17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

253. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Í framhaldi af orðum hv. þm. vildi ég segja að ég álít það út af fyrir sig ekki markmið að menn búi við samræmt heilsugæslukerfi heldur álít ég það markmið að menn búi við gott heilsugæslukerfi, þ.e. kerfi sem veitir góða þjónustu og ódýra þjónustu. Hvort það kerfi þýðir að á ákveðnum svæðum eru byggðar heilsugæslustöðvar og annars staðar hagi menn þessum hlutum öðruvísi vil ég fá tækifæri til að ræða og fá að sjá gögn um. Það er einmitt það sem ég talaði um áðan að á þeim árum sem t.d. eru liðin frá 1983 er ekki ólíklegt að ný viðhorf séu komin upp, nýjar aðstæður og kannske upplýsingar á grundvelli reynslu sem þegar hefur fengist af heilsugæslukerfinu sem gerir fullkomlega eðlilegt að menn skoði þessa hluti. Ég held að það sé einmitt mjög nauðsynlegt í sambandi við löggjöfina alla að Alþingi láti ekki þar við sitja að setja lögin heldur fylgist mjög grannt með framkvæmd þeirra og hvernig þau ná tilgangi sínum. Því verð ég að segja t.d. að það er mjög þinglegt verkefni fyrir heilbrigðis- og trygginganefndir þingsins að skoða framkvæmd laganna frá 1983, athuga hvernig þau hafa náð tilgangi sínum, kalla til vitnis vitnisbæra aðila með hliðsjón af því að meta hvort það eigi að brúka sömu aðferðir hér þar sem örlögin hafa ráðið því að kerfið var ekki tekið upp á þessu svæði strax árið 1983. Þannig getur þingið sinnt eftirlitshlutverki sínu, þannig geta heilbrigðisnefndir fengið tækifæri til að hittast og þannig er hægt að tryggja að menn leiti á bærilega öruggan hátt að sem bestri lausn fyrir þau svæði sem talað er um í þessu þingmáli.