18.12.1986
Efri deild: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um breytingu á skattalögum sem miða að því markmiði að efna það stefnumark fjárlagafrv. að tekjuskattur lækki um 300 millj. kr. Þessi lækkun á tekjuskatti, um 300 millj. kr., hlýtur auðvitað að skoðast í ljósi þess að ríkissjóður tekur með valdboði af tekjustofni sveitarfélaga nokkurn veginn sömu upphæð, 300 millj. kr., með skerðingu á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þarna er því um skattaskipti að ræða. Fjmrh. tekur 300 millj. af sveitarfélögunum og síðan verða þá sveitarfélögin að útvega sér þessar 300 millj . með hækkunum á öðrum sköttum. Þess sjást nú greinileg merki að sveitarfélögin eru í óðaönn að afla sér þessara tekna. Fasteignaskattar eru víða ákveðnir nokkuð ríflega og hætt við því að útsvarsprósentur séu í hámarki vegna þess að sveitarfélögin eru að útvega sér þessar 300 millj. kr. sem ríkið tekur frá sveitarfélögunum jafnhliða því sem það býður upp á 300 millj. kr. skattalækkun sem á að heita skrautfjöður í hatti hæstv. fjmrh.

Þessi skattalækkun verður líka skoðuð í öðru ljósi. Hún er að sjálfsögðu skoðuð í því ljósi að fjmrh. tók meiri skatt á liðnu skattári, þ.e. við álagningu skatta í sumar, en ráð var fyrir gert. Hann hækkaði skatta um 600 millj. kr. umfram það sem ráð var fyrir gert með því að skattvísitala var verulega miklu lægri en efni stóðu til og samsvaraði tekjubreytingum milli ára og þessi skattahækkun sem átti sér stað á því ári sem er að líða, upp á 600 millj. kr., stendur að sjálfsögðu áfram. Hún er komin inn í kerfið og meðan henni er ekki beinlínis skilað til baka stendur hún áfram, þannig að þegar fjmrh. býður upp á 300 millj. kr. skattalækkun er hann í raun og veru bara að skila helmingnum af því sem hann tók í sumar. Þannig eru margar hliðar á þessu máli og auðvitað er alveg ljóst að það er ekkert annað en vondur brandari að verið sé að lækka skatta með þessum ákvörðunum.

Um tekjuskattsmálin að öðru leyti vil ég segja það eitt að auðvitað er það skatturinn á fyrirtækin, sérstaklega félagaskatturinn, sem er veiki punkturinn í skattakerfi landsmanna. Hin fjöldamörgu ívilnunarákvæði sem þar er að finna í þágu fyrirtækjanna skerða tekjur ríkissjóðs um upphæð sem sennilega er einhvers staðar á milli 1000 og 1500 millj. kr. Auðvitað er það stóra verkefnið, eins og við Alþýðubandalagsmenn höfum lagt þunga áherslu á mörg undanfarin ár, að ryðja til í þessum frádráttafrumskógi og afla ríkissjóði verulega aukinna tekna með því að láta fyrirtækin í landinu greiða eðlilegan hluta sinn af sameiginlegum byrðum landsmanna. Ef þetta væri gert skapaðist vissulega svigrúm til að betrumbæta skattakerfið að öðru leyti. Þá fengjust hugsanlega tekjur sem hægt væri að nota til að framkvæma það stefnumál sem ríkisstjórnin hefur viljað beita sér fyrir en hefur ekki staðið við, þ.e. að hækka skattfrelsismörk mjög verulega, afnema tekjuskatt af almennum launatekjum. Það er mjög álitlegt stefnumark. Eðlilegast væri auðvitað að skattfrelsismörkin yrðu hækkuð mjög verulega en eins getur auðvitað komið sterklega til greina að hækka líka barnabætur mjög verulega eða gera hina miklu uppstokkun á skattakerfinu sem Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasambandið voru að óska eftir með því að sameina útsvar og tekjuskatt.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um stefnumótun í skattamálum. Það gefst tækifæri síðar til að ræða þessi mál. Ég hef látið þessi orð falla fyrst og fremst til að minna á að þessi svokallaða skattalækkun ríkisstjórnarinnar upp á 300 millj., sem auðvitað er engin skattalækkun í eðli sínu, er um leið óttalegur „tittlingaskítur“ miðað við þau stóru viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir í tekjuskattskerfinu og ég hef nú nefnt.