17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. áðan, ég tel að hún hafi verið mikilvæg, og ég fagna þeirri niðurstöðu sem hæstv. ráðh. lýsti sig hafa komist að í þessu máli, sem sé þeirri að leggja fram frv. um skipulag heilbrigðismálanna þannig að innan árs búi allir landsmenn við eitt og samræmt almennt heilsugæslukerfi. Ég skildi yfirlýsingu hæstv. ráðh. þannig og hafi ég gert það rétt fagna ég því alveg sérstaklega.

Ég er þeirrar skoðunar að það sem hvað brýnast sé að gera í heilbrigðismálum á Íslandi sé að efla fyrsta stig heilbrigðisþjónustunnar, hina almennu heilsugæslu, og fyrirbyggjandi aðgerðir í framhaldi af því og með því móti, með því að forða því sem mest að vandamálin lendi upp á efri og dýrari stig í heilbrigðisþjónustunni, megi spara peninga. Það megi bæði bæta ástandið, auka heilbrigði og spara peninga. Einmitt í því efni tel ég að yfirfærsla yfir í heilsugæslukerfið sé mjög þýðingarmikil. Ég tel að hún sé þegar farin að skila árangri eins og t.d. á Eyjafjarðarsvæðinu sem ég tók dæmi af. Hv. 4. landsk. þm. vil ég til útskýringar upplýsa að auðvitað er Akureyri ekki dreifbýli í sjálfu sér heldur þéttbýli sem er fullkomlega eðlilegt að taka til samanburðar þegar rætt er um skipulag heilbrigðismála m.a. á höfuðborgarsvæðinu.

Við Íslendingar eigum orðið allmikið af sérmenntuðum heimilislæknum sem geta leyst af hólmi það blandaða kerfi almennra lækna og sérfræðinga á ýmsum sérsviðum sem í gamla númerakerfinu sinntu þessari þjónustu. Það er hin eðlilega þróun þessara mála að mínu viti að hinir sérmenntuðu heimilislæknar, sem eru að koma til starfa og hafa verið að koma til starfa á undanförnum árum, yfirtaki þessa almennu þjónustu eins og þeirra menntun stendur til og sinni þeim störfum innan samræmds kerfis heilsugæslustöðva. Ég held að það sé hin eina rétta uppbygging þessara mála og ég fagna því að hæstv. ráðh., ef ég hef skilið hann rétt, er fallinn frá þeim blandaða kokkteil sem hann virtist í upphafi embættisferils síns hafa verið að hugleiða.

Ég held að við eigum að horfa til þess ekki síst hvernig við getum sparað peninga í heilbrigðismálunum á sviði skipulagsmálanna, þ.e. með því að betrumbæta skipulag í heilbrigðisþjónustunni þannig að vandamálin séu sem allra mest leyst á fyrsta stigi heilsugæslunnar og því sé forðað að þau færist upp á önnur og dýrari stig svo að ekki sé nú talað um inn á stofnanir þar sem kostnaðurinn margfaldast ef málin lenda þangað.

Ég vona, herra forseti, að þessi umræða og yfirlýsing ráðherra hér m.a. hafi tryggt að að ári búi allir landsmenn við eitt samræmt kerfi heilsugæslustöðva.