðasta sinn sem þessi kunningi lætur sjá sig á Alþingi, frv. um frestun á þessari kerfisbreytingu og ég hvet hæstv. ráðh. til að nota vel þann tíma sem hann á eftir í ráðuneytinu, a. m. k. í tíð þessarar virðulegu ríkisstjórnar, til að undirbúa þessa kerfisbreytingu og flytja um hana frv. á Alþingi áður en þetta Alþingi fer heim. Það gefur auga leið, m.a. vegna undirbúnings fjárlagagerðar, að það er miklum mun æskilegra að lögin séu sett á fyrri hluta ársins þannig að tímann sem frá því líður og fram að setningu næstu fjárlaga sé hægt að nota til að undirbúa breytinguna. Það er eins og kunnugt er óþarfi að rifja upp fyrir hv. þingdeildarmönnum að ákveðin tilfærsla verður innan fjárlaga við þessa breytingu og er nauðsynlegt að nægur tími sé fyrir hendi til að undirbúa hana.

Ég sé ekki frekar en síðasti ræðumaður sérstaka ástæðu til að setja mig upp á móti þessu máli. Úr því að það er í þessu horfi hjá hæstv. ráðh. er ekki mikið við því að gera úr því sem komið er. Það er því kannske ekki sérstök ástæða til að setja sig á móti því, en ég mun í öllu falli ekki greiða þessari frestun atkvæði mitt.