22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

9. mál, lágmarkslaun

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um lágmarkslaun sem er að finna á þskj. 9. Þetta frv. var áður flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt lítið breytt. 1. gr. frv. hljóðar upp á að óheimilt sé að greiða lægri grunnlaun fyrir 40 dagvinnustundir á viku en sem nemur 30 þús. kr. á mánuði miðað við framfærsluvísitölu 1. sept. 1986. Kveðið er á um að þessi lágmarkslaun breytist á þriggja mánaða fresti í samræmi við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar.

Eins og fram kemur í grg. með frv., með leyfi forseta, eru lægstu grunnlaun fyrir 40 stunda vinnuviku nú um 19 þús. kr. á mánuði samkvæmt gildandi kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Framfærslukostnaður vísitölufjölskyldu, sem felur hjón og 1,66 börn, er hins vegar nú í byrjun okt. 1986 um 87 þús. kr. á mánuði. Hvað sem líður yfirborgunum af margvíslegu tagi liggur ljóst fyrir að fjölmargir launþegar, þar á meðal stærsti hluti kvenna á vinnumarkaði, hafa innan við 30 þús. kr. á mánuði í grunnlaun og geta því ekki framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu.

Ómæld vinna, sem óhjákvæmilega bitnar á heilsufari og fjölskyldum viðkomandi, er þess vegna eina leið fjölmargra til að láta enda ná saman, þ.e. þeirra sem ekki kikna undan byrðinni og leita á náðir opinberra stofnana með afkomu sína. Slíkt ástand er ekki með nokkru móti verjandi í íslensku velferðarþjóðfélagi og því er þetta frv. nú endurflutt.

Í frv. er gengið út frá því að það sé siðferðilegur réttur hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu. Markmið þess er að koma í veg fyrir að fólk beri minna úr býtum fyrir fulla vinnu en sem nægir til að sjá sér farborða. Frv. tekur aðeins til þeirra sem hafa laun undir 30 þús. kr. á mánuði en hreyfir ekki við launum sem hærri eru.

Samkvæmt lauslegri áætlun Þjóðhagsstofnunar gæti frv. náð til um 35 þús. launþega og haft í för með sér allt að fjórðungshækkun á dagvinnulaunum þessa hóps að meðaltali. Hins vegar er áætlað að heildarlaunakostnaður atvinnurekstrar í landinu hækki ekki um meira en sem nemur 3-5% miðað við heilt ár. Hækkun lægstu launa er því hvorki dýr né líkleg til að hleypa verðbólgunni á skrið að nýju.

Frv. er í raun neyðarráðstöfun þar sem það á að vera hlutverk aðila vinnumarkaðarins en ekki Alþingis að sjá til þess að full dagvinnulaun nægi einstaklingi til framfærslu. Þegar aðilar vinnumarkaðarins bregðast þessu hlutverki sínu getur Alþingi hins vegar ekki setið aðgerðarlaust hjá. Einnig er vitað að sú endurskoðun á launakerfi vinnumarkaðarins sem nú er unnið að mun í engu breyta grundvallaratriðum þess, allra síst hvað konur varðar. Jafnframt er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins geta ekki eða vilja ekki höggva á þann hnút sem jöfn prósentuhækkun allra launa, hárra sem lágra, hefur skapað í íslenskum launamálum. Því er hér lagt til að Alþingi hækki einhliða lægstu launin í landinu og tryggi þannig þann lágmarksrétt hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu.

Eins og fram kemur í þessari grg. er frv. flutt í framhaldi af þeim kjarasamningum sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í febrúar s.l., kjarasamningum sem við Kvennalistakonur gagnrýndum mjög á Alþingi m.a. fyrir það að taka ekki á lægstu laununum, og það er flutt í framhaldi af þeim upplýsingum sem komu fram á vordögum um fátækt á Íslandi. Þetta hvort tveggja varð til þess að við ákváðum undir lok síðasta þings að leggja fram frv. sem er í megindráttum samhljóða því sem ég mæli nú fyrir.

Við höfum velt því fyrir okkur í raun allt frá því að núverandi ríkisstjórn afnam vísitölutryggingu launa með brbl. í maí 1983 hvort slíkt frv. gæti átt rétt á sér. Fram að síðustu kjarasamningum höfðum við fallið frá því að leggja slíkt frv. fram á þeim forsendum í fyrsta lagi að við vildum ekki festa með lögum einhvern botn á launagreiðslur í landinu sem lægst launaða fólkið ætti á hættu að sitja eftir á á meðan aðrir fengju launahækkanir, í öðru lagi vegna þess að við teljum það vera hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um laun fyrir unna vinnu en ekki Alþingis og í þriðja lagi vegna þess að ákvarðanir um laun hinna lægst launuðu, þar með talið flestra útivinnandi kvenna, væru betur komnar í þeirra eigin höndum en í höndum Alþingis að óbreyttu.

Í síðustu kjarasamningum var hins vegar ljóst að verkalýðshreyfingin getur ekki eða vill ekki gæta hagsmuna þeirra sem lægstu launin hafa. Tregðulögmál launastigans og prósentuhækkananna virðist koma í veg fyrir að hún sinni því hlutverki sínu að gæta hagsmuna þeirra sem lægst launin hafa. Síðustu kjarasamningar eða þjóðarsáttin, eins og höfundar þeirra nefna þá gjarnan, eru glöggt dæmi um þetta. Þar var samið um rúmlega 19 þús. kr. lágmarkslaun á meðan framfærslukostnaður einstaklings var eða er í kringum 30 þús. kr. og í hönd fóru hagsældartímar í íslensku þjóðfélagi. Verkalýðshreyfing sem þannig semur gætir tæplega hagsmuna þeirra sem minnst mega sín á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna er sú röksemd fallin brott að kjörum manna skuli vera stefnt í hættu með frammígripi af hálfu Alþingis.

