22.10.1986
Efri deild: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

9. mál, lágmarkslaun

Haraldur Ólafsson:

Hæstvirtur forseti. Ég held að allir hér hljóti að vera sammála um að andi þessa frv. er þess eðlis að rétt og skylt sé að samþykkja það. Hins vegar gætu verið fjölmörg ljón á veginum þegar ætti að hrinda þessu í framkvæmd.

Eins og hv. flm. lét getið í framsöguræðu er hér raunverulega um neyðarúrræði að ræða. Það er viðurkennt að aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki náð að koma á mannsæmandi töxtum fyrir þá sem lág laun hafa í þessu landi. Það er hörmulegt til þess að vita að verkalýðsfélög og vinnuveitendur skuli ekki fyrir löngu hafa leyst þetta mál á þann hátt að viðunandi sé. Ég held að það hlyti að vera mikill styrkur fyrir allt vinnandi fólk í landinu að viljayfirlýsing Alþingis lægi fyrir um að viðurkennt sé að 30 til 35 þús. kr. mánaðarlaun fyrir dagvinnu séu það lágmark sem unnt er að komast af með. Hvort þar með er unnt að samþykkja þetta frv. óbreytt er önnur saga. Það hefði kannske verið réttara að bera þetta fram í ályktunarformi þannig að um ákveðna viljayfirlýsingu væri að ræða en ekki beinlínis löggjöf sem þegar í stað þyrfti að fara að taka tillit til í tengslum við kjarasamningana sem eru að fara af stað.

En þessa staðreynd hljótum við að hafa í huga og um þetta hljóta allir að vera sammála að lægstu taxtar hér á landi eru langt frá því að vera með þeim hætti að mannsæmandi sé. Ég vil ekki síst undirstrika það sem hv. flm. sagði um þjóðhagsleg, félagsleg og sálfræðileg áhrif þess arna. Það mætti segja mér að sá kostnaður sem ríkið bæri af lágum launum væri miklu meiri en næmi þeim kostnaði sem væri af hærri launum til ákveðinna hópa.

Við heyrðum það í hádegisútvarpinu hve stóraukist hefur sá fjöldi sem á einhvern hátt nýtur félagslegrar aðstoðar í Reykjavíkurborg. Ég er ekki að segja að allt það sé tilkomið vegna lágra launa, en ég er ekki í nokkrum vafa um að mjög margt af því má rekja til þeirra launataxta sem eru í gildi.

Kannske er það annað sem ætti einnig að hafa í huga. Það er hve gífurlegur frumskógur allt launakerfið er orðið. Það er nánast ekki nema fyrir sérfróða menn og varla fyrir þá og varla fyrir starfsmenn verkalýðsfélaga að botna í þeim gífurlegu ílækjum sem allt launakerfið er í.

Niðurstöður kjararannsóknar þeirrar sem kjararannsóknarnefnd stóð fyrir og er að byrja að kynna benda til að nú sé svo komið að verulegur hluti af launum í landinu sé greiddur fyrir yfirvinnu, aukavinnu af ýmsu tagi, bónus, fríðindi, eða fyrir það sem kunningi minn orðaði svo fyrir nokkrum árum: Það er stór hluti af laununum greiddur fyrir það sem fólk vinnur ekki í stað þess að greiða því vel fyrir það sem það vinnur. Það er alltaf verið að finna einhverjar mínútur hér og mínútur þar til þess að borga fyrir, einfaldlega til þess að launin séu ekki svo skammarleg sem lægstu taxtarnir bera vitni um.

Það er einnig ástæða til þess að velta örlítið fyrir sér spurningu sem hv. síðasti ræðumaður varpaði fram og reyndar bæði hv. 8. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Austurl. Á ríkið að blanda sér í kjarasamninga? Nú er ríkið auðvitað alltaf að blanda sér í kjarasamninga. Það eru engir kjarasamningar gerðir í landinu án þess að ríkið komi þar á einn eða annan hátt við sögu. Ég tel það ekkert fráleitt að ríkið setji ákveðnar kröfur um t.d. lágmarkslaun eða a.m.k. viljayfirlýsingu um það efni. Það hlýtur að vera að ríkisvaldið láti sig nokkru skipta, eða a.m.k. ætti það að láta sig nokkru skipta kjör fólksins í landinu, og þá eru launamálin ekki minnsti liðurinn.

Eins og ég sagði í upphafi er það hins vegar spurning hvort unnt er að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir, hvort þá eru ekki settar of þröngar skorður, hvort ekki verður farið að einblína á þetta sem hámarkslaun t.d. fyrir ákveðna hópa og hvort komið verður í veg fyrir þá prósentuhækkun yfir alla línuna, eins og það er kallað, sem oft og tíðum hefur verið niðurstaða kjarasamninga. Það sem ég held að hefði átt að gera er að samþykkja ályktun um þessi efni, að Alþingi viðurkenndi að vinna bæri að því að 30-35 þús. kr. laun væri lágmark í töxtum. Útfærsluatriði út frá slíkri ályktun væru langtum auðveldari en út frá beinum lögum.

Ég er því ekki á þessari stundu tilbúinn að samþykkja þetta sem lög en ég vil eindregið taka undir þann anda og þá hugmynd sem að baki frv. liggur og hvet til þess að allt launakerfið verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar. Og reyndar hef ég alltaf verið hrifinn af tillögu Stefáns Jónssonar um hámarkslaunin og ég held að ef sú tillaga hefði verið samþykkt á sínum tíma væri ekki jafnerfið mál að fást við í launamálum eins og raun ber vitni.