18.12.1986
Efri deild: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

252. mál, fangelsi og vinnuhæli

Landbúnaðarráðherra(Jón Helgason):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli. Efni þessa frv. er tvíþætt: Í fyrsta lagi það að fangaverðir megi hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun og er það í samræmi við ákvæði frv. sem var rætt í gær um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og afgreitt með breytingu sem náði til fangavarða. Hins vegar er það að fangaverðir eigi rétt á bótum fyrir meiðsli og tjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. Um það er að ræða að inn í þessi lög komi ákvæði sem veiti fangavörðum sambærilegan rétt við það sem lögreglumenn hafa nú og er í lögum um þá.

Þar sem fjh.- og viðskn. hefur þegar fjallað um efni þessa frv. í öðru frv., eins og ég sagði, tel ég eðlilegt að hún fjalli einnig um þetta frv. þó að öðru leyti heyri þessi lög undir málefni allshn. og að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.