Þegar þar við bætist að fram koma upplýsingar um að 8-24% fjölskyldna á Íslandi búi við afkomu undir fátæktarmörkum er ljóst að Alþingi getur ekki setið aðgerðarlaust hjá heldur ber því siðferðileg skylda til að grípa í taumana og tryggja að allir landsmenn hafi fyrir brýnustu nauðsynjum með launum fyrir fulla vinnu. Þess vegna er þetta frv. nú endurflutt.

Það er rétt að benda á að lög um lágmarkslaun eru fyrir hendi sums staðar í nágrannalöndum okkar og eru því ekkert einsdæmi. Í Bandaríkjunum munu vera í gildi lög um lágmarkstímakaup og í Frakklandi mun því vera þannig háttað að lágmarkslaun eru bundin með lögum sem ákveðið hlutfall af þjóðarframleiðslu. Lög um lágmarkslaun eru ein af fáum leiðum sem löggjafanum eru opnar til að tryggja Lágmarksrétt þegnanna á vinnumarkaðnum og hefur sú leið verið farin í a.m.k. þeim tveimur löndum sem ég hef hér nefnt.

Hvað víðtækari efnahagsáhrif þessa frv. varðar mun það ekki valda miklum breytingum né hafa mikla þenslu í för með sér þar sem um er að ræða kjarabætur til þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu. Gera má ráð fyrir að þeim verði frekar eytt í nauðsynjar eins og t.d. búvörur en í þensluskapandi lúxusvörur. Samkvæmt lauslegum útreikningum Þjóðhagsstofnunar má áætla að frv. nái til um 35 þús. launþega og að meðaltalskauphækkun þessa hóps verði í kringum 25%. Þetta mun þýða um 200 millj. kr. á mánuði í atvinnutekjum eða 2.5 milljarða á ári. Heildaratvinnutekjur í landinu eru nú um 65 milljarðar á ári þannig að frv. hefur í för með sér eins og ég sagði áður, aðeins um 3-5% aukningu á launakostnaði atvinnurekstrarins miðað við heilt ár og mun því eitt og sér ekki verða til þess að hleypa verðbólgunni á skrið á nýjan leik.

Verði þetta frv. að lögum hefur löggjafinn lagt ákveðinn grunn sem aðilar vinnumarkaðarins geta byggt næstu samninga sína á og því er það lagt í hendur þeirra hvort þeir hleypa verðbólgunni á skrið með sambærilegum prósentuhækkunum upp launastigann eða hvort þeir virða vilja löggjafans og semja um almennar launahækkanir óháð þeim kjarabótum sem þetta frv. færir þeim lægst launuðu. Í því efni mun reyna á aðila vinnumarkaðarins og er nauðsynlegt að stjórnvöld veiti þeim það aðhald sem á þeirra færi er þ.e. með aðhald í peningamálum og stöðugu gengi.

Ég vona að hv. þm, sé ljóst að það kostar ekki mikið í peningum að hækka lægstu launin í landinu. Kostnaðurinn við slíkt er ekki þröskuldurinn. Þröskuldurinn hefur hingað til verið sá að ef þeir lægst launuðu eru hækkaðir um nokkrar krónur fylgir öll strollan á eftir og allir sem aðeins meira bera úr býtum vilja líka fá hækkun og ekki bara jafnmargar krónur og þeir lægst launuðu heldur hlutfallslega og því fleiri krónurnar. Verkalýðshreyfingin ræður ekki við þennan vanda eins og málin standa nú og því er með þessu frv. lagt til að Alþingi höggvi a hnútinn með því að lögfesta lágmarkslaun sem nægja til einstaklingsframfærslu án þess að hrófla á nokkurn hátt við launum sem hærri eru en 30 þús. kr. á mánuði. Það er forsenda þessa frv. og forsenda þess að það fái staðist á núverandi grunni efnahagslífsins að það snerti ekki við launum fyrir ofan 30 þús. kr. á mánuði.

En þetta frv. hefur fleiri forsendur. Það hefur einnig þá forsendu að siðferðilega sé óverjandi að fólk liði skort í íslensku nútímaþjóðfélagi og það ástand. sem á vordögum var greint frá á ráðstefnu íslenskra félagsmálastjóra um fátækt á Ísland. sé ekki sæmandi sjöttu ríkustu þjóð heims. Það byggir einnig á þeirri forsendu að atvinnurekstur sem ekki getur borgað laun sem nægja til einstaklingsframfærslu eigi tæplega rétt á sér. Það bendir jafnframt á að aðstæður í íslensku efnahagslífi eru óvenjugóðar um þessar mundir og því ekki hægt að afsaka lág laun með almennum efnahagsörðugleikum eins og alsiða er hér á landi. Það bendir einnig á að það geti verið dýrt fyrir atvinnureksturinn að borga lág laun og það er án nokkurs vafa rándýrt fyrir þjóðfélagið að brjóta fólk niður, en það er það sem gerist í kjölfar svo lágra launa að menn geta ekki lifað af þeim.

Peningahlið þessara mála er þó e.t.v. léttvæg miðað við hvílíkt siðleysi það er að bjóða mönnum lægri laun fyrir fulla vinnu en sem nægir þeim til framfærslu.

Af öllum þessum ástæðum er þetta frv. flutt og að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.