17.12.1986
Neðri deild: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

251. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er þriðja árvissa frv. sem flutt er um breytingu á almannatryggingalögunum. Sams konar frv. hefur verið árlega flutt frá árinu 1975, en sveitarfélögum var gert skylt að taka á árinu 1976 meiri þátt í kostnaði sjúkratrygginga en verið hafði. Upphæðin miðaðist í fyrstu við 1% álag á gjaldstofn útsvara. Ástæðan fyrir aukinni hlutdeild sveitarfélaga byggðist fyrst og fremst á því að auka þyrfti aðhald í sjúkrahúsarekstri á þeirra vegum, en gjaldið rennur til þess reksturs.

Á árinu 1978 var ákveðið að hækka gjaldið í 2% af gjaldstofni álagðra útsvara og á árinu 1979 1,5% af ákveðnum lágmarkstekjum og 2% af því sem umfram var. Sú skipan hélst til 1982 er ákveðið var að innheimta eingöngu gjald af þeim sem höfðu ákveðnar lágmarkstekjur og hefur svo verið síðan, aðeins þurft að breyta upphæð gjaldstofns í samræmi við launaþróun milli ára.

Þetta frv. er flutt í samræmi við það og því leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Það á við þetta frv. eins og hin tvö fyrri, sem ég mælti fyrir áðan, að þetta er einnig bundið við áramót.