22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

9. mál, lágmarkslaun

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það var nú svo að við meðferð þessa máls i nefnd í fyrra fjallaði hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds um þetta frv. af okkar hálfu og hugðist fjalla um það við þessa umræðu, en hann er fjarverandi og því kem ég hér inn með örstutt innlegg varðandi þetta mál sem því miður er ekki hreyft að tilefnislausu.

Ég held að það sé misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykv. að þetta frv. sé ekki flutt í fullri alvöru eins og mér skildist á niðurlagsorðum hans. Ég held einmitt að alvara þess máls sem þarna er hreyft við, á hvern hátt sem á með það að fara, sé slík að það sé ekki nema eðlilegt að svona hugmyndir komi fram. Þær koma m.a.s. fram frá Alþfl., ég vil benda á það, af því að hv. 8. þm. Reykv. er nú kominn í Alþfl. en virtist ekki muna eftir því svona í lok ræðu sinnar þegar hann var að tala um vinnustaðasamningana sem sá flokkur var ekki sérlega hrifinn af á sínum tíma. Einmitt menn úr verkalýðsforustu Alþfl., menn eins og hv. þm. Karvel Pálmason, hafa lýst því yfir að það væri líklega þrautalendingin að fara lögbindingarleiðina varðandi lágmarkslaunin. En þetta jafnar sig allt saman þegar það fer að hrærast saman inni í þessum nýja víðfeðma og stóra flokki.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að málið er vandmeðfarið. Það dregur enginn í efa. Lögbinding af þessu tagi er auðvitað neyðarúrræði eins og í raun og veru öll afskipti löggjafans af samningum sem eiga að fara fram á milli aðilá vinnumarkaðarins. Ég bendi þó á að mörg dæmi eru um að þau afskipti hafi verið af hinu góða. Ég man hins vegar að það var hrópað mjög niður á sínum tíma þegar samið var um ákveðin félagsleg réttindi í tengslum við kjarasamninga og menn slógu nokkuð af almennum kaupkröfum í sambandi við það.

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að hin ýmsu félagslegu réttindi séu það mikils virði, m.a. þau sem fengust á þennan hátt, að menn þurfi svo sannarlega ekki síður að líta til þeirra en til kauptaxtans sjálfs, enda ekki minni þáttur af hinum raunverulegu kjörum fólks í landinu en sjálft kaupið. Þar koma fjölmörg atriði inn í og í raun og veru hefðum við mátt gera miklu betur í ýmsum félagslegum réttindamálum. Eitt þeirra er m.a. á dagskrá á eftir, flutt af sama hv. þm., og mun verða komið að því síðar.

Þetta frv. minnir mig reyndar á annað frv. - það hét að vísu öðru nafni - sem var flutt fyrir löngu hér í hv. deild og var mikið rætt á sínum tíma, en það var frv. um hámarkslaun. Fyrsti flm. þess var Stefán Jónsson, þáverandi hv. þm., og hann byggði þetta frv. sitt um hámarkslaun á gömlu hlutaskiptunum í fiskveiðunum þar sem enginn ætti að fá meira en tvöfaldan hlut. Býsna góð rökfræði, en á þetta mál var ekki mikið hlustað hér eða mjög tekið undir það. M.a. var bent á það, á svipaðan hátt og áðan var gert varðandi lágmarkslaunin, að það yrði vandmeðfarið í framkvæmd.

Kannske er enn meiri ástæða til að flytja frv. af þessu tagi nú en var í vor í kjölfar kjarasamninganna vegna þess góðæris sem hefur hellst yfir ríkisstjórnina og hún veit greinilega ekkert hvað hún á við að gera annað en það þó helst að því skuli ekki skilað til þeirra sem helst þurfa á því að halda. Það er alveg ljóst að það hefur henni ekki hugkvæmst: Við hljótum hins vegar að ætlast til þess að aðilar vinnumarkaðarins taki einmitt mið af þessu, verkalýðshreyfingin fyrst og fremst, og nýti þetta óumdeilanlega góðæri til að hyggja að því hvers hlutur á að vera efstur í næstu kjarasamningum, þeirra sem hafa lágu launin og þeirra sem hafa kauptaxtana eina til að styðjast við. Ég held að hér sé hreyft einu þýðingarmesta málinu sem í dag brennur í þjóðfélaginu, þ.e. þeim mikla launamismun sem viðgengst. Óneitanlega er það rétt, eins og reyndar hv. flm. kom inn á, að það er neyðarúrræði að flytja um það frv., að þetta skuli ákveðið með lögum, að aðilar vinnumarkaðarins skuli ekki hafa séð sóma sinn, vil ég segja, í því að ganga þannig frá málum að frv. af þessu fagi væri óþarft með öllu.

Hitt er svo annað, og það þekki ég af eigin reynd frá gömlum tíma í verkalýðshreyfingunni, og veit að það hefur sjálfsagt lítið breyst, að það stendur yfirleitt ekki á vinnuveitendum að hækka laun og það ríflega til fámennra hálaunaðra hópa, en þegar kemur að hinum breiða fjölda komum við að ákveðnum múrvegg hjá þessum sömu vinnuveitendum. Ég hef ekki trú á öðru en að hv. þm. Karl Steinar Guðnason geti staðfest að þar, þrátt fyrir þær upplýsingar sem komu fram um heildarkostnað af launahækkun til þessa hóps sérstaklega, sé einmitt sá múrveggur sem þessir samningar stranda á æ ofan í æ, að hinn breiði fjöldi hinna lægstlaunuðu bæði í þjónustugreinunum og grunngreinunum fær ekki leiðréttingu en atvinnurekendur eru tilbúnir, ýmist beint í kjarasamningum eða þá með yfirborgunum eftir á, að hækka tiltölulega fámenna hópa sem eru með há laun.

Við höfum verið, eins og hv. 8. þm. Reykv. og hv. flm. komu inn á áðan, að skyggnast í niðurstöður kjararannsóknarnefndar sem segja okkur kannske ekki allan sannleika í þessum efnum. En þær segja okkur þó hvílíkur gífurlegur munur er á því fólki sem annars vegar er á kauptöxtunum eintómum og verður að láta sér það nægja einvörðungu - eða bæta sér það upp með mikilli yfirvinnu eða með óeðlilegum þrældómi, eins og bónusþrældómurinn í frystihúsunum er gleggst dæmi um, þar sem kauptaxtarnir eru komnir svo gjörsamlega úr sambandi að bónusinn ofan á hinn raunverulega kauptaxta getur verið 120 eða 130%, svo gáfulegt sem það er, og mætti gjarnan huga að því, með auðvitað óheyrilegu erfiði þar á bak við hjá viðkomandi - og hins vegar þeim sem eru yfirborgaðir eða hafa möguleika til þess að drýgja tekjur sínar eða koma þeim fyrir á einhvern annan hátt. Ég held að þessi könnun hljóti að vera góð viðspyrna fyrir verkalýðshreyfinguna í komandi kjarasamningum til þess að hækka hina lágu kauptaxta, lægstu kauptaxtana sem um er að ræða.

Við heyrum það þessa dagana að ráðstöfunartekjur heimilanna hafi aukist svo og svo mikið. Það er eitt af því sem haft er hvað allra hæst um. Ég efast ekki um að þessar tölur séu réttar vegna þess að til þess að fólk geti bjargast hefur það farið út í enn meiri yfirvinnu ef þess hefur verið kostur og konur hafa í enn ríkara mæli en áður farið út á vinnumarkaðinn til þess hreinlega að bjarga fjárhag sinna heimila. Og þá fá menn auðvitað út hærri ráðstöfunartekjur heimilanna, eins og það er svo fallega orðað, og fá út að ástandið hljóti að vera bærilega gott úr því að þær hafi hækkað svo og svo mikið.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð hér. Ég held að frv. hljóti að fá vandlega athugun í nefnd. Ég held að kjarasamningarnir sem nú verða gerðir hljóti svo að skera úr um nauðsyn þess að lögbinda ákvæði af þessu tagi. Við skulum vona í lengstu lög að þeir verði með þeim hætti fyrir þá lægst launuðu að mönnum detti yfirleitt ekki í hug að slíka lagasetningu þurfi eins og hér er lagt til.